29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

25. mál, kynbætur nautgripa

Sveinn Ólafsson:

Jeg veit ekki til, að nokkursstaðar sje dregið í efa, að kynbætur nautgripa hafi þýðingu fyrir landbúnaðinn. Jeg veit, að það er alment viðurkent þar, sem jeg er kunnugur, og viðleitni í þá átt er almenn, jafnvel á þeim stöðum, þar sem enginn opinber fjelagsskapur hefir nokkru sinni verið starfandi í því skyni.

Það er því ekki af því, að jeg hafi á móti slíkri starfsemi, að jeg greiði atkvæði með rökst. dagskrá háttv. 1. þm. N.-M. (HStef). Jeg vil láta bændur frjálsa í þessu efni. sumstaðar er svo ástatt, að þetta lögbundna fyrirkomulag mundi aðeins verða til trafala og erfiðisauka. Tel jeg varhugavert að lögleiða það skipulag, sem getur bakað mörgum einstaklingum óþægindi, en enga tryggingu gefur um betri árangur en fæst án opinberra ráðstafana. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara frekar út í efni þessa máls. Vildi jeg aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna jeg greiði dagskrártill. atkvæði. Tel jeg frv. óþarft að svo komnu.