04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

37. mál, verkamannabústaðir

Ólafur Thors:

Það hefir mikið verið talað um þetta frv. í þessari hv. d., og mjer hefir heyrst, að menn sjeu sammála um, að hjer sje stórmál á ferðinni. En jeg lít talsvert öðrum augum á það.

Að menn tala um þetta frv. sem stórmál, kemur líklega til af því, að flestir játa, að margar íbúðir hjer í bæ eru með öllu óboðlegar. En hjer er ólíku blandað saman. Það er tvímælalaust, að margar íbúðir eru ónothæfar, en hitt er jafntvímælalaust, að þetta frumvarpskríli hv. 2. þm. Reykv. ræður enga bót á því meini. Þvert á móti er líklegt, og jafnvel víst, að afleiðingarnar verða gagnstæðar því sem til er ætlast.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að bæjarfjelög leggi fram 2 kr. á hvern íbúa árlega. Ríkissjóður greiðir eitt skift; fyrir öll 10% af byggingarkostnaði. Væntanlegir kaupendur húsanna fá þessi 10% gefins, eiga að greiða í peningum 15% af andvirði hússins og gjalda eftirstöðvar með 5% af lánsupphæðinni á 42 árum.

Ef miðað er við Reykjavík og núverandi íbúafjölda, mundu árlegar tekjur sjóðsins verða 50 þús. kr. Þær tekjur verða að hrökkva til að greiða vaxta- og afborganamismun á þeim 75% á byggingarkostnaði, sem hvíla á húsunum. Líklegt verður að telja, að ókleift reynist að útvega sjóðnum lán til lengri tíma en 20–25 ára. Af því leiðir, að þennan tíma fara um 1/2 tekjur sjóðsins til greiðslu á afborganamismun kaupenda og sjóðanna. Hjer í Reykjavík yrðu þá eftir 25 þús. kr. til að greiða árlegan vaxtamun. Vaxtamunurinn verður sennilega minst 21/2%, sem svarar að 25 þús. kr. nægja til greiðslu á vaxtamun á 1 milj. kr. En af þessu leiðir, að hámark andvirðis húsbygginga fyrir tilstilli þessa sjóðs yrðu á næstu 20 árum hjer í Reykjavík aðeins 1,3 milj. kr., og er þá talið framlag ríkissjóðs og kaupanda, en ekki tekið tillit til væntanlegrar fólksfjölgunar í bænum.

Samkv. till. hæstv. atvmrh. yrði þessi upphæð alt að helmingi hærri, en hlutur ríkissjóðs fimm sinnum hærri en eftir frv. hv. 2. þm. Reykv., og skal jeg aðeins víkja að því síðar. Má sjálfsagt um báða segja, að hvorugur hefir gert sjer grein fyrir tölulegri niðurstöðu af þessum till.

Þó að það sje nú ótvírætt, að hjer í bæ sjeu slæmar íbúðir, þá mun það rjett athugað hjá hv. 1. þm. Skagf. o. fl., að þær eru þó að skömminni til skárri en mörg þau mannahíbýli, sem notast verður við víða til sveita. (HV: Hefir þm. komið í ljelegar íbúðir?). Já, jeg hefi komið í ýmsar og ætla jeg hafi eins mikil kynni af þeim og hv. 2. þm. Reykv. En þó að jeg játi, að hjer í bæ sje búið í þeim íbúðum, sem ekki eru mannabústaðir, og viðurkenni, að sjálfsagt sje að greiða úr því máli, þá er hitt víst, að frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, er dvergvaxið og vitagagnslaust í þessu efni. 11/3 milj. kr. alls á 20–25 árum gerir hvorki til nje frá um húsnæðisvandræðin hjer í bæ, eins og best sjest af því, að á síðari árum er hjer bygt fyrir um 4–5 milj. kr. árlega. Að vísu fá væntanlegir kaupendur húsanna gefins 1/3 byggingarkostnaðar, en það eru aðeins fáir menn, og ekki þeir fátækustu. Þeir eru útilokaðir frá þessum vildarkjörum með því fyrirmæli frv., að kaupandi greiði í peningum 15% af byggingarkostnaði. Hinsvegar er hætta á því, að slík afskifti hins opinbera dragi úr framtaki einstaklingsins til bygginga, og verður þá niðurstaðan af slíkri löggjöf almenningi til skaða. Ef miðað er við byggingar síðari ára, er gagnsemi slíkrar löggjafar að engu orðin, ef framtak einstaklinga minkar um 1 hundraðasta hluta. Af þessu sjest, að það er a. m. k. líklegt, að óhætt sje að fullyrða, að afleiðingar þessa frv. sjeu þær, að nokkrir einstaklingar — þó ekki þeir fátækustu — fá gefins 1/3 hluta byggingarkostnaðar húsanna, en aðrir bæjarbúar gjalda þess með því að verða að greiða hærri húsaleigu.

Frumvarpskríli hv. 2. þm. Reykv. er því ekki aðeins gagnslaust, heldur beint skaðlegt, og aðeins flutt til að sýnast.

Jeg hefi nú að vísu ekki kynt mjer til hlítar þær till., sem hæstv. forsrn. ber fram í málinu, en fljótt á litið sýnist mjer, að samkv. þeim verði hluti ríkissjóðs mikið þyngdur, án þess þó að það komi að verulegu liði. Eftir till. hæstv. forsrh. á hluti ríkissjóðs að vera 50 þús. kr. á ári hverju, eða sem svarar um 700.000 kr. í eitt skifti fyrir öll, og er það fimm sinnum hærri upphæð en hv. 2. þm. Reykv. fer fram á, því samkv. frv. hans er tillag ríkissjóðs aðeins 10% af þeirri 1,3 milj. kr., er ætla má að verði hámark byggingarkostnaðar á næstu 20 árum, eða 130 þús. kr. Jeg býst ekki við, að hæstv. ráðh. hafi sjeð, að hann batt ríkissjóði með þessu fimmfalt þyngri bagga en flm. ætlaðist til en sveitamannshjarta hans fjekk kaupstaðarsting, er hann sá þessi mörgu fátæku börn ganga framhjá, eins og hann lýsti í svo skáldlegri ræðu. Vafalaust vakir gott eitt fyrir ráðh., en árangur góðviljans er þó aðeins sá, að ríkissjóður tekur á sig þungar kvaðir, sem þó ekki verða þeim að liði, sem mesta þörfina hafa. Eina ráðið, sem dugir, er að útvega góð lán handa þeim, sem vilja byggja, því að þá myndi verða meira um byggingar, en húsaleiga lækka að sama skapi. Mjer virðist skynsamlegast að vísa málinu til stj. og sjá svo til, hvort hún getur ekki bætt eitthvað úr þessum vandræðum án þess að lagt sje inn á nýja braut um afnot ríkissjóðs.