07.03.1929
Neðri deild: 16. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

33. mál, dómur í vinnudeilum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Því hefir nú verið haldið fram af hv. flm. og meðmælendum þessa frv., að í raun og veru væri hjer ekki um dóm að ræða, sem á neinn hátt hefti athafnafrelsi manna. Og ennfremur, að þrátt fyrir ákvæði frv. um dóm, væri samt sem áður hægt að gera verkfall. Á það hefir verið bent af mótmælendum frv., að þá mundi dómur að litlu gagni koma, ef verkföll væru heimul eftir sem áður.

En jeg er þeirrar skoðunar, að það, sem hefir vakað fyrir hv. flm. sje í raun og veru það, að verkföll og verkbönn væru bönnuð með þessu frv., enda kom þetta skýrt fram í ræðu hv. flm., því að hann vildi gefa í skyn, að verkföll væru bönnuð öllum öðrum en einstaklingum. Ef skilningur annara hv. þdm. er annar en hans, þá eru einhver mistök á ferð frá flm. sjónarmiði.

Jeg skal ekki fara mjög mikið út í að gagnrýna frv., þ. e. a. s. sjerstakar greinar þess, við þessa umræðu, enda hefir það verið gert af öðrum andmælendum frv. allrækilega. En jeg vildi þó frá mínu sjónarmiði aðeins benda hv. þdm. á, hvernig slíkir dómar í raun og veru dæma um svona mál.

Um gerðardóm er hjer ekki að ræða, það er öllum ljóst. Sá dómur er vanalega myndaður af fúsum og frjálsum vilja beggja aðilja, með oddamanni, tilnefndum af þriðja aðilja. Við gætum öllu fremur kallað þennan dóm, sem farið er fram á að mynda, nokkurskonar hæstarjett í vinnudeilum. Það hefir nú verið mjög skilmerkilega bent á, hvernig sá hæstirjettur í raun og veru er myndaður. Hann er sem sagt myndaður af fulltrúum frá öðrum aðiljanum að mestu leyti, nefnilega þeim hluta þjóðfjelagsins, sem maður getur altaf vænst, að hafi minni samúð með hinum stríðandi hóp, verkalýðnum. Samkvæmt þessu frv., eins og það liggur fyrir, á hjeraðsdómari í einkamálum að tilnefna tvo af þessum mönnum, sem dæma eiga. Jeg býst við því í allflestum tilfellum, að hversu varkár sem sá dómari vildi vera, þá yrði örðugt að tryggja það, að í hann veldust ekki menn, sem meira og minna væru háðir atvinnurekendum á einn eða annan hátt, annaðhvort hluthafar í atvinnurekstrinum eða hreint og beint vinir og venslamenn þeirra, sem að atvinnurekstrinum standa. Í öðru lagi má segja það, að hæstirjettur, sem á að tilnefna tvo menn í dóminn, gæti alls ekki trygt það, að ekki veldust í dóminn slíkir menn, sem jeg áður nefndi. Þótt nú svo ekki yrði, að hluthafar eða vinir og venslamenn atvinnurekenda veldust í dóminn, þá verðum við samt að gera ráð fyrir, að teknir yrðu menn, sem væru kallaðir svona skikkanlegir borgarar, sem hefðu alt aðrar skoðanir heldur en verkalýðurinn yfirleitt í þessu máli. Menn, sem myndu líta fyrst og fremst á sjálfa sig og miða þörf annara við sig og hugsa sem svo: Jeg hefi þessi laun, því ætli þessi maður geti ekki haft svo og svo miklu minni laun? Þetta er það mannlega í þessu tilfelli hjá þeim, sem þó vilja gera rjett, eins og frekast er unt. Það mundi í flestum tilfellum veljast í þennan dóm menn af þeirri borgaralegu stefnu — svo að jeg orði það ekki frekar. — Og það er augljóst, að hversu vel sem þessir menn vildu dæma, þá mundi dómurinn vera í allflestum tilfellum andvígur verkalýðnum, þegar til alls kæmi. Við höfum þegar nokkra reynslu af gerðardómi í þessu landi, en miklu meiri er sú reynsla í öðrum löndum. Jeg minnist þess, að fyrir nokkrum árum var það iðnaðarstjett hjer í bænum, sem af fúsum og frjálsum vilja kom sjer saman um gerð í launagreiðslumáli. Oddamaður var valinn sá maður, sem að allra dómi var mjög góðviljaður í garð verkamanna alment, og hvorugur aðilja gat sagt, að hann hefði sýnt sjer neina andúð. Hvernig dæmir svo þessi maður? Hann skar mitt á milli krafna beggja aðilja. Þannig dæmdi gerðardómurinn. En var nokkurt rjettlæti í því að skera mitt á milli? Var ekki krafa annars aðiljans, verkamannanna, í eðli sínu svo rjett, að órjettmætt væri að skera á milli á þennan hátt? Jeg hygg það. Enda fjekk þessi iðnaðarstjett þá reynslu af dómnum, að hún hefir ákveðið að leggja aldrei slík mál í gerð. Það er reynslan, að sá, sem ætlar að sætta menn, hann reynir að fika sig mitt á milli aðilja, hvort sem það er rjett eða rangt, til þess að gera báðum jafnt undir höfði í orði kveðnu.

Jeg hygg nú, að öðru máli sje að gegna um þennan dómstól. Hann þarf í raun og veru ekki að fara eftir þessu lögmáli, sem jeg nefndi. Hann getur upp á sitt eindæmi sagt: Jeg dæmi eins og mjer virðist rjettast. Og þá er — eins og jeg hefi nefnt — mikið komið undir því, hvernig hugsunargangur þeirra manna er, sem dóminn sitja. Nú vitum við, að hinir borgaralega sinnuðu menn líta með töluverðum ugg og sumir með ótta til verkalýðshreyfingarinnar. Og yfirleitt líta þeir svo á, að kröfur verkalýðsins sjeu altaf óbilgjarnar. Þeir miða við aðrar stjettir og segja, að verkamenn sjeu komnir of hátt í launastiganum o. s. frv. Þess vegna endurtek jeg, að meiri líkur eru til, að borgaralegur dómstóll slái striki yfir nýjar kröfur verkalýðsins á hverjum tíma. Í fleiri tilfellum myndi nauðalítið tillit verða tekið til þess, sem hann ber fram. Þetta kalla jeg að hefta sjálfsákvörðunarrjett þeirra manna, sem eru að fika sig áfram upp á bjartari brautir, til þess að geta lifað fullkomnara lífi og aflað sjer betri lífskjara yfirleitt. Það er því rjettnefni, sem hjer hefir verið bent á, að hjer er hreint og beint um þvingun að ræða gagnvart þeirri fjölmennustu stjett, sem byggir þetta land, verkamönnum til sjávar og sveita.

Það hefir verið blandað inn í þessar umr. löggjöfinni um sáttaumleitun í vinnudeilum. Jeg er orðinn nokkuð kunnugur því, hvernig hefir verið starfað í þessum málum, síðan sú löggjöf varð til. Og jeg get sagt hjer, án þess að leggja dóm beint á þá menn, sem að því máli hafa starfað, hvernig sáttasemjarar í vinnudeilum líta yfirleitt á sitt starf. Það er ekki einungis hjer innanlands, sem þessi reynsla er fengin, heldur meðal nágrannaþjóðanna, þar sem slík löggjöf er þrautreynd. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að jeg hefði frá upphafi haft þá trú, að í okkar þjóðfjelagi, eins og atvinnuvegum er háttað, væri ekki enn sem komið er annað haldkvæmara til þess að ná sáttum en að einhver þriðji maður kæmi til, sem ríkisvaldið tilnefndi. Jeg er óbreyttrar skoðunar enn. Hitt er rjett, að það eru ýmsir gallar á þeim lögum, sem þarf að bæta úr á ýmsan hátt. Síðan þessi starfsmaður ríkisins tók til starfa eftir núverandi löggjöf, þá hafa deilurnar tekið stigbreytingu, ef svo mætti að orði kveða. Áður var það í raun og veru lífsskilyrði, að aðiljar kæmu sjer saman á einhvern hátt, því að þriðja aðiljann vantaði til að ganga á milli. Þó brá út af þessu, og man jeg til, að þáverandi forsrh. í annað skifti og þáverandi atvmrh. í annað skifti, gripu inn í málið. En eins og jeg gat um í minni fyrri ræðu, þá hafa tvær deilur verið leystar hjer einmitt fyrir afskifti sáttasemjara ríkisins. En sáttasemjari lítur á sitt hlutverk á þennan eina veg, það er að leiða til sátta, á hvaða hátt sem það er. Og það er yfirleitt svo, að þegar hann gerir sjálfstæða till. eftir að hafa reynt möguleika til þess að koma aðiljum saman árangurslaust, þá reynir hann að kljúfa á milli krafnanna og þess, sem boðið er frá hinum aðiljunum. Um sáttasemjarastörf í Noregi og Danmörku hefi jeg það eftir manni, sem kynti sjer störf þessara manna, að þeirra meginregla sje sú, að þegar þeir gera till., hagi þeir henni svo, að heldur sje skorið upp á atvinnurekandann í því, sem á milli ber. Þeir líta svo á, að meiri vandi sje að fá hinn fjölmenna hóp verkamanna til að samþ. till. heldur en fámennan hóp atvinnurekenda. Þetta er reynslan erlendis, sem oftast hefir gefist vel. En það má segja, að hjá okkur sje þetta á byrjunarstigi. Enda hefir tekist svo óheppilega til í þau tvö skifti, sem sáttasemjari ríkisins hefir gert till. í máli milli sjómanna og útgerðarmanna, að hann hefir skorið upp á verkamenn í till. sínum. M. ö. o.: sáttasemjarinn hefir, vægast sagt, ekki skilið, að það er verkalýðurinn sjálfur, en ekki foringjar hans, sem gerir kröfurnar. Einmitt þetta atriði, að svona hefir tekist til, hefir gert deilur lengri hjá okkur en þurfti að vera. En jeg hygg að þessi mistök eigi þá orsök, að menn eru ekki nægilega búnir að skilja, hvernig á að vinna í svona málum og til hverra mest tillit ber að taka.

Það er fjarri mjer að kasta nokkrum steini að þeim heiðursmanni, sem um þetta mál hefir fjallað, en jeg skýri frá þessu af því, að það er ekki þýðingarlaust í sambandi við launadeilur alment, hvernig till. er gerð, sem fram er borin. Í tveimur deilum við sjómenn áttu sjer stað hrapalleg mistök af þessari ástæðu, að farið var svo fjarri þeirri meginreglu, sem sáttasemjarar erlendis hafa valið.

Það er trúa mín, að hvernig sem fer um þessi mál framvegis, þá sjeum við nú búnir að læra það af reynslunni í síðustu kaupdeilu, að í samningaviðleitni sáttasemjara á fremur að skera upp á atvinnurekendur en verkamenn, það dregur fyr til sátta. Jeg vildi sjerstaklega benda á þessa hlið málsins í sambandi við störf sáttasemjara, til þess að þau geti framvegis orðið að sem bestum notum.

Jeg tek undir það með hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að í þessu frv. felst engin lausn á þessum vandamálum. Með því á aðeins að taka af verkamönnum þeirra helgasta rjett, frelsi til þess að ákveða verð vinnu sinnar.

Jeg hefi þá með þessum inngangi ræðu minnar skýrt frá, hvernig jeg álít heppilegast fyrir þjóðfjelagið að unnið sje að þessum málum til sátta, þannig, að deiluaðiljar fari báðir ósærðir út úr deilunum.

Það er langt frá því, að kaupdeilur leiði altaf til vinnustöðvunar. Stundum tekst að útkljá þær mjög fljótt. Jeg skal nefna dæmi frá síðastl. sumri, þar sem ágreiningur varð um kaupgjald við síldveiðar. Þá tókst sáttasemjara að koma á fullum sáttum með deiluaðiljum málsins. Jeg hygg, að þegar tveir aðiljar deila jafnheitt og nú í síðustu kaupstreitu, þá sje engin sanngirni í því, að áfella aðeins annan aðilja fyrir þær kröfur, sem hann gerir, eins og hv. flm. þessa frv. hafa látið sjer sæma gagnvart verkalýðnum. Báðir aðiljar eiga þá áreiðanlega nokkra sök. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni í þessu máli, að aðfarir atvinnurekenda við framburð á kröfum sínum í kaupdeilumálum undanfarin ár, hefðu gefið sjómönnum fordæmi fyrir því, hvernig þeir ættu að sækja mál sín. Kröfur atvinnurekenda höfðu ávalt verið fjarri því marki, sem þeir hugðust að ná. Nú hafa kröfur verkamanna verið taldar ósanngjarnar af ýmsum hv. þm. Jeg hefi ekki farið langt út í að skýra, hvaða kröfur væru sanngjarnar, enda er það sveigjanlegt orð. En nú er rjettast að gera hv. þm. grein fyrir þeim.

Krafa Sjómannafjelagsins var aðeins 17% hækkun á mánaðarkaupi. Hitt er aftur á móti rjett, að sjómenn fóru fram á miklu hærri lifrarþóknun, og nam sú hækkun ca. 70%. En sú krafa var bygð á þeirri gömlu venju og kenningu sjómanna, að lifrin væri þeirra hlutur, hana ættu þeir að fá með fullu verði. Auðvitað gefur það mikinn tekjuauka þegar vel aflast. — Þetta voru nú þær óforskömmuðu kröfur, sem ýmsir hv. þm. hafa kallað svo. Og þegar þetta er reiknað eftir núverandi verðlagi, sem er miklu hærra en í meðalári, þá mátti, ef kröfunum hefði verið fullnægt, reikna það alt að 5000 kr. árskaupi fyrir háseta að meðaltali. En þeir, sem báru fram þessar kröfur, höfðu annað fyrir augum. Þeir bjuggust við, að sáttasemjari kæmi til skjalanna, og að útgerðarmenn semdu aldrei við fulltrúa sjómanna sjálfa; þeir urðu því að búast við að lækka seglin og ganga út frá því, að sáttasemjari bæri fram miðlunartillögu. Sannleikurinn í málinu er sá, að með þetta fyrir augum voru kröfurnar bornar fram, til þess að tryggja samningsaðstöðu sjómanna gagnvart miðlunartill. En svo illa tókst til, að miðlunartill. sáttasemjara fór eigi meðalveginn á milli þeirra krafa, sem útgerðarmenn og sjómenn gerðu. Þessvegna varð kaupdeilan svo löng og hörð, sem raun varð á. Af þessu voru mistökin sprottin, sem leiddu það af sjer, að eftir bardagann náðist ekki sú miðlun, sem kröfurnar stefndu til. Ef til vill hafa útgerðarmenn sjeð hvað sjómenn áttu við með kröfum sínum, og þess vegna hafa þeir hafnað fyrstu till. sáttasemjara; gert ráð fyrir, að sjómenn mundu ekki samþ. hana, eins og raun varð á. Önnur mistökin við sáttaumleitunina voru þau, að annar aðilinn — útgerðarmenn — greiddu atkv. eftir að sjómenn höfðu að mestu lokið sinni atkvgr. Jeg var sjálfur heyrnarvottur að því, að sáttasemjari bað útgerðarmenn að hafa fund sinn á sama tíma og sjómenn og greiða þá atkv. um till. En þeir drógu það í 2 daga, og voru þá búnir að vita hvernig atkv. fjellu á meðal sjómanna. Eins og allir hljóta að skilja, var þetta í mesta máta óheiðarleg framkoma gagnvart sáttasemjara, og átti sinn mikla þátt í því, að deilurnar lengdust.

Jeg vil þá lítið eitt minnast á þær kröfur, sem útgerðamenn hafa borið fram í kaupdeilum á undanförnum árum, og tel rjett að það komist inn í þingtíðindin, til þess að allir landsmenn geti kynt sjer þetta mál frá báðum hliðum.

Árið 1921 krefjast útgerðarmenn, að mánaðarkaup háseta lækki um 331/3% og lifrarþóknun um 50%. En þá varð engin breyting á kaupinu.

Sama ár, 11. sept. krefjast útgerðarmenn, að mánaðarkaupið lækki um 37% og lifrarþóknun um 70%. Þá varð niðurstaðan sú, að kauplækkun varð 14% og lækkun á lifrarþóknun 50%.

Árið 1922, 25. okt, kröfðust útgerðarmenn, að mánaðarkaup lækkaði um 30% og lifrarþóknun um 40%. — En þá varð engin kauplækkun fyrn en 23. sept. 1923, og nam hún aðeins 9% á mánaðarkaupinu einu.

Árið 1925, 16. nóv., kröfðust útgerðarmenn, að mánaðarkaupið lækkaði um 25% og lifrarþóknun um 25%. Þá var samið um 9,6% lækkun á mánaðarkaupi og 6% lækkuð á lifrarþóknun. Sá samningur var gerður til 3 ára, og rann út við síðastl. árslok. Jeg hefi skýrt frá þessu til þess að sýna, hvernig útgerðarmenn hafa beitt sjer, þegar þeir hafa verið að krefjast kauplækkunar hjer í þessum bæ. Jeg skal þá líka geta um kröfu sjómanna nú síðast, 1928; hún var 17% hækkun á mánaðarkaupi og 70% hækkun á lifrarþóknun. Samningsúrslitin eru öllum kunn.

Nei, útgerðarmenn hafa aldrei verið vægir í kröfum sínum, og á það vildi jeg benda, þegar verið er að tala um hinar ósvífnu kröfur sjómanna. Þó að hjer verði eigi farið lengra út í þessa sálma, að skýra frá viðskiftum útgerðarmanna og sjómanna, má telja, að þó að stundum hafi gefið á bátinn, þá hefir hann samt flotið yfir blindsker og boða. Samtök sjómanna hafa ekki altaf getað spornað við því, sem þurfti. En nú eru þau orðin það sterk, að útgerðarmenn sjá nú, að þeir eru ekki einir um að ráða kaupinu. Þess vegna er þetta fram komið af þeirra völdum, og engum ástæðum öðrum. Það er ekki flutt af umhyggju fyrir verkalýðnum eða til tryggingar fyrir þjóðfjelagið. Nei, það er sprottið upp í þeirra eigin heila, til varnar eiginhagsmunum þeirra.

Jeg ætla þá að snúa mjer að því að svara nokkru af því, sem komið hefir fram í ræðum fylgismanna frv., og byrja á þeim, sem talað hafa af hálfu flm.

Hv. þm. Borgf. (PO) skilur dóminn aðeins á eina lund. Hann er svo mikill íhalds- og afturhaldsmaður, að hann sjer bara eina hlið á málinu, og finst þar engan skugga á bera. Hv. þm. kvaðst vona, að dómurinn mundi verða óhlutdrægur. Jeg geri ráð fyrir, að það sje sannfæring hans. En það er leiðinlegt, að ekki óskýrari maður en hann er, skuli blekkja svo sjálfan sig. Hv. þm. talaði um, að við jafnaðarmenn hjeldum, að afstaðan til stjórnmálanna yrði látin ráða við dómsúrslit. Jeg verð þá að fræða hv. þm. á því, að í kaupdeilumálum hefir oft ráðið grimmasta pólitík hjá útgerðarmönnum. Það, sem útgerðarmenn ætluðu sjer að vinna með kaupdeilunni 1921, var að fá lækkaðan innflutningstoll á kolum og salti. Með deilu þeirri, sem nú er nýlega um garð gengin, sagði stjórnarblaðið, að útgerðarmenn hefðu ætlað að kreppa að landsstjórninni og koma henni í vanda. Þeir gerðu alt af ráð fyrir, að kaupdeilan mundi standa langt fram á þingtímann. Hvað er þetta annað en pólitík?

Þá talaði hv. þm. (PO) um, að við, andstæðingar frv., ætluðum þeim mönnum, sem í dómnum sætu, alt ilt, af því að við værum svo illir í huga sjálfir. Það er fjarri mjer að ætla þeim mönnum nokkuð ilt, en þeir yrðu vitanlega háðir sinni samtíð og þeim, sem þeir umgengjust, og gætu þar af leiðandi ekki tekið óhlutdræga afstöðu, en hlytu að líta á málin með öðrum augum en verkalýðurinn.

Jeg skal geta þess, að jeg átti nýlega tal við góðan, óhlutdrægan embættismann hjer í bænum. Það var í síma. „Þið sigruðuð,“ sagði hann. Jeg svaraði því, að mjer þætti þetta ekki mikill sigur. Hann sagði, að sjer þætti gott að fá 10% uppbót á sín laun; það gat hann skilið. Þessir menn miða alt við sjálfa sig og eru svo háðir tíðarandanum. (MJ: Þetta hefir verið misheyrn í síma). Nei, fjarri því.

Hv. þm. (PO) taldi það ekki vert af löggjöfum að slá því fram, að vinnudóminum yrði ekki hlýtt. Við andstæðingar frv. höfum haldið því fram, að þessi lög færu algerlega í bág við rjettlætistilfinningu manna. Og það verð jeg að segja, að jeg hefi oft heyrt því varpað fram af þm. hjer í þessum sal, t. d. þegar vínbannslögin voru hjer til umræðu, að það væri þýðingarlaust að samþykkja slík lög, því að þeim yrði aldrei hlýtt. Þetta sögðu margir þingm. úr flokki þeim, sem hv. þm. (PO) tilheyrir, og þeim tókst líka að koma því til leiðar, að þeim lögum var ekki hlýtt.

Hv. þm. (PO) hjelt því fram, að kaupdeilur og verkföll mundu endurtakast árlega, ef ekki væru reistar skorður við því samkv. frv. þessu. Jeg hefi áður skýrt frá því, að það hafa aðeins verið háðar 5 kaupdeilur á síðastl. 13 árum. Mjer þykir ákaflega líklegt, að sá kaupsamningur, sem nú hefir verið gerður milli útgerðarmanna og sjómanna, standi óbreyttur árið 1930, að óbreyttum ástæðum, og kannske 1931, ef útgerðarmenn segja honum ekki upp, og ef verðlag í landinu breytist ekki frá því, sem nú er. Sjómenn segja honum varla upp, ef dýrtíðin vex ekki. Hvað útgerðarmenn gera, veit jeg ekki, en þetta teldi jeg þó talsverðan vinnufrið.

Hv. þm. (PO) lagði mikið upp úr því í ræðu sinni, að hægt væri að gera verkföll eftir sem áður, þrátt fyrir þessi lög, en jeg sje þá ekki til hvers á að setja þau. Það er betra að hafa engan vinnudóm, ef ekki er ætlast til að hann geti spornað við verkföllum. Þá kom hv. þm. inn á eignarrjettinn og taldi að tveir óvilhallir menn ættu að dæma milli deiluaðilja, þannig vinnudómurinn mundi veita eignum verkamanna meiri vernd og trygging en nú. En hvaða traust er í því fyrir verkamenn, þegar andstæðingar þeirra eiga að dæma? „Skýst þó skýr sje,“ má segja um þenna hv. þm.

Jeg ætla þá að svara fyrirspurnum hv. þm. (PO) með nokkrum orðum. Fyrst spurði hann, hvaða gagn væri að þessum langvinnu verkföllum, og hvort þau kæmi þjóðfjelaginu ekki við. Jeg hefi aldrei neitað því, að þau snertu þjóðfjelagið. En verkalýðurinn er yfirleitt svo stór aðili í þjóðfjelaginu, að það er heilög skylda þess að taka tillögur hans til greina. Og þó að verkalýðurinn neyðist stundum til þess, að gera verkföll, þá á þjóðfjelagið ekki að hella olíu í eldinn með þeirri lagasmið, sem hjer er á ferðinni. Allar siðmenningarþjóðir viðurkenna sjálfsákvörðunarrjett verkalýðsins til þess að ákveða kaup fyrir vinnu sína. — Í öðru lagi spurði hv. þm. hvernig jeg liti á starf þingm. Jeg hjelt, að það þyrfti ekki að svara þessu. Þingmenn hvers kjördæmis eru jafnframt þingmenn allrar þjóðarinnar og eiga að taka sinn þátt í öllum hennar málum. Jeg hefi nokkuð kynt mjer þingsögu þessa hv. þm., og hefi aldrei orðið þess var, að hann hafi skilið eða stutt málefni verkalýðsins, heldur hefir hann altaf snúist öfugur gegn þeim. Hann hefir því ekki verið þm. fyrir þjóðarheildina, en aðeins rekið erindi atvinnurekenda. Hann hefir aldrei uppfylt þær þingmannsskyldur, að taka fult tillit til allra stjetta þjóðfjelagsins. — Jeg hefi þá að mestu svarað þessum hv. þm.

Næstur honum talaði hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að vísu stillilega; en þrátt fyrir það kom hann með ýmsar fjarstæður, sem jeg get ekki látið fram hjá fara að leiðrjetta. Hann hjelt því fram, að með þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, ynnist nógur tími til að undirbúa þessi mál í ró og næði til dómsúrskurðar. Hv. þm. veit vel, að tími er nægur orðinn til þess, að samningar geti tekist með nægilegum fresti frá samningsuppsögn. Uppsagnarfresturinn er og hefir verið 3 mánuðir, og jeg fæ ekki betur sjeð, en að það sje nægur tími til að vinna að lausn málsins í ró og næði.

Þá komst hv. þm. N.-Ísf. inn á kaupgjaldið og virtist ætla að slá sjer upp hjá bændafulltrúunum hjer í deildinni. Sagði hann að bændur gætu ekki greitt eins hátt kaup og greitt væri við sjávarútveginn. En það er ekki ný saga, að sjávarútvegurinn færi þeim, sem hann stunda, meiri tekjur en landbúnaðurinn færir þeim, sem hann rækja. Það liggur í hlutarins eðli. Togarahásetinn ber tífalt úr býtum á við vinnumenn í sveit, og togaraeigandinn hundraðfalt á við sveitabóndann. Það er því ekki hægt að bera þetta kaupgjald saman, enda hefir reynslan sýnt, að auðæfi okkar Íslendinga eru úr djúpinu sprottin, þó að hitt verði að játa, að tryggasti forðinn sje í hinni ræktuðu jörð. Enda þarf ekki togaralaunin ein til samanburðar, því hv. þm. vitnaði í hlut smábátamanna vestra og gat þess, að þeir fengju alt að 1500 kr. fyrir 3–4 mán. Það er víðar hægt að afla sjer tekna en togurum.

Þá var hv. þm. að tala um þá kúgun, sem verkalýðsfjelögin beittu í viðskiftum sínum við atvinnurekendur. Jeg gæti nú sagt frá miklu harðari kúgun frá hendi útgerðarmanna, ef jeg vildi fara að rifja þá ófögru sögu upp. Fjelagsskapur atvinnurekenda kúgar sína samherja engu síður, hvort sem þeir standa utan eða innan fjelagsskaparins. Hv. þm. veit það ósköp vel, að einstakir útgerðarmenn mega ekki semja upp á sitt eindæmi, þó að þeir vilji það. (JAJ: Þetta er ekki rjett). Jú, þetta er rjett. Samtök útgerðarmanna eru svo sterk, að þeim manni, sem brýtur þau, er ekki framar líft. Mjer er það persónulega kunnugt, að ýmsir útgerðarmenn, sem ekki voru í fjelagsskap atvinnurekenda, höfðu mikla löngun til að gera sjersamninga, en þeir þorðu það ekki og ljetu það í ljós við mig, í hálfyrðum að vísu. En þessa kúgun, sem atvinnurekendur beita við sína samherja, tel jeg miklu meiri og harðari en þá kúgun, sem verkalýðsfjelögin neyðast til að beita við meðlimi sína. Enda þurfti ekki að beita þá neinu harðræði í þessari deilu, því að skilningur manna á gildi samtakanna er orðinn það þroskaður, að þeim er ljúft að fylgjast að með fjelögum sínum.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) talaði mjög mikið um þá menn, sem vinna á hans eigin skipum, og sjerstaklega þessa fjóra, sem eru í Sjómannafjelagi Reykjavíkur. Jeg veit að hv. þm. segir rjett frá viðskiftum sínum við þá, og að þeir ljeku þann skollaleik, að þykjast vilja vera á skipinu, ef Sjómannafjelagið samþ. það. En þetta sýnir ekkert nema það, að hægt er að blekkja menn eins og hv. þm. N.-Ísf., engu síður en hv. þm. Borgf. Sannleikurinn var sá, að þeir vildu ekki styggja húsbóndann, en óskuðu beinlínis eftir því, að við leyfðum þeim ekki að sigla fyr en friður kæmist á.

Þá sagði hv. þm., að kröfur sjómannanna hefðu verið of háar. Jeg skal ekki fara inn á það, af því að það er þegar búið að skýra frá því, af hverju þær voru svona háar, og svo mikið er víst, að teljandi voru þeir sjómenn, er þótti of langt gengið.

Þá fanst hv. þm.till. sáttasemjara hefði verið boðleg í alla staði. Jeg skal ekki láta mig inn á það atriði, en svo mikið vil jeg segja, að hún náði skemmra en allir óskuðu, auk þess sem ýmislegt vantaði í hana, sem seinna kom fram hjá hæstv. forsrh. (TrÞ) og tekið var inn í samninginn.

Þá fanst hv. þm. það undarlegt, að sjómennirnir skyldu ekki hafa gengið að þeirri sömu till. í janúar, sem þeir höfnuðu í desember. Við, sem erum orðnir það fullorðnir, að við munum sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga við Dani, vitum, að þá var það metnaðarmál að taka ekki boði, sem einu sinni var búið að neita, og jeta ofan í sig kröfur sínar. Og það er svo mikið sjálfstæði enn þá í Íslendingum og íslenskum sjómönnum, að þeir gátu ekki gengið að till., sem þeir voru búnir að hafna áður. Það var þeim metnaðarmál. Ef til vill skilur hv. þm. það ekki, hvað það er að eiga metnað, en íslenskir sjómenn vita það vissulega.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að sanngjarnt væri að miða kaupið við það verð, sem á afurðunum væri á hverjum tíma. Þetta virðist ekki ósanngjarnlega mælt, af hálfu þessa hv. þm., sem einnig er útgerðarmaður. En hefir kaupið verið miðað við þetta? Nei, sú stefna hefir altaf ráðið hjá togaraeigöndum, að hásetarnir fengju ákveðin skamt, hvernig sem gengi. Sjálfum sjer ætla þeir að bera áhættuna, ef illa fer, og hinsvegar að hirða gróðann, þegar vel gengur. Frá þessari stefnu hafa útgerðamenn aldrei hvikað. (ÓTh: En dómurinn? Eftir hverju mundi hann fara?). Hann mundi fara eftir vilja hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), ef hann tórði, því að hann mundi varla láta undir höfuð leggjast, ef jeg þekki hann rjett, að beita sínum kringlóttu til að koma fram vilja sínum, ef annað ekki hrifi. (ÓTh: Á hv. þm. við það, að jeg mundi múta dómnum?) Jeg get ekki gefið hv. 2. þm. G.-K. trúna. Hann trúir því, að ef dómur hefði gert um málin í síðustu kaupdeilu, þá hefði ekki komið til verkfalls. Jeg held það gagnstæða. Og báðir erum við jafn ófróðir um það, hvað orðið hefði, og getum hvorugur um það dæmt. Það má vel hugsa sjer, að dómur hefði gert um málin eins og sáttasemjari. Nú var till. hans feld, og þar sem leyfilegt er að gera verkfall eftir frv., hefði verkfall orðið eftir sem áður.

Hv. þm. N.-Ísf. skýrði frá því, hvaða kaupgjald hefði verið á þeim togara, sem hann stendur fyrir. Mjer kemur ekki til hugar að rengja þenna hv. þm. um, að hann skýri rjett frá, en eftir því, sem honum segist frá, skilst mjer, að hásetar á hans skipum hafi haft vinnu óslitið alla tólf mánuði ársins. Og mánaðarkaup þeirra var 338 kr., eða lítið eitt hærra en meðalkaup á togurum árið 1927. Þetta styrkir mig í þeirri trú, að við höfum reiknað rjett, og að meðalkaup togaraháseta á mánuði hafi verið 300 kr., miðað við 10 mánaða vinnu.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að jeg hefði sagt, að togararnir ættu að stunda þorskveiðar á sumrin. Þetta er ekki rjett. Jeg hefi aldrei sagt neitt í þessa átt. Mjer er það vel ljóst, að þessi tími, frá júlíbyrjun og fram í miðjan ágúst, er verst fallinn til þorskveiða, enda er hann notaður til þess að dytta að skipunum, ef þau fara þá ekki á síld. Mjer hefir því aldrei komið til hugar að áfellast útgerðarmenn fyrir það, þó að þeir gerðu togarana ekki út á þorsk yfir þennan tíma. Það er fjarri því.

Jeg hefi þá svarað öllu verulegu í ræðu hv. þm. N.-Ísf., og skal því ekki fjölyrða frekar við hann. Jeg sje, að hv. þm. Dal. (SE) er ekki staddur í deildinni. Jeg get því hlaupið yfir hann, en jeg get ekki látið vera að segja það, að mig undraði það stórlega, að hann skyldi tjá sig fylgjandi þessu óskapnaðarfrv. Hann þykist þó vera í frjálslynda flokknum, en jeg fæ ekki sjeð, að það lýsi miklu frjálslyndi, að fylgja öðru eins frv. og þessu. En það er eins og sumir eigi minst af því, sem þeir guma mest af.

Þá kem jeg að þeim, sem, eins og danskurinn segir, er í „Halen“ á hinum öðrum fylgjendum frv., hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh). (MJ: Er hann að fiska á Halanum). Jeg býst við því, að hv. 1. þm. Reykv. (MJ) skilji hvað við er átt, og geti þreifað eftir skottinu, sem fyr, og sannfærst um, hvort það sje ekki allnærri honum. Jeg og hv. 2. þm. G.-K. höfum oft ræðst við áður, og höfum margt við hvorn annan að segja. Hann þykist vera vel fróður í þessum málum, en jeg verð að segja það, að það þarf brjóstheilindi til að koma og tala eins og þessi hv. þm. gerði, með jafnmikla syndabyrði á bakinu og hann hefir frá fyrri og síðustu kaupdeilum. Jeg hygg því, að honum væri fyrir bestu að svara ekki, þegar inn á það er farið. (ÓTh: Jeg læt Odd svara). Þeir menn hafa sennilega nóg, sem svo ríkir eru, að þeir hafa ráð á að hafa hirðfífl í þjónustu sinni.

Hv. 2. þm. G.-K. byrjaði ræðu sína með því að lýsa yfir því, að framtíðarhorfurnar væru alt annað en góðar. Jeg hefi áður skýrt frá því, hvernig við jafnaðarmenn litum á það mál, en með þessum ummælum skýrir hv. flm. frá viðhorfi útgerðarmanna til þess, og gefur fyrirheit um það, að þeir muni segja upp nýgerðum samningum. Jeg get ekki skilið þessi orð á annan veg. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að það er með hag fósturjarðarinnar fyrir augum, að hann hugsar til slíks.

Þá skýrði hv. þm. frá því, að við hefðum átt tal saman út af síðustu kaupdeilu. Jeg er nú svo gerður, að jeg get ekki fengið mig til að skýra frá því, sem einhver kann að segja við mig í „privat“-samtali. En þetta er satt. Við hittumst á götu og töluðum saman í kringum þrjá stundarfjórðunga. Og það kom margt fram í því samtali. Jeg er ekki sá ódrengur, að fara að skýra frá því, sem þessi hv. þm. sagði, en þá skildi jeg hug hans allan og sá, hvernig hann ætlaði að hegða sjer í kaupdeilunni. Það getur ekki verið annar en hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), sem hv. flm. (JÓl) kallar hinn æstasta í hópi útgerðarmanna, því að hann er maður, sem hikar ekki við að spila svo hátt spil, að öllu þjóðfjelaginu stafi voði af, til þess að geta verið voðalega mikill maður!! Það er hann, sem heldur flokksmönnum sínum dyggilegast saman í öllum launadeilum, því að hann virðist vera svo voldugur peningamaður, eða ræður yfir svo miklu fje, að hann getur haldið þeim í járngreipum, til þess að þeir rjúfi ekki fylkinguna á meðan hann vill að deilan standi.

Í fyrstu gat hv. 2. þm. G.-K. ekki haft persónuleg afskifti af síðustu kaupdeilu, vegna þess að hann hafði öðrum störfum að gegna, fór af landi burt nokkru eftir að samningar hófust, setti því annan mann í sinn stað. En á síðustu stundu mætti hann við samningana í veikindaforföllum þess manns, sem áður hafði mætt. Hann mun hafa skoðað sig sem einhvern frelsandi engil, eins og hann sjálfur mundi kalla það, og vilja láta líta svo út fyrir þjóðinni. Þessi staðgöngumaður hv. þm. starfaði að öllu leyti í sama anda og hann vildi vera láta, að samningagerðinni, en það var ekkert gert, sem afgerandi var fyrir lausn málsins, fyr en á síðustu stundu, hjá hæstv. forsætisráðherra. Með þessu móti heldur hv. þm., að hann geti spilað sig mikinn mann og sjer sje að þakka lausn deilunnar. En hinu ber ekki að neita, að hann er stórhættulegur fyrir þjóðfjelagið, þegar kaupdeilur eru á döfinni, því enginn einn maður á meiri þátt í því, að þær eru jafn langdregnar og raun er á orðin. (ÓTh: Jeg er hættulegur fyrir suma). — Yfirleitt var það svo í þessum deilum, að hvorugur aðili vildi gera nokkra tilslökun, af því að menn vissu, að málið átti að ganga til miðlunar. Og jeg er hræddur um, að sáttasemjari hafi vitað, að till. hans hafi ekki átt miklum vinsældum að fagna hjá útgerðarm., og því hafi varfærnin verið helst til mikil frá hans hálfu. Þar með meina jeg, að sáttasemjari hafi óttast of mikið þá hörku, sem fulltrúar útgerðarmanna sýndu honum í samningunum, og það því ráðið mestu um, hvernig tillaga sú leit út, er hann bar fram.

Hv. 2. þm. G.-K. vjek að því, að hlutaskifti gætu komið til mála í framtíðinni, en ekki á meðan hann rjeði óþvingaður. Jeg veit það, að hann vill skamta hásetum skarðan hlut, og að hlutaskifti komast ekki á, meðan hans andi svífur yfir vötnunum. Hann þarf ekki að upplýsa mig um það. En því verður ekki á móti borið, að það er rjettlátt að mörgu leyti, að hásetarnir taki sinn þátt í því, hvort vel eða illa gengur, og jeg er fyrir mitt leyti sannfærður um, að hlutur háseta hefði ávalt orðið stærri en verið hefir, ef slík regla hefði gilt um launakjörin. Hinsvegar verð jeg að játa, að núverandi fyrirkomulag er bæði ranglátt og vitlaust. Jeg skal nefna dæmi frá síðasta hausti. Skip hv. 2. þm. G.-K. er á veiðum vestur á Hala. Það fiskar svo að segja eingöngu ufsa, og lifrin gerir 195 föt. Upp úr ufsanum er minna að hafa fyrir útgerðina en ef um þorsk væri að ræða, en lifrarhlutur hásetanna var allmikill. Á sama tíma er annað skip á ísfiski. Lifrin gerir nú ekki nema 20 föt, en skipið selur aflann í Englandi fyrir 1800 pund. Útgerðin stórgræðir á þessari ferð, en hásetarnir bera langsamlega minna úr býtum en í fyrra tilfellinu. Svona er launagreiðslum við íslenska togaraútgerð vitleysislega fyrir komið.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að fulltrúar verkamanna segðu við sína menn: Þið semjið ekki. Hv. þm. veit auðvitað ekkert um það, hvað við segjum við verkamenn, en svo mikið get jeg sagt honum, að við segjum ekkert nema það, sem við höldum að sje rjett. En jeg gæti trúað, að þetta væri runnið út úr eigin höfði hv. þm. Hann hefir svo oft sjálfur viðhaft þessi orð við sína menn.

Þá fór hv. þm. að reikna út það tap, sem sjómenn hefðu orðið fyrir vegna verkfallsins. Nú var vinnustöðvunin að meðaltali á skip 1½ mánuður, en þetta er tími, sem skipin að öllum jafnaði ganga á ísfisk, og þar með um leið nota til að búa sig undir vertíðina í Englandi. Ísfisksveiðarnar eru vanar að gefa hásetum 240 kr. á mánuði, svo að tap sjómannanna í þennan mánuð er alls 360 kr. í stað 1000 kr., eins og hv. 2. þm. G.-K. vildi vera láta. Miðað við aflabrögð tveggja síðustu ára, nemur kauphækkun háseta 500 kr. á ári, svo að hjer er óneitanlega um ábata að ræða fyrir þá, þrátt fyrir það vinnutjón, sem þeir hlutu af verkfallinu. Þrátt fyrir þetta hafa þeir haft hag af samningunum. Og meiri verður þó ávinningurinn, ef svo færi, að þessi samningur stæði eitt ár enn. Síðasta tilboð útgerðarmanna var 205 kr. á mánuði og 25 kr. lifrarþóknun, og við það hefði setið, ef sjómenn hefðu látið bilbug á sjer finna. Mismunurinn er því 9 kr. á mánuði og 3.25 á lifrarfati eða sem næst 325 kr. á ári á mann. Útreikningur hv. þm. er því bábilja ein.

Þá segir hv. þm., að enginn dómstóll dæmi minna en þurftarlaun. Nú höfum við, þessir tveir menn og fleiri, deilt um þurftarlaun, og jeg býst við, að ef hv. 2. þm. G.-K. segði sín þurftarlaun eins og þau munu vera í raun og veru, að þá yrðum við ekki sammála um þau. Hversu velviljaður, sem hann vildi vera í garð sjómanna, tel jeg víst, að þau þurftarlaun, sem hann reiknaði þeim, yrðu fyrir neðan það, sem þeim væri samboðið, er telja sig menn með mönnum. Jeg býst við, að slíkur dómstóll sem þessi líti líkt á þetta og hann, og sje enga tryggingu fyrir, að svo verði ekki. Væri fróðlegt að láta hagfræðinga reikna út þurftarlaun sjómanna, sem verja besta tíma æfinnar í slítandi og heilsuspillandi erfiði. Landlækni telst svo til, að starfsorka togaraháseta endist í 20 ár að meðaltali. Eftir það sje hann farinn maður. Auk þess mætti í þessu sambandi taka tillit til þeirra mörgu, sem druknað hafa í köldum mar, og hinna, sem beðið hafa slys við þessa atvinnu.

Alt þetta þarf að taka með í reikninginn, er reikna skal sjómanninum þau þurftarlaun, að hann þurfi ekki að verða þjóðinni til byrði vegna slits og slysa.

Svo kom hv. þm. með þá kenningu, að verkföllin væru vopn verkalýðsforingjanna, en friðsamleg samtök vopn verkalýðsins. Eftir þessu geta verkföllin eigi verið friðsamleg. Nú vil jeg spyrja hann: Hvað getur friðsamlegra verið en framkoma sjómanna í síðustu kaupdeilu? Jeg held að víða mætti leita að svo friðsamlegri og prúðmannlegri framkomu, sem þó var bygð á festu og skilningi. Þar kom fram sá vilji, sem enginn dómstóll er megnugur að kæfa og engin völd geta bugað.

Jeg hefi þegar minst á úrslit síðustu kaupdeilu og fer ekki út í þau nánar. En það skal jeg segja hv. 2. þm. G.-K. og öðrum í hans herbúðum: Þó að þeir kalli okkur æsinga-postula, skulu þeir vita það, að á bak við okkur standa þúsundir manna brynjaðir sterkum vilja og með fullum skilningi á því, að sá tími er kominn, að sú kúgaða stjett krefjist rjettar síns. Og sá tími kemur líka, að málsvarar hennar hjer í hv. deild verða ekki þrír, heldur margfalt fleiri. Mótstaða auðvaldsins gegn bættum kjörum alþýðunnar þýðir ekkert annað en harða sókn af hálfu verkalýðsins með þeim vopnum, sem honum eru gefin. Og jeg er sannfærður um það, að á móti frv. því, er hjer liggur fyrir, og stutt er af tveimur Framsóknarmönnum og sameinuðum Íhaldsmönnum, rís slík andúðaralda, að þess vænti jeg, að aldrei verði frv. þetta að lögum á þessu þingi, og það hljóti þá meðferð, að aldrei skjóti það upp höfði framar.