10.05.1929
Neðri deild: 65. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

37. mál, verkamannabústaðir

Jón Sigurðsson:

* Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í þær deilur, sem hjer hafa staðið um það, hvort meiri þörf væri að styrkja kaupstaðina en sveitirnar í þessu efni. Þar er jeg sammála hv. samþm. mínum og hv. 1. þm. S.-M. En jeg vildi benda á það, áður en gengið er til atkv., að bankarnir hafa undanfarið veitt stórfje, um 20 milj. kr., í veðdeildarlánum til bygginga í kaupstöðunum, og þar af gengu á síðasta ári 5 milj. kr. til Reykjavíkur einnar. Á síðasta þingi var veðdeildinni auk þess heimilað að gefa út bankavaxtabrjef fyrir alt að 10 milj. kr. Er það engin smáræðisupphæð. Þrátt fyrir þetta á nú að fara að gera sjerstakar ráðstafanir til þess að draga ríkissjóð inn í þetta og veita Reykvíkingum sjerstaklega margar miljónir kr. til þess að byggja fyrir. Kemur mjer það undarlega fyrir sjónir, ef ekki er hægt að koma þessu svo fyrir, að það verði einnig þeim að notum, sem erfiðast eiga uppdráttar. Mjer hefir ekki unnist tími til að rannsaka þetta mál svo rækilega, að jeg geti borið fram ákveðnar till. í því, en mjer finst það harla einkennilegt, ef ekki er hægt að finna ódýrari lausn á því fyrir ríkissjóðinn.

Þingið er nú meira og meira farið að ganga inn á þá braut að binda með l. svo og svo mikið af tekjum ríkissjóðs. Mjer reiknast svo til, að þeir baggar, sem ríkissjóði voru bundnir á síðasta þingi um óákveðinn tíma, nemi um 3 milj. kr., auk allra launagreiðslna fyrir allskonar starfrækslu í þarfir þess opinbera. Það liggur í augum uppi, að því meira fje, sem þannig er bundið með 1. til ákveðinna hluta, því minna verður eftir til aðkallandi framkvæmda, sem þurfa að vinnast, svo fremi sem við ætlum að halda áfram á þeirri braut, sem við höfum gengið á undanförnum árum. Ef því ekki verður hætt að binda fje ríkissjóðs á þennan hátt, verður ekki um annað að gera en að hækka skattana, en jeg held, að nú þegar sje svo langt gengið í því, að flestir fari að kveinka sjer, ef gengið verður enn lengra í því efni. Jeg hygg því, að heppilegast sje að bíða átekta í þessu máli og vil vísa því til stj. til frekari undirbúnings. Vænti jeg þess, að hæstv. stjórn athugi einkum, hvort ekki megi finna leið til þess að veita því fje, sem nú gengur til að húsa kaupstaðina, að einhverju leyti inn á þennan farveg, án þess að ríkissjóði þyrfti að blæða tilfinnanlega.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.