16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

140. mál, lánsheimild fyrir ríkisstjórnina

Magnús Jónsson:

* Það er næsta erfitt að ræða um þetta mál, þar sem hæstv. stj. lætur ekki svo lítið að sýna sig hjer í hv. deild, þegar þetta stærsta mál hennar er til umr.

Jeg var tafinn frá að vera hjer viðstaddur í gær, er málið var rætt við 1. umr. En jeg hafði hugsað mjer að hreyfa ýmsum aths. og beina ákveðnum fyrirspurnum mínum til hæstv. stj. í sambandi við frv. Að vísu hefi jeg heyrt, að hreyft hafi verið nokkrum aths. í gær við 1. umr., og furðar mig alls ekki á því, enda væri full ástæða til, að alllangar umr. færu fram um þetta mál, þar sem hjer er um að ræða heimild fyrir stærsta ríkisláni, sem nokkru sinni hefir verið tekið. Hjer er svo mikið í húfi, að mínum dómi, að jeg mun ekki treystast til að greiða atkv. með því, eins og alt virðist í pottinn búið.

Það mætti eflaust hreyfa andmælum og aths. gegn ýmsu því, sem ætlast er til að borga með láni þessu. Með lántökunni á að framkvæma hitt og þetta, sem heimilað er í lögum, ef fje er fyrir hendi, en sem jeg er a. m. k. ekki sammála um, að sje svo afarnauðsynlegt, að rjett sje að sækja fje til útlanda í því skyni. Að vísu er farið fram á í heimildinni, að af láninu eigi að greiða Landsbankanum stofnfje sitt, sem átti að vera búið að greiða fyrir löngu, og er jeg því fyllilega samþ., að tekið sje lán til þess.

Aftur á móti eru ýmsar framkvæmdir, sem hæstv. stj. hefir leitað heimilda til í fjárl., sem vafasamt er um, hvort Alþingi á að veita heimild til að framkvæma á þennan hátt. Virðist margt benda til, að sumar þær framkvæmdir hefðu átt að bíða þangað til fje væri fyrir hendi hjá ríkissjóði.

Annars væri hjer dálítið öðru máli að gegna, ef hæstv. stj. hefði sýnt þessu stórmáli þann sóma að láta. sjá sig við umr. Það getur verið gott út af fyrir sig að heimta af þm. að mæta hjer á fundum nótt eftir nótt, en svo geti hæstv. stj. skotið sjer undan því að vera til staðar, þegar beina þarf til hennar áríðandi spurningum, sem ætla má, að henni væri ljúft að svara.

Jeg mun ekki að þessu sinni fara langt út í þetta mál. Mjer er ljóst, að hjer er um afarstóra lántöku að ræða, þá stórkostlegustu lántöku, sem hlýtur að hafa ófyrirsjánleg áhrif á allan peningamarkað landsins. Það er með öllu óhugsandi, að hægt sje að koma með 12 milj. kr. inn í landið án þess að það hafi stórkostlegar afleiðingar fyrir peningamarkaðinn. Að vísu má svara því, að hjer sje aðeins um heimild að ræða, sem hæstv. stj. geti látið vera að nota út í ystu æsar. En verði heimildin gefin, þá getur hún líka verið notuð, og það þykir mjer sennilegast. Jeg hefði því viljað spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann hefði gert sjer ljóst, hvaða áhrif það hefði á peningamarkaðinn og gengið, ef svo stór lántaka yrði framkvæmd í einu. Ef framkvæmt yrði að taka 570 þús. sterlingspund að láni í einu, þá mundi slík ráðstöfun verka í þá átt að hækka gengið, er svo mikið væri boðið fram af erlendum gjaldeyri, þegar ekki þarf að koma nema eitt góðæri til þess að hafa þau áhrif, að sterlingspundið falli. Afleiðingin mundi því verða sú, að sterlingspundið fjelli niður í sitt rjetta gengi, en krónan færi upp í gullverð.

Mjer er líka ljóst, að ef boðið er svo mikið fram af erlendum gjaldeyri, þá verða engin tök fyrir bankana að færa svo mikið fje yfir fyrir það verð, sem nú er, nema þá að krónan hækki ekki.

Jeg hygg, að bankinn hafi átt fullerfitt með að standast þá óeðlilegu aðstöðu með gjaldeyri eftir góðærið síðastl. ár. Ef nú á að bæta við og láta bankann yfirfæra þetta miljónalán með núv. gengi, þá er það alveg sama og að stýfa. Jeg hefi hingað til verið mótfallinn stýfingu, og hlýt því að mótmæla þessari ráðstöfun, sem ótvírætt miðar að því að slá genginu endanlega föstu. Hinsvegar gæti vel farið svo, ef herfjötrar stýfingarinnar væru höggnir af krónunni, að hún færi upp í gullgildi, ef framboði og eftirspurn væri svo háttað. En af þessu mundi leiða minst tveggja milj. kr. tap fyrir bankann. Jeg geri þó ekki ráð fyrir, að yfirfærslan verði svo klaufaleg, að stórtjón hljótist af. En þetta mál hefir aðra hlið, sem Alþ. og stj. ber að líta á. Jeg á hjer við þau áhrif, sem 12 milj. kr. lán, sem veitt er inn í landið, mundi hafa á atvinnulíf vort og peningamál alment. Að mínu viti mundi slík lántaka skapa „inflation“ í landinu. Það er flutt inn í landið kaupgeta upp á 12 milj. kr. án þess að virkilegt verðmæti standi að baki. M. ö. o.: Með þessu er sköpuð fölsk kaupgeta í landinu, sem nemur tólf milj. króna. Af þessu fje á Landsbankinn að fá 3 milj. sem stofnfje. Við það losnar tilsvarandi fjármagn og gengur út í veltuna. Rekstrarfje bankans eykst snögglega um 3 milj. króna, sem renna til atvinnuveganna og hleypa ofvexti og fjöri í þá í svipinn. Við þetta skapast ólga í peningamálunum, „inflation“ eða hásveifla, sem síðar hlýtur að enda í hruni, vegna þess að þessir peningar skilja ekki eftir sig tilsvarandi verðmæti í landinu. Sama er að segja um þá peninga, sem ríkið ver til ýmsra sjóða, sem lána þá jafnóðum út í allar áttir. Alt slíkt miðar að því að hleypa fjöri í atvinnulífið og öll einkenni „inflationar“ koma í ljós. Hásveiflutímabil hefst í atvinnulífinu, sem hlýtur að enda með kreppu og hruni og stórtjóni fyrir atvinnuvegi landsins. Sá hluti þessa lánsfjár, sem varið verður til verklegra framkvæmda, orsakar ákafa eftirspurn eftir vinnuafli, og hlýtur það að hækka mjög í verði. Af því leiðir aftur vinnudeilur í þann mund, sem hásveiflutímanum lýkur. Þetta vildi jeg biðja hæstv. stj. að leggja sjer ríkt á minni, og umfram alt ber henni að gjalda varhuga við öllum mistökum, ef þetta lán á ekki að hafa í för með sjer nýtt hrun á krónunni og kreppu í viðskiftalífi voru síðar. Jeg sje nú, að næstv. fjmrh. er kominn inn í deildina; vil jeg þá benda honum á það, að við höfum ekkert hliðstætt eða svipað þessari lántöku áður, nema þá helst þegar Íslandsbanki var stofnaður og kom með nokkrar milj. kr. inn í landið. Það hafði þau áhrif, að verðlag hækkaði eigi alllítið í landinu, en gengið hjeltst þó óbreytt í það sinn. En jeg verð nú að líta svo á, að viðskiftalíf okkar nú á tímum sje mjög miklu viðkvæmara en þá, enda leiðir það beint af því, að nú er það komið í fullkomnara horf en þá. Af þessu leiðir aftur það, að því er miklu hættara við sveiflum og örum breyt. heldur en í þann mund, sem Íslandsbanki var settur á laggirnar. Jeg býst nú við, að hæstv. stj. svari þessu á þá leið, að heimild þessi, sem frv. gerir ráð fyrir. verði ekki notuð út í æsar. En til hvers er þá löggjafarvaldið að gefa slíka heimild? Jeg er andvígur þeirri einstöku fjármálaspeki, að þingið veiti ríkisstjórninni heimildir til gífurlegra lántaka, einungis í því trausti, að hún neyti þeirra ekki. Slíkt væri alveg óforsvaranlegur leikaraskapur, sem síst má láta óátalinn, þegar um peningamál þjóðarinnar er að ræða.