04.04.1929
Neðri deild: 36. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Sigurðsson:

Jeg stend ekki upp af því, að jeg telji þörf á því hv. frsm. til aðstoðar, heldur vildi jeg gera grein fyrir skoðun minni á því ágreiningsatriði, sem hjer er verið að ræða um.

Jeg þarf ekki að taka það fram, að jeg tel, eins og nál. ber með sjer, það hafa verið mjög ákjósanlegt, að þetta frv. kom fram. Stjórnin hefir með þessu frv. dregið saman í eina heild lagaákvæðin um þær búnaðarlánastofnanir, sem við höfum þegar átt áður, og sett þær undir eina stjórn: sem sje ræktunarsjóðinn, byggingar- og landnámssjóðinn og veðdeildina, sem er samhljóða lögunum um veðdeild Landsbankans og ekki annað en skifting á þeirri veðdeild, sem nú er til. Ennfremur bústofnslánadeildin, sem samþ. var á þinginu 1926, með nokkrum breytingum, og loks hefir hæstv. stjórn tekið upp rekstrarlánatillögur íhaldsmanna frá síðasta þingi, sem er það helsta, er ekki er nú í gildandi lögum. Jeg tel, eins og þegar er sagt, það mikinn kost að fá sameiginlega stjórn yfir þessar stofnanir, sjerstaklega ef góðir menn veldust í stjórn þessara mála.

En það, sem einkum knúði mig til þess að standa upp, voru ummæli, sem fjellu hjá hæstv. forsrh. um þá tillögu okkar í landbn., að smábátaútgerðinni yrði heimil ofurlítil þátttaka í þeim hlunnindum, sem hin væntanlega stofnun veitir. Hæstv. forsrh. virðist vera hræddur um, að sjávarútveginum verði hleypt inn í stórum stíl, en það er beinlínis tekið fram, að það er aðeins einn þáttur hans, sem getur komið til greina í þessu efni, smábátaútgerðin utan kaupstaðanna. Þegar hæstv. ráðherra er að slá því fram í þessu sambandi, að bankarnir hafi tapað milli 20 og 30 miljónum á útlánum til sjávarútvegarins, þá er verulega skotið yfir markið. þegar þess er gætt, að það má aðeins veita 4000 krónur á bát og eingöngu til þeirra, sem ekki stunda fiskverslun. (Forsrh.: Af hverju er það ekki tekið fram í frv.?). Við skoðuðum þetta frv. eins og höfuðdrætti, en höfum gert breytingatillögur við frv. um sveitabanka samhljóða því, er jeg hefi skýrt frá, og þar getur hæstv. forsrh. sjeð þær. Það er því ekki ætlun okkar að fara að stofna hjer til neinna fjárglæfra eða hætta bankanum út í ógöngur; þvert á móti. Jeg hafði það sjerstaklega í huga, að ekki óvíða hagar svo til í hreppum, sem liggja að sjó, að þó að landbúnaður sje langsamlega helsti atvinnuvegurinn, þá eru þó innan um 3-4 eða fleiri menn, sem stunda sjó að mestu eða eingöngu. Þeir geta að sjálfsögðu verið dugandi menn og efnaðir engu síður en hinir. Mörgum sveitabændum mundi því þykja hart, ef þessir bændur væru útilokaðir frá öllum hlunnindum bankans.

Að því er snertir frv. um Fiskiveiðasjóð Íslands, má geta þess, að eftir tillögum sjútvn. mundu lán úr honum aðallega verða veitt þeim útvegsmönnum, sem í kaupstöðum búa. Smábátaútvegsmenn úti um land mundu ekki fá mikið af slíkum lánum. Þeir mundu þurfa að sækja þau til Akureyrar eða Reykjavíkur, en bændur eru ekki duglegir að bera sig eftir slíku. Enda gæti jeg hugsað, að miljón væri ekki um of fyrir kaupstaðina, ef tekið er tillit til stærðar bátaflotans í kaupstöðunum. Það er vitanlegt, að þar er aðalbátaflotinn. miljón er áreiðanlega ekki nema rjett handa þeim, og þá fá hinir ekkert, sem eru lengra frá. Til þess að þeir hafi nokkurt öryggi, verður að búa öðruvísi um hnútana.

Jeg hefi nú reynt að gera grein fyrir því, hvað fyrir mjer hefir vakað í þessu efni og hvers vegna jeg taldi það skyldu mína að reyna að rjetta smábátaútveginum hjálparhönd. En það voru önnur tvö atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem jeg vildi fara nokkrum orðum um.

Annað var það, að hæstv. ráðh. taldi það geta verið hættulegt fyrir bankann, að stofnfje veðdeildarinnar væri lækkað, en þrátt fyrir lækkun má bankinn gefa út samkv. brtt. n. yfir 10 milj. í bankavaxtabrjefum, auk 11/4. milj. í stofnfje. Það er ekki auðgert að segja um veðlánaþörf bænda, en það mætti þó helst miða við reynslu veðdeildarinnar. Þar hafa á síðustu 3 árum lánin numið röskri miljón, og bankastjórnin hefir tjáð okkur nefndarmönnum, að ekki hafi verið synjað um eitt einasta lán, þar sem skjöl og skilríki voru í lagi, og að þau hafi verið afgr. jafnóðum og beiðnir komu, á undan öðrum málum.

Eðlilega aukast lánbeiðnir með vaxandi framkvæmdum, en jafnframt fjölgar þeim jörðum að sama skapi, sem eru bundnar veðböndum. Það er þegar orðið fátítt, að bændur hafi ekki jarðeignir sínar í veðdeild, sparisjóði eða söfnunarsjóði. Jeg held því, að undir öllum kringumstæðum muni þessi upphæð, 10 milj. kr., endast í mörg ár, að minsta kosti 10-15. Það getur því ekki með brtt. landbn. verið að ræða um neina hættu fyrir stofnunina.

Um happvinninga skal jeg geta þess, að eins og hv. frsm. tók svo vel fram, verða þeir keyptir einungis í von um skjótan gróða, en ekki af því að þeir, sem kaupa, hafi fje til þess að binda um langt árabil. Menn, sem hafa peninga í augnablikinu, kaupa brjefin í von um vinning. En þegar vonir þeirra bregðast um happvinninga og þeir komast í kreppu, fara þeir að bjóða út brjefin jafnvel fyrir neðan nafnverð og fella þau þannig í verði. Þetta er hættulegt. Það skapar ótrú á brjefunum og verður bara til bölvunar.