20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

63. mál, hlutafélög

Ólafur Thors:

Jeg ætla ekki að lengja umr. með því að fara að deila við hv. þm. Ísaf. (HG) um afkomu einstakra togara. Jeg ætla þó að geta þess, að í þessu deilumáli okkar komu fram það skýr gögn frá minni hálfu, að vandalaust var fyrir hann að komast að rjettri niðurstöðu, ef hann hefði ekki fremur kosið að þjóna lund sinni. Það er því ekki hallað á þennan hv. þm., þó að staðhæft sje, að hann mundi ekki sjá í það að rangfæra tölur til þess eins, að reyna í bili að sjá málstað sínum borgið.

Jeg lagði sjálfur fram reikning yfir hina ýmsu kostnaðarliði, og skýrði þá mjög nákvæmlega, en ritstjóri Alþýðublaðsins skelti skolleyrunum við upplýsingum mínum og tók þær ekki til greina. Jeg lagði þá tölur hans til grundvallar, en bætti einungis við þeim kostnaðarliðum, sem hann hafði gleymt. En alt kom fyrir ekki. Hann vildi ekki sjá nje skilja í það skiftið, og jeg er hræddur um, að svo reynist oftar.

Þá var það rangt hjá hv. þm. Ísaf., að jeg hefði sagt, að þótt vinnudómur væri lögleiddur, gæfist almenningi enginn kostur vitneskju um hag fyrirtækjanna. Jeg sagði þvert á móti, að dómsniðurstöðurnar væru það eina, sem almenning skifti nokkru máli að vita, og þær fengi almenningur að vita. Og þær niðurstöður eru áreiðanlega meira virði en þær heildarútkomur, sem reikningar fyrirtækjanna sýndu, þótt þeir lægi öllum almenningi til sýnis. Það er því rangt og mjög vanhugsað af hv. 4. þm. Reykv., þegar hann undirstrikar þau ummæli hv. þm. Ísaf., að almenningur fái í dómsniðurstöðunum engar upplýsingar um hag fjelaganna. Að svo sje, vill hann rökstyðja með því, að Alþýðuflokkurinn eigi ekki nema 1 mann í dómnum og sje hann auk þess bundinn þagnarskyldu. En til hvers á almenningur að fá þessar upplýsingar, nema til þess að geta á þeim grundvelli bygt sanngjarnar kaupkröfur? (HG: Ætlast þm. til, að dómsniðurstöðurnar sjeu einungis bygðar á gjaldgetu fyrirtækjanna?) Dómsniðurstöðurnar eru bygðar á þeim upplýsingum, sem fram koma, og dómurinn hlýtur ávalt að hafa frjálsar hendur um að marka höfuðlínurnar í þessum viðskiftum beggja aðilja. Annars má um það deila, hvað beri að leggja til grundvallar slíkum úrskurðum, og fer það auðvitað eftir atvikum. Jeg teldi eðlilegt að hafa hliðsjón af gjaldgetu og notaþörf.

Nokkurs virði er mjer sú játning hv. þm. Ísaf., að jeg þyrfti ekki að færa sjerstakar sannanir fyrir því, að almenningi væri óljúft að birta efnahag sinn umfram það, sem minst væri hægt að komast af með. Þetta er staðreynd, og þess vegna er þýðingarlaust að ætla að pína almenning um skýrslugjöf umfram alþjóðarnauðsyn.