03.04.1929
Efri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

38. mál, tekju- og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Ingvar Pálmason):

* Fjárhagsn. hefir klofnað um þetta litla frv. Jeg hafði búist við, að hinn hluti nefndarinnar mundi taka til máls, en hann skoðar okkur auðsjáanlega sem meiri hluta, þó að svo sje eigi.

Við tveir nefndarmenn leggjum til, að frv. verði samþykt. Þá tillögu okkar byggjum við á því, að það virðist vera ljóst af umræðunum um þetta mál í Nd. á síðasta þingi, að það var skilningur flestra deildarmanna, að þetta undanþáguákvæði ætti að miðast við nettó tekjur. En ákvæði laganna eru ekki það ljós, að svo beri að líta á, þegar til framkvæmda kemur. Þá eru lögin skýrð svo, að þetta undanþáguatriði gildi aðeins fyrir brúttó tekjur. En ef svo er litið á, sjá allir, að viðaukinn bitnar mest á þeim, sem hafa mesta ómegð og eru því tiltölulega tekjuminstir. Maður, sem hefir 4 þúsund króna brúttó tekjur, getur haft svo og svo marga á framfæri, en á samt að gjalda 25% viðauka. Þetta er svo augljóst, að jeg tel, að ekki þurfi að skýra það nánar. Hins vegar er sá stefnumunur hjá hv. 1. minni hluta, að hann vill ekki viðurkenna, að þessi undanþága eigi að eiga sjer stað. En það er augljóst, að þegar lögin voru samþ. í Nd. í fyrra, fundu þeir, sem að þeim stóðu, ástæðu til að viðaukinn kæmi ekki fram á hinum tekjuminstu mönnum, og þegar litið er til þess, virðist þetta frv. sjálfsögð leiðrjetting á misskilningi, sem löggjöfin hefir ekki ætlast til.

Jeg skal geta þess, að einn nefndarmanna hefir ekki skilað neinu áliti, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir sinni afstöðu.

*Ræðuhandrit óyfirlesið