16.03.1929
Efri deild: 24. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

13. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Guðmundur Ólafsson:

Jeg kann eigi við annað en segja nokkur orð um frv. þetta, þar sem um framkvæmd er að ræða í mínu kjördæmi, enda þótt hv. frsm. hafi talið þetta nauðsynjamál og því mælt með framkvæmd verksins, enda átti hann að vera því kunnugur, þar sem hann er fæddur og uppalinn í þessu hjeraði. Honum var því alveg óhætt að kannast við það, að þar væri þörf á höfn, því að um hafnir við austanverðan Húnaflóa er ekki að ræða, ef nokkuð verulegt er að veðri. Að austan er engin höfn, er heitið geti því nafni, og að vestan ekki heldur góðar hafnir; einkum er innsigling þar víða skerjótt og þokusamara er þar en í austanverðum flóanum.

Þá treystist n. ekki til að halda því, sem í frv. stóð, að ríkissjóður legði fram helming kostnaðar, af þeirri ástæðu, að áður hefði venjan verið að leggja ekki fram nema 1/4 kostnaðar. Þó gat hv. frsm. um það, að undantekning væri frá þeirri reglu, þar sem hafnargerðin í Borgarnesi væri. Þetta er nú rjett, og hefir það ekki hvað síst ýtt undir, að sama leið var farin við flutning þessa frv. Á það framlag mátti einmitt líta svo, að þar væri um stefnubreyt. að ræða og að ríkissjóður mundi framvegis leggja meira fram til slíkra mannvirkja en áður hafði verið gert.

Í Borgarnesi er það svo, að ríkið leggur fram helming kostnaðar við bryggjugerð og dýpkun hafnarinnar. Auk þess að öllu leyti brú yfir sundið, veg yfir eyna og allan veg á landi, eftir því sem þurfa þykir. Þetta flaug í gegn á þinginu 1926. Og miðað við tillag ríkissjóðs þarna, hefði áreiðanlega verið forsvaranlegt að láta ákvæði frv. halda sjer.

Hin brtt. hv. sjútvn., um að binda viðlagasjóðslán til þessa mannvirkis ekki með lögum, kann að hafa meira til síns máls, ef fje er ekki fyrir hendi eða sjóðurinn ekki þess megnugur. — Annars var slæmt, að hæstv. atvmrh. þurfti að vera viðbundinn annarsstaðar, því það er óhapp fyrir málið, að hann getur ekki talað fyrir því hjer. Jeg vona samt, að frv. þetta verði samþ. hjer eins og það kom fram. Höfn við Húnaflóa er lífsnauðsyn. bæði vegna strandferðanna og atvinnu hjeraðsmanna og fleiri. Þá hefir og heyrst, að fyrirhugað sje að flytja póst miklu meira á sjó framvegis en gert hefir verið. Og hvernig fer með hann, ef hvergi er hægt að koma honum í land í óveðrum að austanverðu við Húnaflóa vegna hafnleysis? — Þá er og vert að taka það fram, að þegar hafís er, þá er oft fært að Skagaströnd inn með landi að austanverðu, þótt ófært sje til annara hafna við Húnaflóa. Það skiftir miklu máli, ef hægt væri að afgreiða þarna vörur fljótlega þegar svo stendur á. Jeg hygg, að með niðurfærslu á tillagi ríkissjóðs hafi það tvent vakað fyrir sjútvn., að spara fje ríkissjóðs í bili og fylgja sem næst fordæmi um fyrri fjárveitingar. En það er nokkur spurning, hvort þetta er rjettmætt í þessu tilfelli. Á það ber þá einnig að líta, að víðast þar, sem hafnarmannvirki hafa verið gerð, hefir verið til hafnarsjóður. En hjer er aðeins um fátækan hrepp að ræða og svo sýslufjelagið, sem verða að taka þessar byrðar á sig. Og er þá hætta á, ef þessum getulitlu aðiljum verður gert mjög erfitt fyrir um framkvæmd verksins, að þá reki að því, sem oft hefir komið fyrir áður um slík mannvirki, að gefa verði eftir síðar. En Húnvetningar eru óvanir þeirri leið og vilja gjarnan vera lausir við að þurfa að fara hana, enda er sú aðferð ekki æskileg, þótt mjög hafi tíðkast á síðari árum. Þarna má segja, að sje dauður blettur fyrir strandferðaskipin, þar sem ekki er til neinnar nálægrar hafnar að flýja, ef slæmt veður er. Er hjer því um mikla nauðsyn að ræða. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta, þar sem hv. frsm. sjútvn. sagði svo lítið um þetta mál, annað en það, sem hann mælti fyrir brtt. n. En að því hefi jeg þegar vikið.