16.04.1929
Efri deild: 46. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

78. mál, einkasala á nauðsynjavörum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri undarlegt, þegar koma ætti í veg fyrir harðindi, að grípa þá til þess ráðs að banna innflutning á nauðsynjavörum. Annaðhvort stafar þetta af misskilningi hjá hv. þm., eða þá að það er beinlínis útúrsnúningur. Jeg fæ ekki betur sjeð, en að frv. eigi einmitt að tryggja það, að nægilegt sje flutt inn. Það stendur sem sje í 1. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta, „að bæjar- og sýslufjelögum sje heimilt að taka í sínar hendur allan innflutning og sölu á nauðsynjavörum, til tryggingar því, að ekki verði skortur á þessum vörum til almennings þarfa“.

Þetta kalla jeg heldur að tryggja innflutning heldur en hitt, og hv. þm. veit, að á stríðsárunum, þegar erfiðast var með alla innflutninga, þá svöruðu kaupmenn sem svo, ef minst var á við þá, að þeim bæri skylda til þess að hafa til vörur: Nei, það kemur okkur ekkert við. Stjórnin verður að sjá um það. — Þess vegna dettur engum í hug að treysta þeim eða heimta það, að þeir hafi til vörur. Mjer finst því, að hv. frsm. minni hl. hefði átt að geta sjeð það, að ekki er hægt að reiða sig á kaupmennina í þessu efni, og að hjer er verið að tryggja innflutning, en ekki að banna hann.

Jeg heyrði það á ræðu hæstv. fjmrh., að hann er á móti þessu frv. Var það margt, er hann hafði við það að athuga, og virtist alstaðar reka hornin í.

Það fyrsta, er honum fanst athugavert, var það, að þó frv. yrði að lögum, væri ekki þar með fengin nein trygging fyrir því, að nokkrar ráðstafanir yrðu gerðar. En jeg lít nú aftur á móti svo á, að verði það samþ., beri bæjarfjelögunum skylda til þess að sjá um, að nægar matvörubirgðir sjeu til, annaðhvort með því að annast það sjálf eða semja við kaupmenn og kaupfjelög um það, — en það býst jeg við, að yrði venjulega tilfellið. Og þó að þetta yrði nú ekki gert, gæti frv., ef að lögum yrði, ef til vill ýtt undir kaupmenn og kaupfjelög til þess að flytja nægar birgðir.

Hæstv. fjmrh. vitnaði í það, að nú væri annað ástand en fyrir 50–60 árum síðan. Þetta er rjett; samgöngurnar nú eru mjög ólíkar þeim, er þá voru. En þá höguðu menn sjer líka eftir því og birgðu sig upp til vetrarins. Nú treysta menn á vetrarferðirnar og draga ekki meira að sjer en svo, að það dugi milli skipsferða. Og allur almenningur kaupir ekki meira en svo, að endist frá degi til dags. Þeir, sem búa í sveitum, haga sjer svo, að því fjarlægari sem menn eru kaupstaðnum, því betur birgja þeir sig upp, en þeir, sem nærri eru, kaupa máske ekki nema til vikunnar eða mánaðarins.

Þá dró hæstv. ráðh. það út úr orðum hv. flm., að þetta frv. ætti aðeins að tryggja það, að til væru nægilegar birgðir fyrir mannfólkið, en næði ei til fóðurbirgða fyrir búpening allan, og væri því ekki nema hálft gagn að þessu. En jeg held, að þetta sje naumast rjettur skilningur, því í frv. stendur, „svo að ekki verði skortur á þessum vörum til almenningsþarfa“. Jeg get ekki skilið þessi orð, „til almenningsþarfa“, öðruvísi en svo, að þau taki einnig til fóðurbirgða handa búpeningi manna í hjeröðum. Auk þessa veit hæstv. fjmrh. vel, að til eru lög, er heimila ráðstafanir til þess að tryggja búpening. Má þar nefna lögin um kornforðabúr frá 1917, um heyforðabúr frá 1911, og loks eru lög frá 1919, um eftirlits- og fóðurbirgðafjelög.

Jeg skildi orð hv. flm. svo, að hann hugsaði fyrst og fremst um fólkið. En frv. felur og í sjer víðtækar ráðstafanir til þess að tryggja einnig nauðsynjavörur til „almenningsþarfa“. Það orð er svo yfirgripsmikið, að þar undir getur líka heyrt að tryggja búpening. En jeg skil, að fyrir hv. flm. vaki það fyrst og fremst, að tryggja það, að fólkið í sjávarplássunum líði ekki skort í ísaárum. Nú eru engar slíkar tryggingar til; kaupmönnum ber engin skylda til að hafa nægan vöruforða, nje heldur kaupfjelögum, enda er það ekki gert.

Hæstv. ráðh. hjelt, að ef frv. yrði samþykt, mundi það leiða til algerðrar einkasölu, þannig að sýslu- og bæjarfjelög yrðu að tryggja sjer nægan forða, þangað til fram á haust næsta ár. Jeg sje ekkert á móti því. Þess betur er trygt, að ekki verði fellir. En jeg hugsa nú, að heimildin yrði ekki notuð á þann hátt, heldur yrði verslunum og kaupfjelögum gert að skyldu, með samningi, að sjá um að hafa til nægilegar birgðir. Það mundi í framkvæmdinni aldrei verða öðruvísi en svo, að trygðar yrðu birgðir til vors, enda myndi það oftast duga. En þessi miklu harðindaár, þegar ís liggur við land frá haustnóttum þangað til langt fram á næsta sumar, eru svo alveg einstök, að naumast er hægt að tryggja sig gegn þeim.

Jeg er viss um, að aldrei verður gengið eins langt og hæstv. ráðh. bjóst við, og t. d. blaðið Stormur hefir haldið fram, að bæjarfélögin muni taka einkasölu á kornvöru alveg í sínar hendur. Ef það væri tilætlunin hjá hv. flm., mundi hann ekki hafa farið að á þennan hátt, heldur hreint og beint borið fram frv. um einkasölu ríkisins á kornvörum, eins og Pjetur sálugi á Gautlöndum gerði á Alþingi 1921.