14.03.1929
Efri deild: 22. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

6. mál, hveraorka

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það eru aðeins örfá orð, vegna fyrirspurnar hv. 6. landsk. Hann spurði, hvað meint væri með tilkynningu þeirri til landeiganda, sem um getur í 12. gr. frv.

Jeg lít svo á, að í þessu sje fólgin viðurkenning á rjetti landeiganda til þessara gæða, og vil því ekki fella þetta orð niður úr 1. gr. frv. En jeg veit ekki, hvort hv. samnefndarmenn mínir eru mjer sammála í þessu atriði, því að það hefir ekki verið rætt sjerstaklega í n. Jeg álít, að landeigandi eigi rjett til þessara gæða, ef hann getur fært sönnur á, að hann geti notfært sjer hann. Auðvitað má setja takmark um það, hvenær hann eigi að vera búinn að nota rjettinn, en jeg álít það ekki til bóta. Landeigandi er að mínum dómi fyrsti aðili í þessu máli, og það má ekki veita öðrum borunarleyfi, nema landeigandi hafi ekki getað fært líkur fyrir, að hann gæti hagnýtt sjer þennan rjett.

Mjer hefir ekki gefist tilefni til að fara fleiri orðum um þetta, en jeg vil árjetta það, að jeg get ekki fallist á, að felt verði niður orðið „jarðhiti“. Og jeg býst við, að þeir, sem vilja fella niður 11.–13. gr. frv., vilji enn síður missa það.