15.03.1929
Neðri deild: 23. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

46. mál, fyrning skulda

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Tilgangur frv. þessa, sem hjer liggur fyrir, er vitanlega góður, sem sje sá, að reyna að sporna við eyðslu, sem leiðir af of greiðum aðgangi að lánum, og sömuleiðis að reyna að draga úr þeirri skaðsemi, sem ávalt leiðir meira eða minna af lánsverslun. En þó að þetta sje í sjálfu sjer gott og blessað, hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að leggja til, að þessi stytting á fyrningartíma verði lögleidd, eins og viðskiftum er háttað hjer.

Það er fyrst og fremst vegna þess, að menn hafa mjög ógreiðan aðgang að lánsstofnunum þessa lands, enda þótt nokkuð greiðara verði, ef bændur fá sjerstakan búnaðarbanka.

Það vita allir, bæði löglærðir og ólöglærðir, að traustið manna á milli hefir að maklegleikum verið metið mikils bæði fyr og síðar. Kemur það víða fram, og er þá fyrst að nefna, að það sjest best á því, hvern mun á viðurlögum menn í fornöld gerðu á þjófnaði og ránum. Ránin höfðu menn lítið að athuga við, en tóku mjög hart á þjófnaði. Jeg vil benda á það, að það er með tilliti til þess, að þetta verður mjög mikil skerðing á traustinu, ef menn eiga von á því, að hver krafa fyrnist, sem menn hafa stofnað til í góðri trú, ef hún fyrnist á einu ári.

Það er alveg víst, að þetta myndi, ef að lögum yrði, koma mjög hart niður á efnalitlum mönnum, því að þeir hafa ekki jafnan aðgang að peningastofnunum sem aðrir, og þess vegna verða þeir að flýja á náðir þeirra, sem úrlausn geta veitt um vörulán, og þótt það hafi sínar skuggahliðar, þá er ekki gott að gera við því. Þá er og annað, sem skiftir miklu, en það eru viðskifti okkar Íslendinga við önnur lönd, sjerstaklega Norðurlönd. Þar er það þannig, að það er fjögurra ára fyrningarfrestur á þeim skuldum, sem hjer er um ræða, og það mundi óumflýjanlega verða svo hjer, að ógreiðara yrði um lán handa Íslendingum frá þessum löndum. Jeg get hugsað, að hv. flm. myndi svara því til, að menn gætu notað víxla. Það skal viðurkent, að útlendir menn myndu nota það úrræði í framtíðinni, en jeg álít það mjög óheppilegt að fara að venja menn á að nota eingöngu víxlaviðskifti. Jeg vil ennfremur fullyrða, að lagabreyting sú, er hjer er farið fram á, mundi gera Íslendinga tortryggilega í augum útlendinga.

Þá er ein breyting, sem farið er fram á í þessu frv., sem við erum óánægðir með. Höfum við orðað það svo í nál., að það sje ósamrýmanlegt grundvallarreglum laga, nefnil. að það nægi ekki til að gera kröfu gilda, að maður viðurkenni skuld sína. Þetta er mjög ríkt staðfest í 1. nr. 14, 20. okt. 1905, um fyrning skulda og annara kröfurjettinda, að viðurkenning á skuldum og viðskifti, sem haldið er áfram, gefi þeim kröfugildi.

Það er ein stjett manna, sem myndi græða mjög mikið á þessu; það eru lögfræðingar, sem hafa það fyrir starf að innheimta skuldir. Það myndi gefa þeim mjög mikla atvinnu, og þar sem jeg hefi annað kastið fengist við málfærslu, þá ætti jeg af þeim ástæðum að vera meðmæltur frv., en jeg vil ekki láta það ráða neinu um skoðun mína, og þar sem við vorum þrír lögfræðingar í nefndinni, og þó eiginlega einum betur, nefnil. einn hagfræðingur, en þeir kynna sjer mjög lagahliðina á málum í námi sínu, þá hygg jeg, að hv. þdm. geti tekið fult tillit til okkar röksemda í málinu. En það er ekki svo að skilja, að jeg liggi hv. flm. á hálsi fyrir það, að hann kom með þetta frv., því jeg skil hans hugsun, enda er það að vissu leyti rjett að sporna við lánsverslun. En eins og högum okkar er háttað, þá getum við Íslendingar ekki komist hjá henni.