26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í C-deild Alþingistíðinda. (2257)

62. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er svo langt síðan fyrri hluti þessarar umræðu fór fram, að jeg er búinn að gleyma flestu af því, sem jeg þurfti og ætlaði að svara. En það var aðallega út af því, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði í sinni ræðu, sem jeg vildi tala. Hann neitaði því, sem jeg þá skýrði frá, hvernig það slæddist inn í lögin, að Reykjavíkurbær væri skyldugur til þess að láta Seltirningum í tje bæði vatn og rafmagn. Jeg hefi nú athugað þetta síðan nokkru nánar. Háttv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði farið með vísvitandi ósannindi um þetta efni. Samkvæmt viðtali við borgarstjóra Reykjavíkur get jeg fullyrt, að það hafði aldrei verið minst á það við Reykjavíkurbæ, að þetta yrði gert. En það var Jón Þorláksson, sem hafði framsögu í þessu máli af hálfu allshn. Og hann bar fram á milli 2. og 3. umr. brtt. við frv. um þessi atriði, án þess að bera það undir bæjarstjórn Reykjavíkur og án vitundar og samþykkis sumra meðnefndarmanna sinna. Eins og sjá má á nefndarálitinu, þá var orðið fult samkomulag á milli Reykjavíkur og Seltjarnarnesbúa í málinu, án þess nokkuð væri minst á, að þeir fengju afnot af vatnsleiðslu og rafmagni frá bænum. Innlimunin var samþykt og nefndarál. undirritað af Jóni Þorlákssyni og Magnúsi Guðmundssyni, meðal annara nefndarmanna, án slíkra skilyrða. Þessum skilyrðum Seltjarnarneshreppsbúa er því beinlínis bætt inn í lögin og farið aftan að Reykjavíkurbæ með þau. Það var erfitt að gera sjer grein fyrir þessu, af því að Jón Þorláksson var þá þm. Reykv. Mjer var þá ekki kunnugt um það, að Jón Þorláksson hefði átt land í Skildinganesi. En eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. (ÓTh) gaf um að þar hefði átt á landi Jóns Þorlákssonar í Skildinganesi að reisa skipasmíðastöð, þá er það vitanlega augljóst, að honum gat komið það vel að fá þangað leitt bæði vatn og rafmagn frá bænum. Má af þessu hver og einn dæma, hvort jeg hafi ekki farið með rjett mál, og jafnframt sjá fádæma ósvífni hv. 2. þm. G.-K., að þræta fyrir það, sem svo auðveldlega er sannanlegt.

Þá gat hv. 2. þm. G.-K. þess, út af því, sem jeg benti á, að Kveldúlfur ætti eignir á Melshúsum á Seltjarnarnesi, utan Reykjavíkurumdæmis, að það skifti sig litlu máli, af því að það væri lagt á alla veltu fjelagsins og starfsemi hjer í bænum, hvað sem Melshúsum liði. Hann talaði um þetta með svo miklum hroka, að jeg ætla með leyfi hæstv. forseta að lesa upp úr útsvarslögunum nokkur orð um gjaldskyldu til sveitar:

„Leggja skal samkvæmt 1. málsgr. á allar eignir manns og tekjur á útsvarsárinu, hvar sem þeirra er aflað; þó má leggja á gjaldþegn á fleiri stöðum en einum:

a. Ef hann hefir heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en í einni sveit, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans.

b. Ef hann hefir leiguliðaafnot, þótt

ekki fylgi ábúð, þar með talin laxveiði, ábúð á jörð eða jarðarhluta, lóðarafnot, ef þau gefa arð, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans.“

Þetta er svo skýrt, að jafnvel háttv. þm., sem skilur ekki altaf einföldustu hluti, ætti að sjá, að á þessar eignir Kveldúlfsfjel. getur Reykjavíkurbær ekki lagt. Jeg vona, að háttv. þm. lýsi því yfir næst þegar hann stekkur upp, að þetta geti hann þó skilið, og taki aftur fyrri orð sín um þetta atriði.

Þá kom háttv. þm. með ósæmilegar getgátur í minn garð um það, að jeg hefði kært útsvar British Petroleum Co. í Reykjavík. Þetta er alls ekki rjett, því að útsvarið hefir ekki verið kært, heldur greitt eins og það var jafnað niður. Hjer er því aðeins um að ræða eitt af hinum afþektu vindhöggum háttv. þm. En hitt er annað mál, að Olíuverslun Íslands, sem jeg er forstjóri fyrir og er alíslenskt fjelag, hefir vísað til meðferðar dómstólanna kæru út af útsvari, sem lagt var á það fjelag í einum kaupstað hjer á landi, þar sem umboðsmaður fjelagsins hefir steinolíubirgðir. En jeg vænti, að fáir sjái nokkuð athugavert við það, því að hver borgari hefir auðvitað fullan rjett til þess að leita úrskurðar dómstólanna um, hvort lögmæt sje álagning útsvars einstakra sveitar- og bæjarfjelaga. Þeim rjetti mundi enginn borgari vilja sleppa, og þessi háttv. þm. ekki fremur en aðrir. Þess vegna þarf ekkert um þetta að tala, því að varla mun vera hægt að lá mönnum, að þeir vilji aðeins hlíta lögum landsins. Hitt er að nokkru leyti rjett, að sem yfirskattanefndarmaður hjer í Reykjavík vildi jeg, að lagt væri á Shellfjelagið hjer í bænum. En ef ágreiningur risi í yfirskattanefndinni út af útsvari þess fjelags hjer í bænum — sem ekki er nú til að dreifa, þar sem fjelagið kemst hjá úsvari hjer í bænum, með því að Skildinganes er aðsetursstaður fjelagsins og er enn utan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur —, þá mundi jeg ganga úr nefndinni og ekki dæma um það mál, heldur varamaður minn. Hjer er því um að ræða enn eitt vindhöggið hjá hv. þm., sem hann er nú orðinn ærið óspar á.

Háttv. þm. Mýr. (BÁ) rjeðst með ákefð og miklum gífuryrðum gegn þessu máli. Mjer skildist, að ástæður hans væru á þá leið, að bændur í Seltjarnarneshreppi mundu verða ofurliði bornir af Reykvíkingum og vald sveitarbúa yfir þeirra eigin málum rýrna. Ef þessu yrði þannig varið, þá mætti það teljast nokkurt atriði í málinu fyrir suma menn. En nú eru mjög fáir bændur á nesinu, og tekjur fæstra þeirra stafa aðallega af sveitabúskap, heldur af ýmsu öðru, sem stendur í sambandi við nálægð bæjarins. Og þess má geta, að ef vöxtur hreppsins heldur áfram í sama horfi og nú, þá verða bændur og skyldulið þeirra komnir í mikinn minni hluta fyrir bæjarmönnum í hreppnum við atkvæðagreiðslur eftir 2–3 ár. Það veitir þeim því enga vernd sem bændum að vera sjerstakt lögsagnarumdæmi. Nú eru að myndast í hreppnum útbæir frá Reykjavík frammi á nesi og víð Skerjafjörð. Í þessum þorpum vex upp atvinnulíf, sem á alls ekki heima í sveit, heldur undir bæjarskipulagi. Það er hvorki rjettlátt nje eðlilegt, að einstakir svokallaðir bændur græði fje á því einu að kaupa jarðir í hreppnum, og búta þær svo sundur og selja sem kaupstaðarlóðir án þess að bera byrðar kaupstaðarins, sem þeir ætla að græða á. Eða að einstakir borgarar í Reykjavík fái aðstöðu til að búa nálega skattfrjálsir við stóriðju rjett utan við merkjalínu bæjarins, en að framfærsla allra fátæklinga, sem verða af stóriðjunni, og þeirra, sem við fyrirtækin vinna, hvíli á Reykjavíkurbæ. Ennfremur má benda á, að ef Skildinganesþorp verður utan við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og heldur áfram að stækka og þróast í sama stíl og verið hefir, þá verður það ekki reist eftir neinu fyrirmyndar skipulagi, heldur skipulagslaust, óreglulega og Íslendingum til vansa. Búast má við, að húsaskipunin verði þar mjög óregluleg. Nú er óðum verið að flytja þangað hús úr Reykjavík, sem ekki mega vera þar, en þykja nógu góð handa Skildinganesi. Þar er engin heilbrigðissamþykt og ekkert þvílíkt eftirlit, og lögregluvaldið verður að sækja til Hafnarfjarðar, sem venjulega er ógerlegt, svo að þar verður einnig gróðrarstía áfengissala og annara siðleysingja, sem þurfa að lifa óhultir í skugganum. Sjá allir, hve óheppilegt það er, og er því óviðunanlegra, sem íbúum fjölgar meira.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að þótt þetta land yrði lagt undir Reykjavík, væri hætt við, að það bæri lítinn árangur viðvíkjandi sköttum. Auðmennirnir gætu eins flutt sig upp í Mosfellssveit, ef þeim byði svo við að horfa, og búið þar þótt þeir stunduðu atvinnu í Reykjavík. Jeg hefi ekki mikla trú á því, að svo yrði, því að upp í Mosfellssveit eru að minsta kosti 7–8 km., og væri dálitlum erfiðleikum bundið að stunda atvinnu hjer í Reykjavík þaðan allan ársins hring. Auk þess býst jeg við því, að efnamönnum þætti ekki eins vistlegt þar, og mundu þeir sakna þess að hafa ekki vatnsleiðslu, rafmagn og gas, sem þeir eru vanir. Þá gat háttv. þm. um bæina Frederiksberg og Kaupmannahöfn í þessu sambandi, benti á, að þeir bæir væru samvaxnir, og skildist mjer, að hann vildi láta rísa upp einskonar Friðriksberg hjer í Skildinganesi. Það má auðvitað hugsa sjer, að þar gæti risið upp annar bær, en jeg álit, að það væri mjög óheppilegt. Þeir, sem kunnugir eru högum Dana, vita, að þetta hefir leitt af sjer miklar deilur á milli bæjanna; ríka fólkið hefir flutt út á Friðriksberg, en skilið fátæka fólkið eftir í Kaupmannahöfn, og hafa þannig myndast tveggja stjetta bæir. Það kann að vera, að hv. 2. þm. G.-K. þyki þetta fyrirmynd, en mjer finst það ekki.

Skal jeg nú ekki fara fleiri orðum um mál þetta að sinni, en vænti þess, að því verði vísað til nefndar. Og þótt jeg áliti rjettast, að allur hreppurinn verði lagður undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, mundi jeg geta fallist á minna en það, sjerstaklega að Skildinganes og framhluti Seltjarnarness yrðu innlimuð í Reykjavík. — Hinsvegar treysti jeg því, að hv. þd. skilji rjettmæti þessarar kröfu.