15.05.1929
Efri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 3. landsk. komst ekki vel frá að skýra það, hversu eðlilegt það væri, að síldarspekúlantar sjeu gerðir að samvinnumönnum. Ef hann hefði komist vel frá því að sýna, að á meðal þeirra væri einhver áhugi í þá átt, þá er undarlegt, að hann skuli ekki hafa látið þá útbúa það skipulag sjálfa. (JÞ: Á þá að heimta af heiðingjum, að þeir sýni kristindóm í verki?). Eða að hann skuli ekki hafa sameinað þá undir hlutafjelagsformið, sem hann kann best við.

Nei, það er öðru nær en að hjer sje af heilindum mælt. Síldarútvegsmennirnir hafa ekki borið það við að skapa nokkur heilbrigð samtök sín á meðal. —Þegar hv. 3. landsk. var ráðh., báru tveir flokksmenn hans fram frv. á Alþingi um, að reynt yrði að gera mögulega samvinnu um að söltun og sala á síld gæti átt sjer stað undir föstu formi. Framsóknarmenn hjálpuðu til þess, að þetta frv. yrði að lögum, En íhaldsstj. gerði ekkert til þess að koma þeim lögum í framkvæmd eða nota þá heimild, sem í þeim fólst. — Nú var tvent til: Íhaldsmenn hafa altaf reynt að ófrægja ríkisrekstur og samvinnuskipulag. En þeir urðu að beygja sig fyrir því sameinuðu; ganga fyrst inn á einskonar ríkisrekstur, og snúa því síðan yfir í samvinnuskipulag.

Þó að þingið hjálpaði þeim til þess að mynda þetta form, þá gátu þeir ekkert notað það. Samkepnin hjelt áfram að ríkja á meðal þeirra. Sjálfir lágu þeir flatir fyrir útlendingunum eins og áður, og verðið á síldinni hrapaði niður í 7 kr. fyrir síldartunnu og stundum var síldinni fleygt. Alt var í hinni mestu óreiðu.

Þá komu samvinnumenn til sögunnar með það form, sem samþ. var á síðasta þingi — einkasölulögin —, til þess að útiloka, að síldarspekúlantarnir gerðu alt vitlaust. Þetta var kölluð lögþvinguð samvinna, og það virðist vera hið eina form, sem hægt er að nota við þessa menn, en ekki það form, sem þeim hafði áður staðið til boða frá þinginu. Það er af þessum ástæðum, þegar jeg tala um það eins og trúboð meðal „negra“, ef reynt væri að boða þessum stjettum samvinnuskipulag.

Hitt er eins og heimatrúboð meðal hvítra og kristinna manna, og alt annað hlutverk að útbreiða samvinnuhugsjónir á meðal þeirra stjetta, sem í 50 ár hafa reynt að nota það skipulag. Þó að samband ísl. samvinnufjelaga sendi út fyrirlesara til þessarar starfsemi, þá dettur engum í hug, að þeir fari þangað, sem jarðvegurinn er verstur, t. d. til síldarspekúlanta á Siglufirði, í þeim erindum að gera þá að samvinnumönnum.

Þessar till. gera ráð fyrir því, að bað sje ekki hægt að fá útvegsmenn meðal þessarar kynslóðar til þess að reka síldarverslun í samvinnustíl, fyrst þeim tókst ekki áður að stofna og reka síldarsamlag. Þess vegna eru þeir meðal negra í þeim efnum, sem snerta samvinnustefnuna. Það er svo alkunnugt, að flokkur hv. 3. landsk. og málgögn hans svívirða samvinnufjelögin ljóst og leynt. Hv. þm. sagðist vilja hafa samvinnuskipulag á síldarútveginum. ef það væri frjálst. en ekki lögþvingað. Hvers vegna hefir hann ekki fengið togaraútgerðarmenn til þess að taka um þetta samvinnusnið og kasta hlutafjelagsforminu? (JÞ: Sigurjón Ólafsson og Jón Baldvinsson vilja það ekki). En Ólafur Thors og Jón Ólafsson? Vilja þeir það ekki heldur? Þeir, sem hjer eru að boða samvinnutrú, virðast ekki halda henni að sínum eigin mönnum; og fyrir nokkrum árum strönduðu samlagstilraunirnar á útgerðarmönnum.

Að síðustu sagðist hv. 3. landsk. vera ákaflega vinveittur samvinnustefnunni. En jeg vil þá aðeins vísa til þess, hvernig aðalblað íhaldsfl., „Morgunbl.“, og hin 12–14 fylgiblöð þess hafa öll gengið berserksgang til þess að óvirða samvinnufjelögin, og jafnvel látið sjer detta í hug, að hægt væri að eyðileggja þau.

Með einu bankalagafrv., sem kom fram hjer í deildinni, liggur fyrir till. frá einum af brjóstvinum hv. 3. landsk. um að útiloka frá lánstrausti og viðskiftum við bankann um 8 þús. fjölskyldufeður í landi, af því að þeir eru í samvinnufjelögunum. Þar sjást heilindin.