01.05.1929
Neðri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ekki skal jeg lengja umr. um skör fram. Bjóst jeg við, að jeg hefði ekki ástæðu til að taka aftur til máls, en hv. 2. þm. G.-K. sagði nokkur orð, er jeg þarf að mótmæla.

Hann benti á, að einkasalan þyrfti ekki að eiga mann í stjórninni, en færði ekki fram fyrir því þau rök, er nægja. Eins og jeg hefi gert grein fyrir, þá eru svo náin viðskifti með einkasölunni og verksmiðjunni, að hagkvæmt er, að einkasalan eigi þátt í stjórninni. Jeg gerði fulla grein fyrir því í minni fyrri ræðu, og skal ekki endurtaka það. En hitt skil jeg vel, að togaraeigandinn hv. 2. þm. G.-K. álíti, að heppilegra sje, að togaraeigendur ráði manni í stjórninni en stofnun ríkisins, síldareinkasalan. En um það getum við þráttað í allan dag. Aðalatriðið er það, að þeir, sem afla síldarinnar, geti hindrunarlaust lagt afla sinn á land á þeim stað, sem þeim er trygt sannvirði hans, og það er fyrsta hlutverk þessa hugsaða fyrirtækis.

Og útgerðarmönnum hlýtur að vera það mjög til hagnaðar að geta ávalt selt þann hluta síldaraflans, sem þeir salta ekki, í bræðslu við því verði, sem verksmiðjan gefur.

Jeg skal nú ekki tefja málið frekar með þessu góðlátlega rabbi, og skal nú snúa mjer að því, sem hv. þm. Borgf. sagði um 8. gr. Jeg vil benda á, að að mínu áliti felst í þessu ákvæði 8. gr. heimild fyrir verksmiðjuna til þess að kaupa síld af skipum, er eigi hafa leyfi til að leggja hjer síld á land. En viðvíkjandi því, að undanfarin þing hafi gert ráðstafanir til þess að varna útlendingum að leggja hjer síld á land til söltunar, sölu eða bræðslu, þá skal jeg benda á það, að slíkt hefir tekist næsta óhönduglega. Fiskiveiðalögin frá 1927 hafa reynst helst til götótt í verulegum atriðum. Sem dæmi má nefna, að nú mun vera nýfallinn hæstarjettardómur í máli einu, og eftir honum virðist útlendingum vera heimilt að setja síld á land hjer. Með öðrum orðum, að þeir útlendingar, sem sigla með afla í íslenska höfn, hafa leyfi til að selja hann hjer, eftir þessum dómi að dæma. Þetta ákvæði fiskiveiðalaganna er því ekki trygt og veitir enga fullgilda vörn gegn því, að útlendingar geti laumað inn hingað þúsundum hektolítra af síld. Hitt er rjett, að eftir þessum lögum er útlendingum ekki heimilt að gera fyrirfram samninga við Íslendinga um kaup á síld, enda gæti slíkt orðið til þess að yfirhlaða markaðinn og bægja íslenskum framleiðendum frá.

Hv. þm. Dal. talaði um, að þessi atvinnurekstur væri varasamur og áhættusamur. Jeg skal nú ekki fara langt inn á þetta atriði. Þetta er gömul grýla, sem reynt var að magna í fyrra, þegar þetta mál var til umr., og sem nú skýtur upp kollinum hjer í þessari hv. deild. Hjer er ekki um sjerstaklega áhættusamt fyrirtæki að ræða, enda hefir reynslan sýnt og sannað, að svo er ekki. A. m. k. hafa útlendingar ekki þá sögu að segja. Og jeg býst við, að ef hv. 2. þm. G.-K. vildi leysa frá skjóðunni og segja afdráttarlaust það, sem hann vissi sannast og rjettast um þetta mál, þá myndi hann verða að viðurkenna, að hið eina, sem getur gert slíkan verksmiðjurekstur hættulegan eða áhættusaman, er það, að alger síldarleysisár komi. En með vaxandi síldarskipastól er lítil hætta á, að ekki aflist nægilega mikið til verksmiðjunnar, jafnvel þótt lítil síldarganga sje. Jeg hygg, að alment sje þessi atvinnurekstur talinn mjög arðvænlegur, og því ætti ríkinu ekki að stafa mikil áhætta af að setja verksmiðjuna á fót og reka hana. A. m. k. kemur hv. þm. ekki til hugar að snúast gegn málinu fyrir þær sakir.

Jeg geri svo ráð fyrir, að mál þetta verði rætt í nefnd, og væntanlega finst þar einhver heppileg lausn á þeim deiluatriðum, sem ágreiningi hafa valdið hjer við umr. Jeg geri ekki ráð fyrir, að skipulag og ÖII tilhögun þessara ráðstafana samkv. frv. sje svo fullkomið, að ekki standi til bóta, ef vandlega er að gáð.