11.05.1929
Neðri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

39. mál, einkasala á síld

Ólafur Thors:

Hv. frsm. minni hl., hv. þm. Vestm., hefir nú gert ítarlega grein fyrir afstöðu minni hl. og þeirra, sem standa að brtt. á þskj. 575. Vegna ræðu hans mun jeg láta nægja að tala einungis alment um málið, og mun minna en jeg ella hefði þurft að gera.

Það var á Alþingi 1926, að íhaldsmenn fluttu frv. um að skipulagsbinda síldarútveginn. Var þá komið í óefni hið mesta með þennan atvinnuveg, og var okkur íhaldsmönnum ljóst, að við svo búið mætti vart standa öllu lengur. Við lítum þá svo á, að grípa yrði til einhverra opinberra ráðstafana til þess að firra þennan atvinnuveg hruni og til þess að afstýra þeim fjárhagslega hnekki, sem óreiðan hlyti að hafa í för með sjer. Svo sem kunnugt er, álíta íhaldsmenn frjálsa samkepni ótvírætt helsta þroskaskilyrði þjóða og einstaklinga, en eins og hjer stóð á, þá viðurkendu íhaldsmenn, að í síldarsölunni nyti samkepnin sín enganveginn, og að hvergi kæmu gallar hennar frekar í ljós en einmitt í síldarútveginum íslenska eins og hann var þá rekinn. Og það skal enn játað, að eins og sakir stóðu þá, þá var full ástæða fyrir ríkisvaldið að grípa í taumana. Og jeg hygg, að ekki orki tvímælis, að sú leið, sem valin var 1926, sje sú heppilegasta í þessu máli, en hinsvegar skal það játað, að útgerðarmerin voru seinir á sjer að hefjast handa með innbyrðis samtök, eins og ætlast var til, og það var ekki fyr en í ársbyrjun 1928, að bundið var fastmælum að stofna til fjelagsskapar í þessu skyni. Voru þá samin lög fyrir fjelagsskap þennan, og var fjelagið reiðubúið til þess að taka til þeirra verkefna, er fyrir lágu. Svo er það á þinginu 1928, að fram kom frv. um þessi mál, sem gekk í öfuga átt við lögin frá 1926. Skyldi samkv. því frv. taka völdin úr höndum framleiðenda og leggja þau í hendur ríkisvaldsins. Við íhaldsmenn börðumst mjög eindregið gegn glapræði þessu, en það bar lítinn árangur, svo sem staðreyndir herma. Við bentum á, hve hættulegt það væri að svifta framleiðendur sjálfa yfirráðum yfir framleiðslu sinni, og við spáðum því, að ef það frv. yrði samþ., þá myndi annað ráða meiru um val forstöðumanna þessa fyrirtækis en hæfileikar einir. Af þessum orsökum töldum við þetta hið mesta óráð, en kusum annað skipulag á þessum málum. En við vorum bornir atkvæðum og frv. náði fram að ganga, illu heilli. Jeg hygg þó, að ef okkur íhaldsmönnum hefði þótt sýnt, að val forstöðumanna færi eftir hæfileikum, en ekki eftir öðru, þá hefðum við getað felt okkur við frv. En jeg þykist engan meiða, þó jeg segi, að hrakspár okkar, sem við tíunduðum við umr. málsins á Alþingi í fyrra, hafi rætst í miklu ríkari mæli en við höfðum jafnvel gert okkur grein fyrir og heldur en við höfðum óttast. Nú, að þeirri reynslu fenginni, sem síðasta ár hefir fært mönnum, getur engum blandast hugur um, að Alþingi í fyrra fórst þetta mál mjög óhönduglega úr hendi, og jeg á satt að segja erfitt með að skilja hugsanagang þeirra manna, sem þykjast aðhyllast samvinnu, að þeir skyldi ekki sjá, hvílíkt tækifœri og hvílík aðstaða þeim gafst í síldarútveginum til þess að sanna alþjóð ágæti samvinnustefnunnar og mátt hennar. En þeir kusu heldur ríkisrekstur. Síldarútvegurinn hafði verið í rústum í nokkur ár. Nú var það viðurkent af öllum, samkepnismönnum sem öðrum, að til bóta myndi bregða, ef skipulagi væri komið á síldarútveginn. Aðstaðan var því alveg einstæð fyrir samvinnumenn til þess að sanna stefnu þeirra í verki. En mistök þau, sem orðið hafa á rekstri einkasölunnar þetta ár, sýna það og sanna, að í framkvæmdinni er þessi leið, sem stjórnarliðið ákvað að fara, svo gölluð, að ófær má teljast. Gallar laganna 1928 komu strax í ljós, þegar farið var að kjósa í stj. þessa fyrirtækis, og hygg jeg, að nokkru hafi þar um ráðið það ofríki og sú ósanngirni þingmeirihlutans í fyrra, að meina minni hl. útflutningsnefndar að eiga nokkra íhlutun í vali framkvæmdarstjóranna. Þetta hygg jeg, að hafi verið mjög misráðið. Yfirleitt held jeg, að það sje skakt að reyna ekki þegar í upphafi að tryggja samúð sem flestra þeirra, sem við fyrirtœkið eiga að skifta og undir fyrirkomulaginu eiga að búa. En hœgasta leiðin til þess að gera þetta hvorttveggja var að heimila minni hl. útflutningsnefndar að taka þátt í kosningu framkvœmdastjóra einkasölunnar. Þetta hefði náðst, ef þeir hefðu verið kosnir með hlutbundinni kosningu, en það var ekki því að heilsa, að svo væri. Það voru barðar niður allar till. okkar íhaldsmanna til þess að tryggja þetta. Meiri hl. Alþ. hjelt fast við sinn keip, og afleiðingin varð sú, að þessi sami meiri. hl. hefir ráðið allri stj. og fyrirkomulagi þessa fyrirtækis, og ber því að sjálfsögðu líka alla ábyrgðina á því.

Jeg vil í engu hallmæla framkvæmdarstjórum síldareinkasölunnar, en jeg held, að það sje sannmæli um tvo af þessum þrem framkvæmdarstjórum, að þegar tilnefning þeirra varð almenningi kunn, þá urðu allir undrandi. Ekki af því, að þessir menn væru svo illa gefnir, heldur af því, að það var öllum vitanlegt, að hvorugur þeirra hafði komið nálœgt þeim atvinnurekstri, sem þeir voru nú kjörnir til þess að stjórna fyrir alla þjóðina. Af þessu má ekki blessun leiða, og það er undarleg skammsýni af þeim mönnum, sem ráða eiga, að vera svo hirðulausir um hag þjóðarinnar, að þeir skuli ekki stýra framhjá slíkum skerjum sem þessum.

Um einn af framkvæmdarstjórunum má með rjettu segja, að það var hreint og beint hnefahögg á útgerðarmenn að verða að lúta yfirstjórn hans. Þessi maður hafði lýst yfir því á opinberum fundi, að útgerðarmenn mættu aldrei fá neinn hagnað af atvinnu sinni, síldarútveginum. Þetta er móðgun við útgerðarmenn, og jeg get bent á það til samanburðar, að bændum mundi þykja það hart, ef skipaður væri maður yfir öll þeirra mál, sem opinberlega hefði lýst yfir því, að þeir mættu aldrei hafa neinn hagnað af framleiðslu sinni. Það væri móðgun við þá. Og það er móðgun við útgerðarmenn, að sá maður, sem hafði þessi ummæli, skuli ekki tafarlaust vera látinn hverfa frá starfi sínu. Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um ágæti þessara marina, sem til framkvæmdanna voru valdir, en ætla heldur að láta staðreyndirnar tala.

Það fyrsta, sem þjóðinni varð kunnugt um af afrekum einkasölunnar, var sendiför, sem farin var af einum framkvæmdastjóranna og öðrum manni, sem átti að hafa þekkingu á þessum málum, en sem virðist af einhverjum ástæðum ekki hafa notað þá þekkingu í þjónustu þess málefnis, sem hann átti að vinna fyrir. Þeir fjelagar fóru utan með víðtæk erindisbrjef frá útflutningsnefndinni, sem er æðsta yfirstjórn þessara mála hjer á Íslandi. Það fyrsta, sem svo frjettist af þessum sendimönnum, er það, að þeir hafi gert samning við danskt verslunarfjelag um, að það skyldi hafa á hendi einkaumboð til að selja íslenska síld á Norðurlöndum. Allir, sem til þektu, vissu, að þetta var hneyksli. Slík ráðstöfun sem þessi var hreint og beint að kasta peningum í sjóinn. Það var líka fyrirfram vitanlegt, að Svíar hlutu að finna sig móðgaða með því að geta ekki fengið þessa vöru frá Íslandi nema fyrir milligöngu Dana. Svíar kaupa einmitt langmest af þessari vöru, en Danir sama sem ekki neitt. Það fór líka svo eftir að þetta frjettist, að því var mótmælt harðlega og menn vildu ekki trúa, að þetta gæti verið satt. Þetta gekk svo langt, að sjálfur form. síldareinkasölunnar skrifaði grein um það í stj.-blaðið Tímann, þar sem hann sagði, að þetta væri tilhæfulaust. Það hefði enginn slíkur samningur verið gerður og enginn fótur væri fyrir frjettunum. En nú er það sannað, að samningurinn var gerður. Það er sannað með skýrslu þeirri, sem gefin er út af einkasölunni sjálfri, og það er ekki einasta óviðfeldið, heldur óþolandi ósvinna, að form. einkasölunnar skuli neita staðreyndum og bera fram vísvitandi ósannindi í opinberu blaði. Hvergi mundi slíkt þolast. Jeg vil leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 3–4 línur úr skýrslu framkvæmdastjórans máli mínu til stuðnings. Þar segir svo:

„Umboðssölusamningar voru gerðir við Johnson & Engelhardt, Göteborg, Th. Wesslau í Stockholm, og hinir mikið umræddu söluumboðssamningar við Brödrene Levy í Kaupmannahöfn, sem upphaflega var ætlast til, að næðu yfir Norðurlönd“.

Þarf nú ekki framar vitnanna við. Hjer er komin svart á hvítu óvjefengjanleg viðurkenning frá rjettum aðila um það, að það var ósatt, sem form. síldareinkasölunnar lýsti yfir í stjórnarblaðinu. Samningarnir voru gerðir. Og form. einkasölunnar hefir ekki aðeins farið með rangt mál og ósannindi. heldur hreint og beint valdið hneyksli. Það var líka hneyksli, að samningarnir voru gerðir. Frá hvaða sjónarmiði sem þetta er skoðað, þá er það verslunarlegt hneyksli, að gyðingafirma í Danmörku skyldi fá einkaleyfi á að selja þessa íslensku vöru um öll Norðurlönd. Þetta verður næstum hlægilegt, ef það væri ekki skaðlegt, þegar á það er litið, að Danir kaupa sama sem ekkert af þessari vöru sjálfir. Það ber líka vott um einfeldni þeirra, sem þessu rjeðu. Stjórn einkasölunnar neyddist til þess að upphefja þessa samninga, því að reynslan sannaði, að þetta gat ekki gengið. Reynslan varð sú, að það reis svo sterk alda gegn þessu bæði frá okkur Íslendingum og Svíum, að einkasalan varð að kaupa sjer frið. Jeg veit ekki, hvaða verði sá friður var keyptur, en það sjer hver maður, að samningur um 6 milj. kr. árleg viðskifti, hann er ekki gefinn. En hann er seldur, ef nóg er í boðið, og jeg efast ekkert um, að svo hafi verið hjer. Hvaða baktjaldamakk og fríðindi hafa átt sjer stað í sambandi við þetta, það veit jeg ekki, en jeg er hinsvegar viss um það, að einhver fríðindi hafa komið þarna á móti, og þau ekki lítil.

Eftir Levy-samningana var næsta skref sendimannanna að selja fyrirfram megnið af dýrmætasta aflanum til Svíþjóðar. Það var í rauninni ekkert við það að athuga, þó það væri gert, og eðlilegt, að þeir vildu skifta við Svía. Það var skylda einkasölunnar við erlenda kaupendur að vera lipur í samningum og sýna þeim, að hún átti ekki að vera hnefahögg á þá frá íslenska ríkinu. En hitt er athugavert. hvernig þessir samningar voru gerðir og hvaða ákvæði voru í þeim. Í þeim voru svo alveg óvenjuleg ákvæði, sem báru vott um fádæma barnaskap og fáfræði þeirra manna, sem að þeim stóðu fyrir okkar hönd. Fyrsta ákvæðið í samningum þessum er það, að það síldarmagn, sem selt verði eftir þeim. skuli vera af fyrstu veiði. Nú vita það allir, sem nokkuð eru kunnugir þessum málum, að það bregst sjaldan, að fyrsta veiði nær háu verði. Það var því alveg ástæðulaust að láta þessar 40 þús. tn., sem seldar voru eftir samningunum, vera af fyrstu veiði. Þetta er sjerstaklega vítavert, þegar litið er á, hvað verðið var lágt. Í samningunum var sem sje lagt til grundvallar það verð, sem sennilega hefði fengist, ef seld hefði verið venjuleg íslensk síld af miðsumaraflanum. Auk þess nú að tilgreina þetta verð, þá var ákveðið í samningunum, að viss tala sílda skyldi vera í hverri tunnu, og áttu 270 síldar að vera í hverri 90 kg. tunnu. Þetta ber vott um ókunnugleika. Allir, sem til þekkja, vita, að þessi stærð er mjög sjaldgæf, og það er yfirleitt stærsta og besta síldin. Þessar staðreyndir fengu líka staðfestingu á síðasta sumri, því að þegar átti að fara að ná í þessa stærð, þá var sama sem ekkert til af henni, og ekki nærri nóg til þess að hægt væri að standa við samningana. Á einni síldarstöð t. d., þar sem saltað var afarmikið, víst einar 10 þús. tunnur, vissi jeg til, að ekki voru nema einar 140 tunnur til af þessari stærð. Við athugun þessara samninga hljóta allir að sjá, að þar fer saman miðlungsverð, fyrsta veiði og stærsta og dýrasta síldin. Er þá illa á haldið. Með þessu er þó ekki alt sagt, sem miður fór, því að ennþá eru ógreind þau ákvæði, sem mestu hneykslunum valda í augum allra manna.

Í þessum samningum á kaupandinn sjálfur að dæma um gæði vörunnar. Kaupandanum er í sjálfsvald sett að dæma um, hvort varan fullnægði þeim kröfum, sem gerðar voru, eða ekki, Með þessu er nú síldarmatið íslenska gert einskis virði. Hitt var þó alvarlegra, að þegar slík ákvæði eru í samningi, þá er hann ekki einungis einskis virði, heldur verra en ekki neitt. Ef varan fellur á tímanum frá samningsdegi til afhendingardags, þá segir kaupandinn: „Varan fullnægir ekki settum skilyrðum að mínum dómi. Jeg tek ekki við henni“. En ef varan hækkar aftur á móti á þessum sama tíma, þá segir kaupandinn: „Varan er sæmileg. Jeg tek á móti henni“. Af þessum ákvæðum leiðir, að ef varan fellur í verði frá samningsdegi til afhendingardags, þá er samningurinn einskis virði, en ef hún hækkar, þá er seljandinn bundinn við hann. Slíka samninga gera ekki nema börn, og það alveg óvenjuleg börn.

Þó er enn ótalin ein höfuðsynd þeirra sendimannanna. í samningunum var ennþá eitt nýtt hneykslisatriði. Í þeim var svo ákveðið, að ef verðið fjelli á markaðnum frá samningsdegi til afhendingardags, þá skyldi einnig færast sjálfkrafa niður verð þess síldarmagns, sem samið var um. Þetta er það, sem Svíar kalla „Prisfaldsgaranti“, og það leiðir það af sjer, að samningarnir verða verri en ekki neitt. Ef verðið fellur á markaðnum, þá fellur líka samningsverðið, en ef verðið hækkar, þá hækkar það ekki. Hvaða heilvita maður gerir nú svona samninga? Það er ekki hægt að hafa um þetta vægari ummæli, og vil jeg þó ekki viðhafa hörð orð. Það var meira að segja í þessu „Prisfaldsgaranti“ svo ákveðið, að engin ágústveidd síld, ekki einu sinni smæsta ágústsíldin, skyldi seljast lægra verði heldur en sú stóra og góða síld af fyrstu veiði, sem samið var um. Með þessu var þá stóra og góða síldin færð niður í það verð, sem litla og vonda síldin gat komist lægst. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þessa marklausu samninga, en það er ekki ofmælt, að þar var okkar aðstaða gerð verri heldur en hún gat verst orðið.

Verðið er í meðallagi fyrir venjulega vöru, en svo er seld besta varan af fyrstu veiði, og hagur hinna erlendu kaupenda trygður á alla vegu. Íslensk matsvottorð virt að vettugi og hið íslenska mat gert einskis nýtt.

Þessir samningar bera þess vott, að spádómar okkar íhaldsmanna í fyrra hafa því miður rætst. Og það er ekki nóg með, að þeir hafi rætst. Staðreyndirnar sanna, að ástandið varð ennþá verra heldur en okkur nokkum tíma gat órað fyrir, að það gœti verst orðið. Þessar staðreyndir sanna líka það, að þegar til þessara starfa veljast menn, sem enga faglega þekkingu hafa, þá hlýtur altaf svo að fara, að skaði og tjón hljótist af fyrir alþjóð manna. Þessir samningar eru ríkur vottur um skeikulleik hins fáfróða. Þeir eru sönnun þess, að þegar hið pólitíska vald fer að skipa slíka menn til þess að hafa á hendi formensku atvinnufyrirtækja, þá er atvinnugreininni stofnað í beinan voða. Þeir eru órækari sönnun heldur en við íhaldsmenn hefðum kosið fyrir þeirri stefnu okkar, að láta altaf þekkinguna ráða, en hugsa ekki um það, hvort pólitískur taglhnýtingur þarf að fá bitling eða ekki.

Jeg hefi aðeins nefnt eitt dæmi um mistök hjá einkasölunni. Þau mistök eru ávöxturinn af þeim grundvelli, sem lagður var með löggjöfinni í fyrra. Þau voru fyrirfram sjeð, og það var bent á þau. Það var hægt að stýra fram hjá þeim, ef menn hefðu ekki lokað augum og eyrum fyrir öllum rökum. Menn vildu trúa, en ekki skilja. Verslunarmálin eru orðin að trúmálum, og þá sjá allir, að ógæfan er framundan. Jeg veit ekki, hve lengi staðreyndirnar verða að kveða upp sinn skýra og harða dóm, en jeg vona það og óska þess af heilum hug, að þjóðin þurfi ekki lengi að búa við blindni hins ráðandi meiri hluta og skynsemin fái að ráða, en ekki trú.

Eins og jeg sagði áðan, þá hefi jeg aðeins tekið eitt dæmi, og jeg œtla ekki að fara að rekja alla sögu málsins. Jeg kem því ekki við. Það er bæði leiðinlegt og tafsamt að tína fram eitt og eitt dæmi, því að það er víst ekki ofmælt, að dæmin eru mörg. Þau eru óteljandi. Afleiðingarnar eru líka kunnar og lýsa sjer best í því, að það er víst alveg óhætt að fullyrða, að verðið á síldinni hefir aldrei verið hlutfallslega eins lágt eins og á þessu ári.

Verðið fer eftir framleiðslunni. Árið 1926 er sambærilegast við þetta ár hvað afla snertir, en þá var verðið á vörunni til framleiðendanna ekki aðeins hœrra en nú í ár, það var ekki aðeins helmingi hœrra, heldur margfalt hœrra en í ár.

Það útgerðarfjelag, sem jeg veiti forstöðu, keypti þá í mánuð afla af mörgum síldveiðiskipum og greiddi fyrir hverja strokktunnu af nýrri síld 38–45 kr. Nú í sumar fjekk enginn hœrra verð en 12–14 kr.

Á þessu œttu menn best að geta skilið, að þetta dugir ekki. Það verður altaf örlagaríkt þegar þeir menn eru valdir til forustunnar, sem ekkert skilja og ekkert skyn bera á þau störf, sem þeir eru settir til að inna af hendi.

Að öðru leyti skal jeg ekki gera stj. einkasölunnar eða framkvæmdir hennar að umtalsefni nú, að því einu undanskildu, að jeg tel hana tvímœlalaust hafa brotið lögin frá síðasta þingi, með því að kaupa og selja tunnur og salt. Í 5. gr. þeirra laga er svo fyrir mælt: „Framkvæmdarstjórninni er heimilt: Að liðsinna viðskiftamönnum einkasölunnar um útvegun á tunnum og salti til verkunar síldinni, ef orðið getur án fjárhœttu fyrir einkasöluna“. Um það, hvern skilning beri að leggja í þetta ákvæði, var mjög lætt á síðasta þingi, bæði af þáv. frsm. meiri hl. og mjer, og kom okkur saman um, að með því mætti á engan hátt leggja fjárhagslega áhættu á einkasöluna, og við vorum ennfremur sammála um, að slík verslun yrði því að vera í mjög smáum stíl, og ekkert látið nema gegn öruggum tryggingum. En nú orkar ekki tvímælis, að verslun einkasölunnar með þessa hluti hefir verið í mjög stórum stíl, og hefir því eðlilega fylgt henni mikil áhœtta fyrir fyrirtækið. Hvort tap eða gróði hefir orðið á versluninni, veit jeg ekki, enda skiftir það ekki miklu máli í þessu sambandi. Hitt er aðalatriðið, að með versluninni hefir verið lögð óþarfa áhœtta á einkasöluna, en það er beint brot á fyrirmælum laganna. Og það hljóta allir að skilja, að áhœttan getur hafa verið mikil, enda þótt svo hafi ef til vill ráðist, að af henni hafi ekki leitt fjárhagslegt tjón fyrir fyrirtækið í þetta sinn. Eftir nú að þetta óheillaspor var stigið á síðasta þingi, sem samþykt einkasölunnar var, er nú meiningin að stiga nýtt og örlagaríkt spor á sömu braut “þegar á þessu þingi. Og jeg skal ekki draga neina dul á það, að jeg tel meinið í þessu öllu liggja í sambúðinni á milli framsóknarflokksmanna og jafnaðarmanna, því að þetta einokunarfaraldur er ekki raunveruleg stefna framsóknarmanna, enda er gaman að veita því athygli, að öll þessi einkasölufrv. eru borin fyrst fram í Ed., og það af hv. þm. Ak., sem er yfirlýstur jafnaðarmaður, ásamt hv. 2. þm. S.-M., sem allir vita, að er jafnaðarmaður líka. Svo eru mál þessi knúð áfram í gegnum deildina af þeim, sem þar er voldugastur, sem sje hæstv. dómsmrh., sem vitanlega er ekki minni jafnaðarmaður en hinir. Jeg teldi þó miklu betra, að hæstv. dómsmrh. væri sjálfur frumkvöðull þessara mála, þrátt fyrir það, þó hann sje jafnaðarmaður, ef hann aðeins bæri skyn á síldarútgerð; en því miður þekkir hann ekkert til þeirra hluta, og þiggur því ráð af öðrum jafnaðarmönnum, skoðanabræðrum sínum, sem vegna aðstöðu sinnar eru taldir bera skyn á þessa útgerð, en sem reynslan hefir sýnt, að hafa sorglega lítið vit á henni. Á jeg þar sjerstaklega við hv. þm. Ak. og hv. 2. þm. S.-M. Ógæfan liggur því í því, að framsóknarflokksmenn láta alveg stjórnast af jafnaðarmönnum í þessum málum.

Þegar nú mál þetta kemur til okkar, eftir að hafa fengið slíka afgreiðslu í Ed., fáum við aðeins þá ánægju að tala um það í deildinni, því að í nefnd hefir það ekkert verið rætt. Form sjútvn., hv. 1. þm. S.-M., tók það að vísu einu sinni á dagskrá í n., og mun það þá hafa verið rætt í mesta lagi einn stundarfjórðung og afgreitt svo án þess að við minnihl.menn fengjum tækifæri til þess að koma með okkar athuganir. Hinn greindi og góði þm. anaði þar áfram eins og sá, sem óttast reidda svipuna yfir höfði sjer. Hv. þm. vildi útiloka allar rökræður um málið, og get jeg vel skilið þá afstöðu hans. Eins og allir vita, sem þekkja þennan hv. þm., er hann maður greindur og athugull, og því hefir hann sjeð það fyrirfram, að hann mundi eiga erfiðara með að standa á móti till. okkar, ef hann hlýddi á rök þau, sem við hefðum með þeim fram að færa. En breyt. á frv. mátti hann ekki ganga inn á, því að flokkssvipan hafði sagt honum, að það ætti að ganga fram óbreytt.

Þær vonir okkar minnihl.manna að fá að ræða þetta stóra mál í sjútvn. við þennan góða og gegna mann hafa því, eins og jeg tók fram, algerlega brugðist, og svo þegar við viljum ræða það við deildarmenn, sjest ekki framsóknarmaður í deildinni, að undanskildum forsetanum. Þetta er þeim mun verra, þar sem Nd. er sá vettvangur, sem ræða ber á slíkt mál sem þetta, því þótt hv. Ed. gani áfram í blindni, eru þó margir framsóknarmenn, sem sæti eiga hjer, svo sanngjarnir, að þeir líta á skynsamleg rök. En í þessu stóra máli er sleginn sá varnagli fyrir þeim veikleika, sem allir góðir menn hafa fyrir gildum og ótvíræðum rökum, að allir framsóknarmenn deildarinnar eru látnir vera fjarverandi. Slík meðferð á svona stóru máli sem þessu er ekki aðeins óviðeigandi, heldur líka hættuleg. Í n. má ekkert um það tala, en í d. þýðir ekkert að tala um það, því að þar eru engir viðstaddir.

Að loknum þessum almennu aths. skal jeg leyfa mjer að víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu eins og það liggur fyrir, og vil jeg þá fyrst beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl., hvernig skilja beri fyrirmæli 1. gr., þar sem segir svo: „Síldareinkasala Íslands hefir einkasölu á allri síld, sem er söltuð, krydduð eða verkuð á annan nátt til útflutnings á Íslandi, svo og á allri síld, sem veidd er til útflutnings af íslenskum skipum hjer við land“. Jeg geri nú frekar ráð fyrir, að hjer sje aðeins átt við þá síld, sem flutt er út söltuð eða krydduð, en ekki við þá síld, sem veidd er hjer við land og látin í bræðslu og flutt út sem mjöl eða olía. Enda þótt jeg geri nú ráð fyrir, að þetta sje hugsunin, sem vakað hefir fyrir flm., þá vænti jeg þess þó, að hv. frsm. meiri hl. svari þessari fyrirspurn minni, til þess að það komi skýrt fram, hvað meint er með þessu ákvæði í frvgr.

Þá er eitt fyrirmæli 1. gr., sem jeg tel alveg ástæðulaust, en hættulegt, og það er, að veiðimenn eiga að afhenda einkasölunni ferska síld til söltunar, ef hún óskar þess. Nú er það vitanlegt, að fjöldi manna hefir lagt mikið fje í það að koma upp síldarsöltunarstöðvum, en með þessu er verið að taka af þeim umráðarjettinn yfir þeim. Það er því alt á eina bókina lært. Fyrst er tekinn rjettur af síldveiðimönnunum og eigendum bátanna og svo einnig af eigendum stöðvanna. Og það hafa engin rök verið færð fram með því, að þetta væri æskilegt, hvað þá nauðsynlegt.

Jeg verð nú að segja það, að mig undrar stórlega, að bændaflokkur þingsins skuli ljá fylgi sitt til þess að stofna ríkissjóði í hættu vegna síldarsöltunar, en með fyrirmælum þessa frv. er nú lagt inn á þá braut. Sömuleiðis get jeg tekið undir með hv. þm. Borgf., þar sem hann ljet í ljós undrun sína yfir ákvæðum 5. gr. frv. þessa. Það er að sjálfsögðu æskilegt, að öll atvinna sje rekin með þeim hætti, að hún sje sem tryggust fyrir verkafólkið. En hitt undrast jeg, að bændur skuli beita sjer fyrir því að gera síldarútveginn sem tryggastan, af því að sú atvinnugrein er einmitt mesti keppinautur landbúnaðarins. Hún er rekin á þeim tíma, sem bændur þurfa mest á fólki að halda, og hleypur því í kapp við þá um verkafólkið. Jeg fyrir mitt leyti sje því enga ástæðu til þess fyrir ríkissjóð að veita þessari atvinnugrein frekar stuðning en öðrum atvinnugreinum, og sjerstaklega undrast jeg þó, að bændaflokksmenn skuli beita sjer fyrir þessu. Hv. þm. Vestm. og hv. þm. Borgf. hafa að öðru leyti gagnrýnt frv. þetta svo rækilega, að jeg vil ekki gera mig sekan í því að lengja umr. að óþörfu með því að endurtaka þau rök, sem þeir hafa fært fram gegn því. Skal jeg því ekki fjölyrða frekar um einstök ákvæði þess.

Jeg þarf nú tæplega að skýra frá því, að við minnihl.menn leggjum ríka áherslu á, að frv. verði felt, því að við teljum það stórskaðlegt. En þar sem við gerum ekki ráð fyrir að fá því framgengt, þá höfum við borið fram brtt. á þskj. 575. En jeg vil strax taka það fram, að því fer fjarri, að jeg a. m. k. kjósi heldur það fyrirkomulag á þessum málum, sem gengið er inn á á þessu þskj. Það er því borið fram sem tilraun til samkomulags við hina ráðandi flokka þingsins, og þá sjerstaklega Framsóknarflokkinn. Lengra varð ekki komist til þess að fara samkomulagsleiðina. Jeg ætla nú alls ekki að fara að skýra þessar till. okkar, því að fyrsti flm. gerði það svo ágætlega. En jeg vil leiða athygli að því, að í þeim er verið að ganga inn á samlagsbrautina gegn einkasölubrautinni. Jeg verð því að segja það, að stefna framsóknarmanna er ekkert annað en innatóm óróaglamur, ef þeir nú enn á ný vilja stefnu jafnaðarmanna frekar en sína eigin. En það gera þeir, ef þeir ganga á móti brtt. okkar minnihl.manna. Þá skal jeg taka það fram sjerstaklega, að 3. brtt. við 6. gr frv., er frá minni hendi aðeins til samkomulags, því að jeg er andvígur afskiptum einkasölunnar af tunnu- og saltkaupum. Við berum till. fram í þeirri von, að því lengra sem við göngum á samkomulagsbrautinni, því frekar sje þess að vænt, að framsóknarmenn mæti okkur á miðri leið. — Jeg skal svo ekki tala frekar um brtt. okkar, en jeg vona, að þær nái samþykki hv. dm., og reiði jeg mig þar einkum á þá hv. þm., sem telja sig sigla undir fána samvinnunnar.

Það hefir oft verið sagt um Framsóknarflokkinn, að hann væri stjettarflokkur bændanna, og víst er það, að þm. hans draga ekki dul á, að svo sje, þegar þeir koma upp í sveitirnar. Þannig hefir t. d. hæstv. forsrh. oft sagt: Jeg er maður bændanna og tala fyrst og fremst þeirra máli. — Jeg er alls ekki að segja, að þetta sje neinn kostur á flokknum eða lofsverð stefna. Þvert á móti tel jeg það til minkunar sjerhverjum flokki að draga taum einnar stjettar gagnvart annari. Hvað sem nú þessum yfirlýsingum hv. framsóknarmanna líður, þá verður það ekki sagt með sanni nú á þessum síðustu og verstu dögum, að Framsóknarflokkurinn á Alþingi hafi verið flokkur bændanna og borið þeirra hagsmuni fyrir brjósti. Í gær greiddi hann t. d. atkv. með því, að ríkissjóður legði fram mikið fje til byggingar verkamannabústaða, enda þótt sannað væri, að slíkar byggingar yrðu ekki til neinna umbóta, og ennfremur að þær yrðu til þess að draga úr framtaki einstaklinganna til þess að byggja og jafnframt til þess, að nokkrir menn þægju stórar gjafir úr ríkissjóði, sem aðrir fátækari yrðu að borga með hærri húsaleigu. Og af hverju gerðu framsóknarmenn þetta? Af því vitanlega, að jafnaðarmenn kröfðust þess. Og nú í dag er bændaflokknum ætlað að beita sjer fyrir því að leggja ríkissjóðinn í síldarverslunina. Stefnan er þá orðin sú, að byggja upp bæina og tryggja síldarsöluna fyrir atbeina ríkissjóðs. Við íhaldsmenn verðum þá að reyna að „halda í“ rjett sveitanna.

Nú leyfi jeg mjer að vona það, að þó þessi ummæli mín eigi við einstöku framsóknarmenn, þá eigi þau þó ekki við þá alla, enda hefir það komið í ljós í sumum málum, að einstakir þm. þess flokks hafa látið meira ráða, hvað þeim sjálfum hefir fundist rjett að gera, heldur en það, hvað af þeim hefir verið heimtað. Vona jeg enn, að þeir hinir sömu hv. þm. láti skynsemi sína ráða í þessu máli, en ekki trú og tilfinningar.