16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

39. mál, einkasala á síld

Ólafur Thors:

Jeg hefði haft nokkra tilhneigingu til að tala allítarlega um þetta mál nú, vegna þess hvernig meðferð málsins hefir verið frá upphafi til enda. Menn af öllum flokkum eru sammála um, að þetta sje eitthvert allra stærsta málið, sem fyrir þinginu liggur, og það er orðið flestum ljóst, sem á annað borð hafa gefið sjer tíma til að skreppa eina og eina stund inn í þingsalinn, meðan málið hefir verið rætt, að öll meðferð þess hefir verið með harla óvenjulegum hætti. Það upplýstist við 2. umr., að málið hafði ekki verið rætt í sjútvn. Um það hafði verið tekin ákvörðun á fyrsta fundi, að sumum nm. fjarverandi og án þess að gefa einstökum nm. tækifæri til að láta í ljós álit sitt. Og þó að beinlínis kæmu fram óskir frá nm. um að mega tala, knúði meiri hl. n. fram atkvgr. Þegar málið kemur svo til umr. í Nd., mættu stjórnarliðar ekki í deildinni, frekar en nú, og þegar búið er að halda 8–4 rœður, kemur fram till. um að skera niður umr.till. var samþ., en þeir sömu stjórnarliðar, sem meinuðu okkur að tala, töluðu sjálfir í skjóli þess, að þeir höfðu kvatt sjer hljóðs. Þetta kemur, sem betur fer, sjaldan fyrir á Alþingi Íslendinga.

Þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Dal. hafa á mjög greinilegan og ákjósanlegan hátt látið í ljós þá andstygð, sem heilbrigðir menn hafa á slíkri framkomu, og skal jeg ekki hafa fleiri orð um það.

Hv. 1. þm. N.-M. talaði mjög digurbarkalega við 2. umr. þessa máls, eftir að öðrum hafði verið varnað máls, enda hlaut hann verðskuldaða ádrepu hjá hv. þm. Vestm. fyrir. Jeg hygg, að mörgum af ádeiluorðum hv. 1. þm. N.-M. hafi verið stefnt að mjer. Hv. þm. var að tala um, að stjórnarandstæðingar hefðu viðhaft óviðeigandi skjall um suma stjórnarliða, til þess að reyna að vekja sundrung. Já, jeg fullyrti, að hjer á þingi mundi vera samstæður hópur manna, sem ekki ljeti kúgast í hvívetna. Og ef það er kallað skjall, að þeir sjeu ekki allir gersamlega ósjálfstæðir taglhnýtingar, er slíkt svo mikið last um stjórnarflokkinn, að jeg hefði í forsetastað vítt þann mann, sem hefði látið þá skoðun í ljós.

Þá gat hv. 1. þm. N.-M. um það, að þingbændur Framsóknarflokksins væru einfœrir um að ráða málum sínum og þyrftu í engu leiðbeiningu frá okkur hinum. En jeg segi það rauplaust af minni hendi, að hv. þingbændum veitir ekki af að læra af okkur um sjávarútveginn. Ef þeir gerðu það, mundu mistökin verða færri í afgreiðslu þeirra mála hjer á þingi.

Annars talaði þessi hv. þm. nokkur orð um ágæti einkasölunnar. Þau orð gætu gefið mjer tilefni til að ræða um einkasöluna eins og hún hefir reynst, en af því að jeg hefi gert það áður, vil jeg ekki nota mjer þá aðstöðu nú, að jeg hefi fult tilefni til þess.

Það var talsvert spaugilegt að heyra hv. þm. segja, að einasti gallinn á stj. einkasölunnar væri sá, að henni hefði ekki enn tekist að laga alla galla á fyrirkomulaginu. Það minnir á umsögn stjórnarblaðanna, þegar þau voru að tala um, að eini gallinn á Guðbrandi í Hallgeirsey væri sá, að honum hefði ekki tekist að laga allar yfirsjónir fyrirrennara síns, eftir að Guðbrandi hafði tekist að örva drykkjulöngun landsmanna með því að hætta að „kjótla“ og fara að blanda í keröld, sem tóku heil 10 uxahöfuð.

Þá sagði hv. 1. þm. N.-M., að framsóknarbændum hefði tekist að koma skipulagi á sjávarútvegsmálin. Heyr á endemi! Hvað hafa bændur gert fyrir sjávarútvegsmálin? Ekki annað en láta kommúnista teyma sig á eyrunum í öllum þeim málum, er sjávarútveginn varða. Þess er skemst að minnast, hver afstaða þingbænda er til þessa máls. Forstjóri síldareinkasölunnar, kommunistinn Einar Olgeirsson. hefir skrifað grein í tímaritið „Rjett“ fyrir skömmu um þessi mál og fleiri. Sú grein hefir síðar orðið þingbændum Framsóknarflokksins að einskonar biblíu, sem þeir fylgja trúlega. Átakanlegast hefir þetta komið í ljós í þessu máli. Andi kommunismans ræður öllum þeirra gerðum. Andi kommunismans svífur yfir vötnunum í liði stj. Talandi tákn þess er m. a. það, að gersamlega þekkingarsnauðir og óhæfir menn hafa verið settir til þess að veita síldareinkasölunni forstöðu. Till. þeirra manna, sem vit, þekking og reynslu hafa á þessum sviðum, eru að engu hafðar. Það eru kommunistarnir, sem herða reipið að hálsi stj. Það eru þeir hv. þm., sem öðrum fremur kalla sig samvinnumenn, sem beygja knje sín í duftið frammi fyrir alþjóð. Það eru þeir, sem heykjast á höfuðstefnumáli sínu, samvinnustefnunni, en gerast tagl. nýtingar einokunarstefnunnar. Þetta er hinn opinberi sorgarleikur, sem gerist hjer á Alþingi. Og jeg vil nú spyrja aftur: Hvað hafa þá bændur gert fyrir sjávarútvegsmálin á þessu landi? Því er fljótsvarað. Höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, er hlekkjaður í þrælaviðjar einokunar og ófrelsis. Afleiðingin er auðvitað hnignun, deyfð og afturför. Hv. 3. þm. Reykv. hefir upplýst það undir þessum umr., að aldrei hefir afkoma síldarútvegsins verið rýrari en í ár, þrátt fyrir góðæri og einsdæma aðstöðu að öllu leyti; sjerstaklega hafa atvinnurekendur borið mjög skarðan hlut frá borði.

Jeg held jeg megi fullyrða það, að þeir, sem ekki eru einokunarmenn í húð og hár, hafi mjög ilt af því að láta hina fáu kommunista, sem á þingi sitja, ráða atkv. sínum í þessu máli. Að vísu er mörgum þeirra nokkur afsökun í þessu máli, nefnil. hin mjög takmarkaða þekking þeirra til þessara mála. En mjög skyldu þeir gjalda varhuga við því að láta hafa sig að leiksoppi í slíku stórmáli sem hjer er um að ræða. Gæti þeir ábyrgðarinnar, sem þeir verða kvaddir til að leikslokum. Vel er mjer kunnugt um það, að framsóknarbændur greiða atkv. í þessu máli af harla lítilli þekkingu, en unna verður þeim þess sannmælis, að slíkt gera þeir ekki af fúsum vilja. En þeim liggur hlekkur um fót og nauðugir viljugir verða þeir að ganga aðrar brautir en samviska þeirra býður þeim. En við hinir, sem viljum ræða þetta mál skynsamlega, ræða málið til hlítar á þessum vettvangi, við eigum ekki því láni að fagra að sjá framan í nokkum mann úr liði stj. Hvað veldur? Er það blygðun? Er það samviskan, sem slær þá? Eða er það svo frámunalegt kæruleysi um afdrif eins mesta stórmáls þessa þings? Meira að segja hefir hv. frsm. meiri hl. ekki svo mikið við að láta sjá sig inni í deildinni. Ekki skal það út af fyrir sig harmað af mjer, því sá hv. þm. hefir ekki einu sinni sýnt lít á því að ræða málið og efni þess, hvað þá heldur að svara fyrirspurnum okkar. Við höfum spurt, en engin svör fengið. Það skiftir því engu, hvort talað er við hinn auða stól hv. frsm. eða hv. frsm. sjálfan. Framsóknarhersingin er lögð á flótta út úr deildinni. Þora þeir ekki að ræða málið? Þora þeir ekki að heyra þau rök, sem fram eru borin í málinu?

Jeg get þó ekki stilt mig um að taka hin fáu og nauðaómerkilegu orð hv. frsm. til lítillegrar athugunar. Gæti jeg þó sannarlega sparað mjer það ómak, því ræðan var svo veigalítil, að furðu sætti. Jeg hafði sannað þekkingerleysi forstjóranna, og frsm. viðurkendi það. En síðan mælti hann þessi eftirtektarverðu orð: „ Mjer þykir nú meiru skifta, að forstjórarnir sjeu ráðvandir menn en hitt, að þeir hafi á sjer einhvern verslunarstimpil“. Jeg vil nú segja það, að jeg tel ráðvendnina að sjálfsögðu frumskilyrði þess, að um „óðan mann sje að ræða. Hún er grundvallarskilyrði, sem alstaðar er þegjandi undirskilið, þegar um störf og stöðu er að ræða. Vöntun á ráðvendni er sönnun þess, að maðurinn er óhæfur, en ráðvendnin er hinsvegar engin sönnun þess, að hann sje hæfur til þess að veita stórfyrirtæki forstöðu. Hjer er því um að ræða alveg fáheyrða meinloku hjá hv. frsm. Slík röksemdaleiðsla varpar skýru ljósi yfir þann hugsunarhátt, sem líkir innan stjórnarliðsins. Jeg á hjer við það, hve lágar kröfur eru gerðar til þeirra manna, sem settir eru fyrir höfuðatvinnutæki þjóðarinnar og setti til að gegna mikilsvarðandi störf fyrir þjóðfjelagið. Þess eins er krafst, að þeir menn sjeu ekki bófar, en hvort þeir hafi til að bera nokkra þekkingu, vitsmuni eða reynslu, það er álitið hreint aukaatriði. Þegar kröfurnar eru settar svona lágt, að hver pólitísk rola getur skapað sjer jötu á þeim sviðum atvinnulífsins, sem afkomu- og bjargarvonir meiri hluta þjóðarinnar eru tengdar við, þegar hið pólitíska líf er orðið svo spilt, þá eru það feigðarmerkin á hinu unga þjóðfjelagi voru. Það er víst þetta, sem hv. 1. þm. N.-M. á við, þegar hann talar um, að bændur hafi komið skipulagi á sjávarútvegsmálin. Ó heilaga einfeldni! Vitanlega bera bændur að jafnaði ekki fult skyn á sjávarútvegsmál. Það er líka þeirra eina afsökun. En hitt er óafsakanlegt, að setja óreynda, þekkingarsnauða og óhæfa menn til mestu trúnaðarstarfa þjóðfjelagsins. fyrir þær sakir einar, að þeir eru í flokki stj. eða kommunistar. Og svo er það höfuðröksemdin, að menn þessir sjeu ráðvandir! Mjer kemur ekki til hugar að bera brigður á það. en hinu vil jeg slá föstu, að það er ekki nóg, að þeir sjeu ráðvandir; þeir verða að hafa hæfileika til sinna starfa. Sem betur fer, eigum við marga ráðvanda menn, og einnig marga, sem bæði eru ráðvandir og hæfileikamenn í senn. Það eru þeir, sem við eigum að fela trúnaðarstörfin á hendur. Alt annað er spilling, sem hvorki má þolast nje þróast innan þjóðfjelagsins.

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Dal, hafa báðir leitt athygli hv. þdm. að meinlegustu ágöllum frv. Jeg legg svo mikið upp úr þeim ágöllum, sem þessir hv. þm. nefndu, að jeg tel, að með engu móti megi þolast, að frv. nái lögfestingu í þessari mynd. Ef hinsvegar stjórnarflokkurinn vildi ganga inn á að leiðrétta stærstu misfellurnar, þá geri jeg ráð fyrir, að við íhaldsmenn myndum ekki, þrátt fyrir megna andúð gegn frv., nota það til þess að koma málinu fyrir kattarnef. Vil jeg nú beina þeirri spurningu til þeirra fáu stjórnarliða, sem þeir eru inni, hvort þeir vilji ekki beita sjer fyrir þessum breyt. Vænti jeg þess fastlega, að hv. stjórnarflokkur taki þetta til nánari athugunar og ráði ekki til lykta fyr en sú athugun hefir fram farið.