13.05.1929
Neðri deild: 67. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

39. mál, einkasala á síld

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki tefja málið með því að hafa um það langa umsögn. Það kom fram í byrjun umr., að málið hafði fengið skjóta afgreiðslu í nefnd, en mjer er grunsamt um, að fyrir það hafi hefnst með því meiri töf við umr. í deildinni. Hjer er haldinn einn fyrirlesturinn eftir annan, og allir eru þeir frá sömu hlið, eins og hv. 2. þm. Eyf. hefir nokkuð lýst. Sumir hv. rœðumenn fljetta inn í þessa fyrirlestra sína heimspekilegum hugleiðingum um umhyggju sína fyrir hag og heiðri bænda og afstöðu þeirra til þessa máls, og hnýta þar við skjalli og fagurgala. Jeg vil benda þeim hv. þm. á, að þeir ættu að geyma þessa umhyggju fyrir bændum þar til óskað er eftir henni, því að sjaldan er vel þegin óbeðin þjónusta. Inn í þessar umr. hafa þeir svo á hinn bóginn blandað hæðiyrðum og brigslyrðum til bænda, og hafa þessháttar ummæli raunar heyrst frá báðum aðalandstöðuflokkum þeirra. Jeg þykist mega fullvissa þessa tvo andstöðuflokka um, að bændur munu fylgja sinni skoðun jafnt þótt slíkum aðferðum sje beitt, svo að þeir fá ekkert fyrir sitt ómak.

Þá hefir verið deilt harðlega á einkasöluna og afkomu hennar síðastl. sumar; en jeg verð nú að segja það, þótt jeg ætli mjer ekki að bera hönd fyrir höfuð hennar, að ekkert nýtt hefir komið þar fram, sem ekki hefir heyrst áður. Jeg hefi áður hlýtt á umr. um rekstur hennar og það, sem henni hefir aðallega verið fundið til foráttu, og út úr þeim umræðum er ekki venjulegt annað að fá en að hún hefir ekki getað unnið bug á öllum þeim annmörkum, sem á síldarmálunum voru, nú á þessu fyrsta starfsári, og má varla betri árangurs vænta, slíkt ófremdarástand sem á þeim málum var. Það er viðurkent, og það meira að segja af þeim, sem verst láta, að fjárhagsleg afkoma síldarútvegsins hafi verið mjög sæmileg nú í sumar, þegar miðað er við afkomu næstu ára á undan.

Því hefir verið þráfaldlega haldið fram í blöðum andstæðinga Framsóknarfl., að bændur sjeu fjandsamlegir sjávarútveginum. Nú hafa þeir sýnt með framkomu sinni í þessu máli, að svo er ekki, þar sem þeir hafa beitt sjer fyrir að koma þessari grein útvegsins, sem verst var stödd, í það lag, að hann geti verið nokkurnveginn tryggur atvinnurekstur. Það er auðvitað svo, að þessi sakaráburður hefir aldrei haft við nokkur rök að styðjast, og um hann má heimfæra hið gamla orðtak: að ómerk eru ómagaorðin. (JJós: Jeg vildi mælast til þess, að hv. þm. skýrði betur, við hverja hann á, er hann talar um ómerk ómagaorð, og hvar þau er að finna). Jeg skal sýna hv. þm. það síðar, ef hann vill, en hjer í deildinni sje jeg ekki ástæðu til þess.

Jeg ætla þá að víkja lítillega að brtt. á þskj. 575. 1. brtt. hefst svo: „Með lögum þessum er stofnað síldarsamlag Íslands“. Hvar eru svo reglurnar fyrir þetta síldarsamlag? Þær eru engar til. Árið 1926 voru settar reglur um síldarsamlagið, en nú eru þær úr gildi numdar, en í stað þeirra laga kemur hjer ekki eitt aukatekið orð. Brtt. allar eru því markleysa ein, sem ekki er hægt að samþ. Að öðru leyti hafði jeg ekki hugsað mjer að blanda mjer inn í umr. þessa máls.

Jeg minnist þess nú, að hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, að með brtt. væri ætlað að koma á lögþvingaðri samvinnu, en samkv. framansögðu um brtt. eru þau ummæli hans á jafnlitlum skilningi bygð og jafnómerk og till. sjálfar.