06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2704)

1. mál, lánsfélög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það er ástæðulaust að eyða mörgum orðum út af þeim skoðanamun, sem er á milli hv. 1. þm. N.-M. og landbn.

Hv. þm. vill, að einstakir menn jafnt sem fjelög eigi kost á að fá rekstrarlán. Ef þetta yrði samþykt, gæti það leitt til þess, að þeir, sem best eru stæðir fjárhagslega, fengju lán aðeins fyrir sig, án þess að bindast nokkrum fjelagsskap með öðrum. Samstarf og samhjálp í þessum efnum myndi verða minni, eftir þessari tilhögun, ef samþykt yrði, heldur en ella, og álítur landbn., að það sje mjög óheppilegt. Hún leggur því á móti þessari till. hv. 1. þm. N.-M.

Hv. 1. þm. N.-M. fanst jeg blanda saman restrarlánum og lánum til bústofnsauka. Má vera, að jeg hafi ekki gert þess svo glögga grein, sem þurft hefði, hvað mjer þótti áfátt um að hafa þessa tilhögun á starfi þessara stofnana, sem hv. 1. þm. N.-M. vill viðhafa.

Jeg veit vel, að fjármunir, sem fengnir eru til að kaupa bústofn fyrir, að slíkum lánum í lánsfjelögum er ekki blandað saman við rekstrarlánin. En lánin, sem veitt eru til bústofnskaupa, þau standa í nokkur ár, eða nokkur hluti þeirra, sem skuld á nafni rekstrarlánafjelagsins og á

ábyrgð þess að nokkru leyti. Eftir till. þm. má veita einstökum mönnum utan fjelags lán til að kaupa bústofn. Það má veita einstaklingum, sem eru í bústofnslánafjelagi, sem þm. gerir ráð fyrir að verði, lán til að kaupa bústofn á ábyrgð allra þeirra manna, sem eru í bústofnslánafjelagi. Ennfremur getur stjórn Búnaðarbankans, eftir því sem 45. gr. þess frv. er nú orðið, gert það að skilyrði fyrir láni til bústofnskaupa, að allir, sem eru í sama fóðurbirgðafjelagi, beri ábyrgð á lánum, sem veitt eru til bústofnskaupa. Það getur þannig orðið svo í framkvæmdinni, að þeir menn, sem eru í bústofnslánafjelagi, að þeir beri ábyrgð á búfjárkaupalánum fjelaga sinna, og ennfremur bera þeir ábyrgð á búfjárlánum annara manna, af því þeir kunna að vera í sama fóðurbirgðafjelagi. Þetta er því tvöföld samábyrgð, og satt að segja ekkert fýsileg. Þessu er landbúnaðarnefndin algerlega mótfallin.

Nefndin telur best á því fara, að láta bústofnslánadeildina vera með því sniði, sem ráð er fyrir gert í frv. um Búnaðarbanka, og blanda því á engan hátt saman við starfsemi rekstrarlána fjelaganna. Það myndi bara verða til þess að rýra lánstraust þeirra, sem stæðu í skuld við bústofnslánadeild, til þess að fá rekstrarlán.

Háttv. þm. taldi að jeg hefði sagt, að þessar brtt. hans um bústofnslán kynnu að reka sig á ákv. 45. gr. Jeg fullyrti nú ekkert um þetta. En í framkvæmdinni verður það nú svo, að mönnum mun ekki þykja girnilegt að ganga inn í alla þessa ábyrgðarflækju.

Jeg held þess vegna, að hv. deild gerði best í því, að samþ. ekki þessar breytingartillögur.