14.03.1929
Neðri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Ólafur Thors:

Jeg hafði ætlað mjer að láta þessa hlið málsins afskiftalausa. En eftir að hafa heyrt síðustu ræðu, get jeg ekki gert það.

Jeg hefi ekki orðið annars var en að allir hv. þdm., aðrir en sósíalistar, láti sjer vel líka, að tekjuskattsviðaukanum hefir verið af ljett. Allir gleðjast og yfir því, að verkfallsbölinu er lokið í bili. En það er talið hneyksli, ef eitthvert samband er milli þessara gleðiefna.

Jeg skal þá segja frá, hvernig jeg lít á málið. Með því er jeg ekki að segja, að hjer sje samband á milli, — um þá hlið málsins gef jeg enga skýrslu, enda getur Alþingi ekki krafist sagna af mjer.

Lög síðasta Alþingis um 25% tekjuskattsviðauka eru heimildarlög. Jeg lít svo á, að slíka heimild eigi stj. að nota, ef ríkissjóður þarfnast aukinna tekna. Annars ekki. Ef ríkisstj. var á báðum áttum um það, hvort hún ætti að nota þessi heimildarlög eða ekki, var það þá nokkurt hneyksli, þótt hún hefði látið lausn verkfallsins ráða ákvörðun sinni? Jeg fæ ekki sjeð það.

Hitt er svo náttúrlega rökvilla hjá hv. þm. (MJ) — þó að mjer beri ekki að svara fyrir hæstv. stjórn, — að það hafi ekki skift neinu máli gagnvart innheimtu tekjuskattsins, að verkfallinu var ljett af. Hv. þm. ætti að skilja, að þeim mun meiri ástæða er til að safna í sjóð ríkisins, ef fyrirsjáanleg er tekjurýrnun á næsta ári. Þetta er ekki flóknara samband en svo, að þessi prýðilega gefni hv. þm. ætti að geta skilið það.

Jeg tel nú að vísu, að um síðustu áramót hafi verið fyrirsjáanlegt að mikill tekjuafgangur yrði á ríkisbúskapnum. Að mínum dómi var því óþarft af ríkisstj. að gefa út fyrirskipun um innheimtu skattaukans. En látum það liggja milli hluta. Segjum, að stj. hafi verið á báðum áttum, og hugsum okkur svo, að málum hafi verið þannig komið, að stj. hafi getað flýtt lausn kaupdeilunnar með því að afturkalla fyrirskipanir sínar um innköllun skattaukans og hafi þá lofað að nota ekki heimildina, til þess að flýta sættum. Það er þetta, sem hv. 1. þm. Reykv. gerir ráð fyrir að verið hafi, og telur hneyksli ef satt er.

Jeg lít nú talsvert öðrum augum á þetta. Pyngja skattþegnanna er varasjóður ríkissjóðs. Úr þeim varasjóði er á hverjum tíma tekið til þarfa ríkissjóðs. En umfram þær á ekki að taka.

Skattur, sem ekki er innheimtur, er því ekki tap ríkissjóðs, heldur aðeins geymdur peningur í varasjóði ríkissjóðs.

Ef nú ákvörðun hæstv. ráðh. um, hvort heldur ætti að innheimta þennan pening eða geyma í varasjóði ríkissjóðs, er sett í samband við lausn kaupdeilunnar, er ekkert eðlilegra en að hæstv. ráðh. hefði hugsað á þessa leið: Með því að flýta sáttum um 2–3 vikur, fær ríkissjóður tekjur af togurum, sem hann annars færi á mis við, er nema þeirri upphæð, er ríkissjóður geymir sjer í fjárhirslu skattborgarans. Valið er þá á milli þess, að taka þessa fjárupphæð annaðhvort úr vasa skattþegnsins eða regindjúpi hafsins. Segjum, að hæstv. ráðh. hefði valið síðari leiðina. Er það hneyksli? Er það hneyksli, ef hann hefði flýtt sættum með því að láta 25% skattaukann falla niður og með því geymt þá fjárupphæð í vasa skattþegnanna, en náð jafnmiklu eða meiru ríkissjóði til handa úr djúpum hafsins? Mönnum er ráðlegra að tala varlega um hneyksli í þessu sambandi, og því fremur sem hver vikan, sem verkfallið stóð, skaðaði alþjóð um hundruð þúsunda, hvað sem líður sjerhagsmunum ríkissjóðs.