05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

29. mál, jarðræktarlög

Bjarni Ásgeirsson:

Mig langar til að svara hv. 1. þm. Árn. lítilsháttar út af því, sem hann sagði um tillögu okkar þremenninganna.

Jeg lít nú á þetta mál sem heildarmál fyrir alla þjóðina, og þegar um það er að ræða, hvernig á að verja þessum jarðabótastyrk, sem hjer liggur fyrir, þá verður maður að hafa alt landið og heill allrar þjóðarinnar fyrir augum og athuga, á hvern hátt þessi styrkur komi ræktunarmálunum að sem bestum notum, og jeg er ekki í vafa um það, að rjett er, að nokkur hluti styrksins gangi til kaupa á jarðræktarverkfærum, sem reynsla og sönnun er fengin fyrir, að mundu koma að mestum notum fyrir ræktun landsins. Jeg skal ekkert deila um það við hv. frsm. (JörB), hvort þessir 10%, sem þarna er farið fram á að draga af einstaklingunum, verða til að draga úr framkvæmdum þeirra á þessu sviði, en jeg er sannfærður um það, að þeir myndu langsamlega vinna það upp, ef þeim væri með því hjálpað til að eignast hentug og góð verkfæri. Þess vegna get jeg ákaflega vel afsakað það fyrir samvisku minni, þótt jeg leggi til, að jarðabótastyrkurinn minki, þegar honum er varið í sama skyni, og hann kemur þar að meiri notum, að mínu áliti. Jeg lít á hag bændastjettarinnar sem heildar, og mjer virðist líka allir vera sammála um það að koma á slíkri sjóðstofnun, en ágreiningurinn er um það, hvort eigi að verja til þess fje, sem hingað til hefir verið varið til sameiginlegra þarfa búnaðarfjelaganna, eða afla þess á annan hátt. En jeg ætla að standa við það, að það verði ekki til þess að kippa fótunum undan starfsemi hreppabúnaðarfjelaganna. Jeg býst við, að menn muni eftir því, að sumstaðar voru búnaðarfjelögin áður ekki annað en samkoma til þess eins að skifta þessum styrk niður á milli fjelagsmanna, en svo, þegar fyrst var ákveðið, að þessum styrk skyldi verja til þarfa fjelaganna, þá fyrst fór að bóla á starfsemi innan þeirra. Og ef nú ætti að breyta um og kippa þessu skilyrði í burtu, þá yrði það til að draga úr starfsemi fjelaganna, því að það er eins og við vitum, að bændur hafa ekki mikið af reiðu peningum, og þegar búið er að svifta fjelögin þessum peningum, þá er ekki komið aftur fje frá einstaklingunum sem því svarar. Jeg þekki líka fjöldamörg fjelög, sem hafa getað hafist handa fyrir þetta fje og starfað til þrifnaðar jarðræktinni. Þau hafa upp úr þessum styrk safnað sjer sjóði og lánað fje til jarðræktar, áburðarkaupa o. fl. Þess vegna er ekki rjett að gera neitt, sem getur leitt til þess að minka aðgerðir bænda í þessu.

Svo talaði hv. þm. (JörB) um það, að með breytingu þeirri, sem nú er gerð á jarðræktarlögum, yrði bændum gert að skyldu að vera í búnaðarfjelagi, til þess að geta notið styrks samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna. En þótt skylda sje til þess, þá er ekki þar með sagt, að fjelögin fái neitt til sjerþarfa. Þetta verður kannske ekkert annað en til málamynda, alveg eins og þegar menn komu saman til þess eins að skifta styrknum. Jeg segi þetta af því, að jeg veit, að þannig var þetta áður en þessi skilyrði voru sett, og þannig verður það einnig eftir að þau eru numin burtu.

Hv. þm. var að tala um það, að við vildum heldur halda þessu skilyrði áfram, að nokkur hluti hins opinbera styrks gengi til fjelaganna, og að við byggjumst við, að það yrði þeim til gagns, en sagði, að það væri þeim blátt áfram til skammar. En það vil jeg alls ekki samþykkja.

Þá var það enn eitt atriði, sem hv. þm. hjelt fram, að væri til hins verra í okkar tillögu, sem sje það, að þessi sjóður á að vera sameiginlegur, í staðinn fyrir, að hv. nefnd leggur til, að sjóðurinn sje í mörgum deildum og skiftist niður á deildirnar eftir framkvæmdum þeirra. Jeg tel þetta höfuðkost sjóðsins, að hann á að vera sameiginlegur, vegna þess, að við lítum hjer á alla heildina og það, hvar mest er þörf fyrir styrk, því að það er auðsætt, að þeir, sem minst vinna, eru skemst á veg komnir og að það þarf helst að ýta undir þá, og með því að. hafa sjóðinn sameiginlegan verða þeir, sem lengra eru komnir, til þess að draga þá, sem skemra eru komnir, áfram með sjer; annars myndu þeir altaf dragast aftur úr.

Jeg vil þá að lokum minnast á brtt. á þskj. 310 og geta þess, að jeg styð hana eindregið. Jeg lít svo á, að þessi styrkur samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna sje alþjóðarsamtök til að hrinda ræktuninni áfram. Sú nauðsyn er jafnmikil til sjávar og sveita, og jeg álít, að við í sveitunum megum engan veginn útiloka þá, er við sjóinn búa, frá samskonar styrk og við njótum og til sömu starfa. Og við getum látið liggja á milli hluta, hvernig skipulagi þeir koma á ræktunina hjá sjer, hvort heldur að bæjarfjelögin í heild taka að sjer ræktunina eða þau skifta henni niður milli einstaklinganna.