26.03.1929
Neðri deild: 32. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

65. mál, myntlög

Haraldur Guðmundsson:

Jeg veik að því í upphafi ræðu minnar, að það væri ekki rjett nafn á frumvarpinu, að kalla það verðfestingarfrv. Í því eru engar ráðstafanir gerðar til þess að tryggja, að hægt sje að halda genginu föstu. Allar þjóðir, sem fest hafa gengi sitt, hafa jafnhliða gert margvíslegar ráðstafanir til þess að verjast nýjum gengissveiflum. Hjer í frv. eru engin tryggingarákvæði, engar nýjar ráðstafanir gerðar til þess að festa gengið, aðeins sagt að krónan skuli hafa það gildi, sem frv. greinir. En það er ekki eins auðvelt og hv. flm. virðist ætla, að festa gengi peninga. Það er ekki nóg að lögbjóða, að þarna skuli t. d. krónan fest, — skuli hafa þetta gildi. Það verður að gera jafnframt ráðstafanir, sem tryggja það, að gengið haldist, en svifi ekki svo að segja í lausu lofti. Í frv. eru ekki aðrar ráðstafanir gerðar en að leggja á bankana skylduna um að halda gengi seðlanna föstu. En það sýndi sig, ekki alls fyrir löngu, að sú trygging nægði skamt.

Forvígismenn þessa máls tala svo ljettúðlega um það, eins og ekkert sje auðveldara en að festa gengið. Það ætti þó að mega krefjast þess af þeim mönnum, sem flytja slíkt mál fram á Alþingi, að þeir muni svo langt aftur í tímann, að þeir hafi ekki gleymt því, að gullinnlausnarskyldan varð innantóm orð, sem ekki nægðu til að verjast gengislækkun, og að henni var af þeim sökum ljett af bönkunum.

Það hefir verið talað um mikinn undirbúning, sem gerður hafi verið til þess að festa krónuna. En mjer er ekki kunnugt um, að gerður hafi verið hinn minsti undirbúningur í þessu efni, af hálfu þeirra manna, sem bera fram þetta mál. Að vísu hefir hv. fim. leitað upplýsinga um málið hjá fróðum mönnum í nágrannalöndunum, og spurt þá nokkurra spurninga. En það er eftirtektarvert um þessar spurningar, sem hann hefir lagt fyrir hina erlendu sjerfræðinga, að í þeim er ekki minst einu orði á það, sem þó er mergurinn málsins: hvernig við eigum að fara að því að festa gengið, heldur aðeins spurt um hitt, hvort við eigum að stýfa, þ. e. festa undir verði. Svörin verða samt talsvert mismunandi. Svar norska bankastjórans Ryggs, bendir ekki til, að hann telji ráðlegt að festa gengið, og er það þó við svipuðum spurningum, sem lagðar voru fyrir forseta bankastjórnar sænska ríkisbankans, og bygt á samskonar upplýsingum. Fyrsta spurningin, sem lögð er fyrir Jochnich bankastjórnarforseta, er um það, hvort teljast mætti óráðlegt, að ríkið festi með lögum gjaldeyri sinn sem næst núverandi gengi. Í öðru lagi er spurt um það, hvort verðfestingin mundi gera ríkinu erfiðara fyrir um lántökur erlendis, eða hafa yfirleitt teljandi áhrif á viðskifti Íslands við aðrar þjóðir, og í þriðja lagi, hvort stýfa eigi krónuna um leið og verðfestingin fer fram, eða ákveða henni nýtt gildi, t. d. eftir 5 ár, og hafa þá tvennskonar mynt næstu 5 árin.

Þetta er efni spurninganna, en eins og þær bera með sjer, er ekki vikið einu einasta orði að því, hvernig verð festingin skuli framkvæmd, eða hvaða ráðstafanir þurfi að gera til þess að tryggja það, að gengið haldist óbreytt. Það er eins og hv. flm. geri ráð fyrir því, að ef sett verða lög um það, að gengið skuli fest sem næst því sem nú er, þá sje allur vandinn leystur. Má það kallast furðulegt minnisleysi, ef hann hefir algerlega gleymt því nú, hvernig ástandið var fyrir nokkrum árum, og hvað þá gerðist.

Spurningarnar, sem lagðar voru fyrir Rygg, bankastjóra norska ríkisbankans, voru aðeins tvær. Fyrst var spurt um: „hvort það megi teljast ráðlegt nú, þegar gengið hefir í 3 ár haldist stöðugt í 80–82% af gamla gullgildinu, að festa það með lögum“. Og í öðru lagi: „hvort óttast þurfi, að þetta mundi verði til að hnekkja áliti landsins“.

Hjer ber að sama brunni og um hinar spurningarnar, sem lagðar voru fyrir sænska bankastjórann. Norski bankastjórinn er heldur ekki spurður um, á hvern hátt eigi að festa gengið. Jeg get ekki annað sagt, en að það undrar mig stórum, úr því að leitað er álits erlendra sjerfræðinga, að þá skuli gengið algerlega fram hjá því sjálfsagðasta, sem er álit sjérfræðinganna um það, hvað gera þurfi til þess að tryggja fast og örugt gengi.

Fyrsta manninn, sem nefndur er í álitsskjölum þeim, sem frv. fylgja, prófessor Cassel, þurfti ekki að spyrja. Það var öllum vitanlegt, hverju hann mundi svara.

Mjer er kunnugt um, að þær þjóðir, sem fest hafa gjaldeyri sinn á undanförnum árum, hafa ekki álitið, að það nægði að setja aðeins lög þar um.

Þegar Þjóðverjar fóru að hugsa um að festa sinn gjaldeyri, þá var lítið um það talað, hvort slík ráðstöfun væri „rjettlát“, heldur snerust umræður um það, hvernig trygt yrði, að gengið yrði fast. Þeir veðsettu eignir, lögðu á sjerstakan fasteignaskatt og keyptu upp alt það gull, sem þeir gátu klófest. Að þessum undirbúningi loknum, sáu þeir sjer loks fært að setja lög um fast gengi.

Jeg veit ekki betur en að Danir, sem hugsuðu sjer hægfara hækkun síns gjaldeyris, byrjuðu á því, að tryggja sjer fje erlendis, til þess að styrkja þjóðbankann til að halda genginu föstu. Þeir höfðu því yfir nógu fjármagni að ráða, þegar til framkvæmda kom. En þó sýndi það sig, að þeim ætlaði að reynast það erfitt, að verjast nýjum gengisbreytingum, eftir að erlendir fjesýslumenn höfðu sett krónuna á örskömmum tíma upp í gull, með því að kaupa upp danskan gjaldeyri. En af því að tryggingin nægði, þá tókst þó að halda genginu við, — verjast nýrri lækkun.

Og sama hygg jeg að hafi gerst í Noregi. Einnig þar var hugsað um hægfara hækkun. En einnig þar rjeðu menn ekki við neitt, þegar til kom. Erlendir fjesýslumenn komu með peninga, ruddu þeim inn í landið og keyptu upp gjaldeyrinn. En Norðmenn höfðu trygt sjer fje til festingarinnar og gátu því varist nýju hruni.

Hjá okkur hefir undirbúningurinn til þess að halda genginu föstu, verið með öllu vanrœktur. Og það verður heldur ekki sjeð, hvorki í grg. frv. nje af ræðum hv. flm., að hann álíti nokkra þörf á undirbúningi í þessu skyni. Jeg hefi áður sagt það og vil segja það enn, að jeg tel það bera vott um mikið ábyrgðarleysi, að flytja fram á Alþingi frv. um verðfesting gjaldeyris okkar, sem er jafn illa undirbúið og þetta frv., þar sem engar ráðstafanir eru gerðar til þess að verjast nýrri gengislækkun. Og þetta ábyrgðarleysi er ekki aðeins hjá hv. flm., heldur og hjá sjálfri ríkisstjórninni, sem stendur á bak við frv.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig þýskt blað, „Hamburger Fremdenblatt“, sem skýrir frá einni þjóð hjer í álfu, sem nú er að gera það sama og okkur er ætlað að gera með þessu frv., þ. e. stýfa gjaldeyri sinn. Það eru Rúmenar. Þar hefir gengið verið fast í 3 ár, og þingið hefir í huga að lögfesta það gengi, sem nú er.

En það er eftirtektarvert, hvaða ráðstafanir Rúmenar hugsa sjer að gera, áður en þeir festa gengið með lögum, og fróðlegt að bera það saman við það, sem hjer er gert ráð fyrir að nægi.

Fjárhagur Rúmeníu getur ekki kallast örðugur í bili; virðist álíka og hjá okkur. Ríkisskuldirnar nema um 42 dollurum á mann, en hjer mun láta nærri að þær sjeu um 120–140 kr. á nef. Eitthvað mun þó vera meira af lausaskuldum hjá þeim en okkur. Á ríkissjóðsreikningum tveggja síðustu ára hefir verið jöfnuður annað árið en einhver afgangur hitt árið. Af þessu stutta yfirliti er það bersýnilegt, að fjárhagur ríkisins í heild getur ekki talist bágborinn.

En hvaða ráðstafanir ætla nú Rúmenar að gera, áður en þeir festa gengið með lögum?

Þeir byrja með að tryggja sjer 101 miljón dollara að láni. En þeir segja, að það nægi ekki að tryggja lán, ef afborganir og vextir af því verði að takast af venjulegum tekjum ríkissjóðs. Þess vegna verður jafnframt að afla aukatekna fyrir ríkissjóð. Og það gera þeir með því að taka upp einkasölur, semja við sænska eldspítnahringinn og fleira þess háttar. Þessar aukatekjur á að nota til þess að borga vexti og afborganir af gengisláninu.

En þeir láta sjer ekki nægja þetta. Þeir ákveða jafnframt með lögum að þjóðbankinn skuli framvegis einn hafa alla seðlaútgáfuna í landinu, og jafnframt er gullforðalágmark hans hækkað upp í 35% af seðlamagninu. En allar þessar ráðstafanir telja Rúmenar ekki nægilegar. Þeir semja ennfremur við höfuðbanka í 14 þjóðlöndum, er þeir hafa sín aðalviðskifti við, um að þeir lofi að veita ríkinu þá „credit“, sem til þess þurfi næstu ár að halda genginu óbreyttu. Ennfremur má geta þess, að gjaldeyrisfesting Rúmena er gerð í samráði við Dawesnefndina og trúnaðarmenn hennar. En sú nefnd hefir sem kunnugt er, haft einskonar yfirumsjón með fjármálum ýmsra Evrópuríkjanna upp á síðkastið.

Þá er og gert ráð fyrir því, að ríkisreikningar næstu ára skuli vera hallalausir og að trúnaðarmaður Dawesnefndarinnar hafi eftirlit með því að svo sje.

Þetta eru þá helstu ráðstafanirnar, sem Rúmenar telja nauðsynlegar um leið og þeir festa mynt sína.

Hagur ríkissjóðs þeirra er, eins og áður er sagt, svipaður og hjá okkur, en jeg skal játa, að um verslunarjöfnuðinn er mjer ekki kunnugt.

Beri maður nú þessar ráðstafanir saman við það, sem við höfum gert, þá er það glögt, að það er á engan hátt saman berandi, að okkur hefir algerlega sjest yfir mikilsverðasta atriðið í undirbúningi málsins. Þess vegna getur það ekki annað en valdið mjer undrunar, að frv. skuli borið fram á þessu þingi.

Jeg veit að vísu til hvaða tryggingar hv. flm. vísar um það, að halda genginu föstu. Í grg. þeirri, sem frv. fylgir, er komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„En rjett mun, að Landsbankinn haldi enn um skeið þeirri lánsheimild, sem hann hefir í New York, ef til hennar skyldi þurfa að grípa í svip, en ef nauðsyn yrði lengri lána, sem ekki er útlit fyrir að svo stöddu, þá veitir sú lánsheimild nægilegan frest til slíkra útvegana.“

Eina tryggingin, sem hv. flm. gerir ráð fyrir, auk gullinnlausnarinnar, er þá lánsheimildin í Ameríku frá 1926.

En nú vil jeg leyfa mjer að spyrja: Er lánsheimildin nokkur trygging? Er vissa fyrir því, að ríkið geti enn fengið þessar 2 miljónir dollara með 5% vöxtum? Jeg þykist vita, að þetta hafi breyst og geti breyst enn, eins og ekki er nema eðlilegt um lán, sem samið er um frá ári til árs. Jeg hygg, að það sje ástæða til að ætla, að lánsupphæð sú, sem fáanleg er þar, hafi lækkað mjög mikið og vextirnir hækkað stórlega. Mig furðar á því, að hv. flm. skuli ekkert um það segja, hvort vissa er fyrir því, að þessar 2 milj. fáist enn með 5% vöxtum, því ef svo er ekki, hvar er þá tryggingin, sem talað er um í grg. frv.?

Þá er vísað á aðra tryggingu, það er gullinnlausnarskylda bankanna, en jeg hefi áður sýnt fram á, að sú trygging hefir ekki reynst nægileg, og verður heldur ekki nægileg, ef verulega ber út af með árferði.

Í sambandi við þetta vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn hvort hún hafi notað lánsheimildir þær, er þingið veitti henni í fyrra, meðal annars til þess að tryggja Landsbankanum þær þrjár miljónir króna, sem honum eru ætlaðar samkv. Landsbankalögunum, og ennfremur, hvort Landsbankinn hafi þann gullforða, sem ákveðið er í lögunum, þ. e. 1/3 hluta seðlafúlgunnar, eða minst 2 miljónir króna í gulli. Mjer er sagt, að allmjög skorti á, að gullforðinn sje svo hár sem hann á að vera, en að bankinn telji til viðbótar honum innieignir sínar erlendis, sem nú munu vera óvenjulega miklar. En auðvitað er það engin trygging á við gullforðann, því að það fje notar bankinn til greiðslu upp í viðskifti sín erlendis, og enginn veit hve mikið þær innieignir því breytast eða hvar þær eru á þessum og þessum tíma.

Kynni jeg hæstv. stjórn þakkir, ef hún vildi svara þessum spurningum skýrt og skorinort. — Sjest þá, hvort hún hefir vanrækt alveg gersamlega þennan sjálfsagðasta byrjunarundirbúning eða eigi. —-

Það er rjett, að gengismálið er algerlega innanríkismál. Gengissveiflurnar valda því, að straumur auðsins rennur í mismunandi áttir innanlands. En þó að þessir straumar eigi upptök sín í útlöndum, myndast orsakir gengisbreytingarinnar hjer heima.

Annars mundi það ekki óholt þeim mönnum, er þetta frv. vilja gera að lögum, að rifja upp söguna um það, er gengistruflanir hófust hjer og krónan okkar lækkaði, og athuga þá um leið, hvort sama sagan mundi ekki geta gerst aftur þrátt fyrir það, þó að gjaldeyrir okkar væri lögfestur.

Yfirfærsluörðugleikarnir byrjuðu með því, að fjesýslumenn og kaupsýslumenn, smáir og stórir, með aðstoð Íslandsbanka, ruddu inn í landið kynstrum öllum af vörum. Þeir borguðu Íslandsbanka vörurnar með seðlum, sem hann oft og einatt sjálfur lánaði þeim. Menn hjeldu áfram að borga fje inn í bankann, en hann gat ekki staðið skil á því til útlendinganna, sem það áttu, af því að lánstraustið hjá viðskiftabanka hans í Danmörku var þá þrotið. Og sama var um póstfjeð að segja, það var heldur ekki yfirfært, þótt Íslandsbanki hefði tekið við því svo miljónum skifti hjer heima í eigin seðlum. Það lágu þannig margar miljónir eða tugir miljóna íslenskra króna, sem landsmenn höfðu borgað í bankann, en bankinn ekki getað staðið í skilum með til hinna erlendu kröfuhafa. Þá var ekki viðurkendur neinn gengismunur á danksri og íslenskri krónu, en þegar yfirfærslurnar fjellu niður og lánstraust Íslandsbanka var tæmt erlendis, þá komu gjaldeyrisspekúlantarnir til sögunnar. Hundruð erlendra manna höfðu átt hjá Íslandsbanka andvirði krafna, sem þeir höfðu sent honum í góðri trú, svo árum skifti. Bankinn hafði innheimt kröfurnar, en ekki getað skilað hinum erlendu eigendum fjenu. Í augum margra þeirra var Íslandsbanki þjóðbanki Íslendinga. Varð þetta því til hins mesta hnekkis áliti og gjaldtrausti okkar erlendis. Margir litu svo á, að bankinn hlyti að vera gjaldþrota og töldu fje sitt tapað með öllu. Erlendur víxlakaupmaður sá sjer þá leik á borði, hann auglýsti, að hann keypti íslenska krónu fyrir 80 danska aura. Menn tóku þessu boði, seldu íslensku krónuna fyrir 80 aura danska, töldu betri hálfan skaða en allan, og þar með var gengishrunið byrjað.

En hvernig hefði nú verið hægt að fyrirbyggja þetta gengishrun? Það hefði verið hægt að komast hjá því, ef trygt hefði verið í tíma, að Íslandsbanki eða þá þjóðbankinn með aðstoð ríkisins, hefðu getað fengið lán í útlöndum til þess að greiða hinum erlendu kröfuhöfum á rjettum tíma. Ef þetta hefði verið gert og Íslandsbanki hefði ekki tæmt lánstraust sitt erlendis og ausið út seðlum til útlána innanlands, þá hefði hrunið aldrei komið. Þá hefði íslensk króna haldið jöfnu gengi við hina dönsku. (MG: En krónan komst lægst 1924). Það fer vel á, að sá maður, sem, illu heilli, varð atvinnumálaráðherra árið 1924 þegar íhaldið tók við völdum, minni á þá atburði, sem þá gerðust, á hina alóþörfu og ástæðulausu gengislækkun snemma á árinu 1924, sem eingöngu var gerð til þess að gefa fáeinum útflytjendum óverðskuldaðan stórgróða, sem tekinn var af verkalýð til sjós og lands. (MG: Gengið komst lægst áður en stjórnarskiftin urðu). En það var eftir að kosningar höfðu farið fram og vitað var, að íhaldið myndi taka við völdum. Þá var gengið felt um 10%, sterlingspund hækkað úr 30 í 33 krónur, og algerlega að óþörfu. Það fer vel á því, að sá maður, sem stóð að slíkri lækkun, rifji þetta upp nú og kalli sig hækkunarmann. Það sýnir heilindin. Og svo er þessi maður að tala um þá rangsleitni, sem atvinnurekendur verði fyrir, ef gengið er hækkað. En mjer er spurn: Hverjir græddu á lækkuninni? Voru það ekki sömu mennirnir? Það er býsna langt gengið, ef til þess er ætlast, að sömu menn græði bæði á gengislækkun og gengishækkun. Vitaskuld er slíkt ómögulegt með öllu, andstætt öllum lögum viðskiftalífsins.

Þegar hv. flm. hefir athugað þennan kapítula í gengissögu okkar og sjer að raskið stafar af óhagstæðum verslunarjöfnuði í bili og skorti á lánstrausti erlendis, þá vil jeg leyfa mjer að spyrja, hvort hann sje ekki hræddur við að sú saga geti endurtekið sig þótt frv. hans verði að lögum? Og hvernig hugsar hann sjer að tryggja það, að álíka rask geti ekki komið fyrir aftur?

Jeg sje ekki nema eina leið til þess og hún er sú, að tryggja sjer lánstraust erlendis. Það er þungamiðja málsins, og það gildir jafnt hvort sem krónan er fest í núverandi gengi eða einhverju öðru, t. d. í sínu gamla gildi. En af frv. verður ekki annað sjeð, en að þetta hafi verið með öllu vanrækt og gegnir það meir en furðu.

Ef festa á krónuna í núverandi gengi, þá er enn meiri þörf á ríkari tryggingu, eins og jeg drap á í fyrri ræðu minni um daginn. Því að með því er þá slegið föstu, að krónan á ekki að hækka aftur, þótt hún lækkaði úr hinu lögfesta gildi. Ef krónan því lækkaði einhverntíma síðar meir, þá yrði það til þess að fjefletta launamenn og verkalýð í landinu og sjálfan ríkissjóðinn og gefa atvinnurekendum og útflytjendum stórgróða, sem þeir síðan fengju að sitja að rólegir, eftir að því væri slegið föstu, að ranglátt sje að bæta hlut þeirra, sem töpuðu á lækkuninni, með því að hækka gengið aftur.

Jeg er hræddur um, að svo kynni að fara, þegar illa áraði, að sagan frá 1924 endurtæki sig. Það er ekki ósennilegt, að undir svipuðum kringumstæðum kynnu að koma fram kröfur frá atvinnurekendum um að lækka gengið þeim til hagsbóta og sníða á þann hátt lengjur af hrygg almennings. Slíkt er í sjálfu sjer mjög einfalt, og má vel gera með einni einustu óviturlegri og óþjóðhollri fjármálaráðstöfun.

Mestur hluti ræðu hv. flm. snerist um þau atriði, sem jeg tel skifta minna máli í þessum efnum. Hann vildi gera sjer far um að sýna fram á, hve mikla erfiðleika og rangindi krónuhækkunin bakaði sumum mönnum og jók þar mjög við. Margt af því, sem hann sagði um þessi atriði, er að vísu rjett, en algerlega óþarft að taka fram, þar sem enginn mælir því í gegn. Okkur er það öllum ljóst, að ómögulegt er að hækka gengið, án þess að baka þeim nokkuð tjón og erfiðleika, sem skulda í íslenskum krónum. Þetta er viðurkent, og því óþarfi að fjölyrða um það. En hv. flm. má ekki einblína svo á þetta atriði, að hann gleymi þeim gífurlega órjetti og ranglæti, sem allur þorri hinna vinnandi stjetta í landinu er beittur, ef hætt er við að hækka krónuna. Hv. flm. verður í þessu efni, sem öðrum, að líta fyrst og fremst á það, hvað sje hagfeldast fyrir þjóðfjelagið í heild, en ekki á hagsmuni einstakra manna eða einstakra stjetta í landinu eingöngu.

Áður en jeg vík frekar að því, vildi jeg minna hv. flm. á það, að þótt hann virðist ekki hafa haft opin augu fyrir þörf þess undirbúnings, sem hjer þurfti að gera, heldur látið sjer nægja að leita álits hinna erlendu sjerfræðinga um það, hvort stýfa skyldi, þá er það ljóst, að hæstv. forsrh. hefir haft nokkra hugmynd um það, að undirbúning þyrfti. Hann hefir leyft erlendu blaði að hafa eftir sjer þau ummæli, að „Alþingi hefir nú skipað gengisnefnd, til þess að rannsaka, hvernig Ísland getur fest krónu sína þar sem hún stendur nú.“ Það er eftirtektarvert, að nefndin á, eftir þessum ummælum að dæma, ekki að athuga hvort Ísland eigi að stýfa, heldur hvernig slíkt megi gerast. Hæstv. forsrh. hefir eftir þessu skilið, að nánar þyrfti að athuga, með hverjum hætti festingin gæti best komist á. Það er því undarlegt, að hv. flm., sem er form. gengisnefndarinnar, skuli hafa skotist yfir þetta. Og jeg get ekki neitað því, að enn undarlegra er, að hæstv. forsrh., sem látið hefir hafa eftir sjer þessi ummæli, skuli ekki krefjast þess af gengisnefndinni, að hún geri einhverja slíka rannsókn og skýri þinginu frá niðurstöðu hennar, hvernig eigi að festa gengið.

Til stuðnings því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að ef þetta yrði að lögum, þá yrði gengið einungis fast upp á við en laust niður á við, skal jeg taka það fram, að ummæli Ryggs bankastjóra benda eindregið í sömu átt. Hann segir svo í áliti sínu: „Þegar þannig er komið niður á nýtt og lægra gullgildi, vinnur sjálfur tíminn að því, að gera þennan grundvöll varanlegan, að minsta kosti að því leyti, að gullgildi hækkar ekki.“

Þannig farast Rygg bankastjóra orð. Honum er ljós sú hætta, að gengið kunni að lækka þá og þegar, þrátt fyrir „festinguna“. Hjer er veilan í þessu frv., að gengisbreytingar eða gengislækkun er alls ekki fyrirbygð með frv., þótt svo sje ef til vill talið af formælendum þess.

Jeg verð nú að fara fljótt yfir sögu, þar sem tíminn er takmarkaður. En einu má varla ganga fram hjá: Hv. flm. sagði, að verkamönnum væri það síst til hagnaðar, þótt gengishækkanir hjeldi áfram. Af því myndi leiða kaupdeilur, atvinnuleysi og lækkað kaup, svo að þeir væru engu bættari. Jeg er hjer á andstæðri skoðun, og sú skoðun mín styðst við okkar reynslu í þessum efnum, og reynslu annara þjóða. Það er reynslan alstaðar, að eins og kauphækkun fer á eftir gengislækkun, eins fer kauplækkunin á eftir gengishækkuninni, svo að verkalýðurinn fær þannig nokkra uppbót fyrir þann halla, sem hann hefir beðið, þegar gengið lækkaði. Nú sem stendur er kaupið nokkuð fyrir ofan verðlagsvísitöluna. Ef kaupgjaldið fylgdi ávalt verðlaginu, hefðu verkamenn enga ástæðu til að kvarta yfir gengisbreytingum. Flm. virðist gleyma því, að við jafnaðarmenn lítum svo á, að kaupgjald verkamanna hafi verið of lágt fyrir stríð, og að enn fái þeir minna af verði framleiðslunnar en þeim ber. Við vinnum og stefnum að því, að afla verkamönnum meiri hlutdeildar í arði vinnunnar. Öll barátta verkalýðsins miðar í þá átt. Og í öllum löndum hefir kaupgjald hækkað raunverulega, nema þar sem gengið er nú undir hinu gamla gengi. Í stýfingarlöndunum er kaupgjald afar lágt og óviðunandi. Jeg skal nú sýna með tölum hverjar kaupgjaldsbreytingar hafa orðið samfara verðlagsbreytingum hjer á landi. Dýrtíðin er miðuð við vísitölur hagstofunnar, og kaupgjaldið við mánaðarkaup háseta á togurum. Árið 1915 er verðlagið hækkað um ca. 47%, og 1916 um 87%, en bæði þessi ár er kaupgjald óbreytt og óhækkað frá 1914. 1917 er kaupgjald 40% en verðlag 175% yfir því, sem var 1914. Í árslok 1918 er kaupgjald enn óbreytt frá 1917, 40% yfir 1914, en verðlagið hækkað um 240%. Í árslok 1919 er kaupið 100% en verðlagið ca. 280% yfir 1914, en um áramótin næstu hækkar kaupið og nær vísitölunni snöggvast, en þá hoppar verðlagið enn upp og kemst upp í 362% yfir verðlag 1914, síðari hluta ársins 1920. Loks 1921 fellur aftur snöggvast saman verðlag og kaup, og frá þeim tíma hefir kaupið verið nokkuð ofan við verðlagsvísitöluna. Í 7 ár, frá 1914 til 1921, hefir kaupið því stöðugt verið undir verðlagsvísitölunni, oftast ákaflega mikið, en síðan nokkuð yfir, aldrei þó nálægt því eins mikið og mismuninum nam, þegar gengið var að lækka. En nú ber á það að líta, að í þessum útreikningum er miðað við togarakaupið aðeins, sem hefir verið það hæsta, sem borgað hefir verið hjer á landi. Þess vegna mun mismunur verðlags og kaupgjalds yfirleitt hafa verið meiri en hjer að framan er greint. Kaupgjald í landi, þar sem það er hæst, hjer í Reykjavík, er nú kr. 1.20 á tímann, sem svarar til 12 kr. dagkaups með 10 tíma vinnu. Nú er fróðlegt að bera þetta kaup saman við kaupgjaldið í paradísarlöndum stýfingarinnar, t. d. Finnlandi. Þar hefir markið verið fest í um 11 aurum ísl. En ekki er nú ástandið friðvænlegra, þrátt fyrir stýfinguna, nje „vinnufriður“ öruggari í Finnlandi en það, að þar hefir staðið yfir harðvítugt verkfall hafnarverkamanna síðustu 8 mánuðina. Því verður tæplega sagt, að stýfingin tryggi „vinnufriðinn“ þar. En lítum nú á, hvernig kaupgjaldið er í Finnlandi, og er þá fyrst að nefna kaup hafnarverkamanna í Austur- Finnlandi. Þeir hafa 5–6 mörk á tímann, sem jafngildir 55–66 au. á tímann. Í Helsingfors er kaupið hæst, 8 mörk, eða ca. 88 au. á tímann. Meðal árskaup hafnarverkamanna í Helsingfors er kringum 9–11 þús. mörk, og hæst alt að 14 þús. mk. finsk. í ísl. krónum verður það h. u. b. 990–1200 kr., og hæst 1540 kr.

Nú kann einhver að segja, að það sje ódýrt að lifa í Helsingfors, en það er öðru nær. Húsaleiga í Helsingfors er minst 500 mk. á mánuði fyrir verkafólk, og ein algeng máltíð kostar þar minst 10 mk. Ef reiknað er með tveim máltíðum á dag, yfir alt árið, verða það yfir 7200 mk. Þar við bætist húsaleigan, 6000 mk. Til samans verður þetta yfir 13 þús. mk., og á þeim launum, sem þar eru greidd, er því alls ómögulegt að lifa í Helsingfors, enda er ástand verkalýðsins ákaflega bágborið. En „atvinnuvegirnir“ blómgast, segja stýfingarmennirnir. Það er engin furða, þótt atvinnurekendur græði, þegar þeir greiða slík sultarlaun. Annað land, Frakkland, hefir einnig stýft sinn gjaldeyri. Þar er kaupgjald helmingi lægra en í Þýskalandi; þó fær Frakkland meginhluta allra hernaðarskaðabóta, sem Þýskaland verður að greiða. Kaupgjaldið þar er 28–34 fr. á dag, sem svarar til 5–6 ísl. króna. Þannig er nú ástandið í stýfingarlöndunum. En lítum nú aftur á land, þar sem aldrei komst verulegt rót á gjaldeyrinn. Jeg á hjer við Svíþjóð. Þar er kaupgjald hæst í álfunni, 12 kr. svenskar á dag, í Stokkhólmi, með 8 stunda vinnutíma. eða um kr. 1.60 ísl. á tímann. Þjóðverjar hafa fyrir löngu verðfest; þar var kaupgjald lengi vel lágt, en nú er það hækkað upp í 9 mk. fyrir 8 tíma vinnudag hjá hafnar- og flutningaverkamönnum. í Danmörku ætla jeg, að verkakaup sje nú kr. 1.25 á tímann, enda hefir það hækkað töluvert í seinni tíð. Þetta ætti að sanna hv. flm. það, að ekki eru það fullyrðingar út í bláinn, þótt við segjum, að verkalýðurinn vinni á með hækkun krónunnar, en skaðist með lækkun gengis eða festingu lággengis.

Hv. flm. fullyrti, að ein afleiðing krónuhækkunar myndi verða sú, að skapast myndi atvinna fyrir þá menn, sem venjulega láta hæst yfir skaðsemi þeirra fyrirtækja, sem illa eru rekin. En svo bætti hann við því, að slíkt myndi lítil atvinnubót fjöldanum. Jeg satt að segja bjóst ekki við þessu úr þessari átt, og skal að sinni leiða hjá mjer að deila við hv. flm. um þetta atriði. Hinu hverf jeg ekki frá, að eins og hækkunin 1925 varð til þess að ýms af fyrirtækjum þeim, sem þjóðfjelaginu var lítil eftirsjá að, urðu að hætta störfum, eins myndi áframhaldandi hækkun á sama hátt vinna þjóðarheildinni talsvert gagn einmitt á þessu sviði. Hitt er auðvitað rangt, að öll þau fyrirtæki, sem komast í kröggur vegna hækkunarinnar, sjeu braskfyrirtæki, enda hefi jeg aldrei sagt það.

Hv. flm. gerir mikið úr þeim örðugleikum, sem krónuhækkun myndi hafa í för með sjer. Mjer finst hann þó ekki enn hafa sýnt það nægilega. Í hverju þeir erfiðleikar eru fólgnir, eða að ekki megi á þeim sigrast. Sumir þeirra manna, sem tjón bíða af hækkun, hafa áður stórgrætt á lækkuninni. Auðvitað munu margir bíða halla af gengishækkun, án þess að hafa grætt á gengislækkun, en í slíkum tilfellum má á margan hátt ljetta undir með þessum mönnum.

Hv. flm. gerir ráð fyrir, að töp bankanna vegna gengishækkunar myndu verða mjög mikil. Jeg efast um það. Þeir viðskiftamenn bankanna, sem ekki eiga fyrir skuldum, verða náttúrlega enn ver stæðir, og töp bankanna á þeim hækka sem gengishækkuninni nemur. En hinir eru, sem betur fer, fleiri, sem eiga fyrir skuldum og eitthvað þar framyfir. Þeir myndu sjálfir bera hækkunina. Auk þess hefir verið bent á, að auðvelt er fyrir bankana að hjálpa þessum mönnum og draga úr tjóni þeirra af þessum ráðstöfunum. Hv. þm. Dal. lýsti því yfir, að sá banki, sem hann stendur fyrir, hafi grætt 4–5 milj. kr. vegna gengishækkunarinnar 1925, á einu einasta láni erlendis. (ÁÁ: Á hverjum græddi hann?) Slíkum gróða eiga bankarnir að verja til þess að ljetta undir með skuldunautum sínum, með því að lækka vexti af lánum þeirra frá lággengisárunum, eftir að hækkun er um garð gengin. Á þenna hátt er hlaupið undir bagga með þeim, sem helst verða fyrir barðinu á gengishækkuninni.

Hv. 1. þm. Reykv. fanst rjett að gefa eftir af skuldunum. Mjer virðist tæplega ástæða til þess. Með þeim ráðstöfunum, sem jeg nú hefi gert grein fyrir, er gerður munur á skuldum frá lággengisárunum og öðrum skuldum. Jeg tel og sjálfsagt, að bankarnir lækki einnig vexti af innstæðum. Þeir, sem hafa safnað fje á lággengisárunum og fá það hækkað, geta vel sætt sig við það, þótt vextir af því sjeu lækkaðir.

Hv. flm. var hissa á Rússum, að hafa ekki hækkað gjaldeyri sinn upp í gullgildi. Jeg skal nú láta hann sjálfan um að leysa þá gátu, og ekki blanda mjer inn í það. Þeir tóku upp nýjan, gulltrygðan gjaldeyri, jafnháan eða hærri þeim gamla.

Mjer fanst kenna nokkurs ósamræmis hjá hv. flm., þegar hann talaði um, að það væri óskynsamlegt af mjer að vera mótfallinn stýfingu, því að ef hækkað yrði, yrðu verkalaun að lækka. En við hv. 1. þm. Reykv. segir flm., að hækkun krónunnar fylgi raunveruleg hækkun kaupgjalds verkalýðsins. Jeg veit ekki, hvernig hv. flm. vill samræma þetta. Mjer sýnist þetta ósamræmanlegt með öllu.

Þá er loks eitt fræðimannlegt orðtak, sem hv. flm. notar mikið, en sem jeg aldrei hefi fengið efnisskýringu á, það sem hann kallar „kaupmáttarjafngildi“ krónunnar. Hann talar um „kaupmáttarjafngildi“ krónunnar sem eitthvert framtíðar-takmark, sem stefna beri að. Mjer er ekki vel ljóst, hvað hv. þm. meinar með þessu. Ef til vill það, að ísl. kr. hafi sama kaupmátt, hvar sem er í heiminum. En slíkt getur aldrei orðið. Til dæmis hlýtur ísl. króna að hafa alt annan kaupmátt í ríkjum eins og t. d. Bandaríkjunum, þar sem girt er með afarháum tollmúrum, heldur en í þeim löndum, þar sem slíkar hömlur eru eigi lagðar á verslunina og vörur hækkaðar í verði. Jafnvel hjer í landinu sjálfu hefir krónan alls ekki sama kaupmátt allsstaðar. Hún hefir t. d. alt annan kaupmátt hjer í Reykjavík heldur en t. d. norður á Hornströndum. Að tala um „kaupmáttarjafngengi“ getur verið skemtilegt og fræðimannlegt spjall, en sem þáttur í úrlausn gengismálsins er slíkt einskis virði.

Jeg ætlaði að lokum að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. fjmrh., en þar sem hann er hjer ekki viðstaddur, verð jeg að vera fáorður í hans garð. Hæstv. fjmrh. undraðist það mjög, að íhalds- og jafnaðarmenn skyldu standa hlið við hlið í þessu máli, eða blanda blóði, eins og hann orðaði það. Þetta þarf þó ekki að vera neitt undarlegt, jafnvel þótt gert sje ráð fyrir heilindum hjá íhaldsmönnum í þessu máli. Mætti það vera öllum ljóst, eftir að hafa heyrt ræður mínar og hv. 1. þm. Reykv. Hv. 1. þm. Reykv. benti aðallega á það ranglæti, sem lánardrottnarnir, innstæðufjáreigendur, eru beittir með þessu frv., þar sem þeir fá ekki greiddar aftur fullu verði þær krónur, sem út voru lánaðar áður en gengislækkunin hófst. Þetta hefir mikið til síns máls, en er þó ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er í mínum augum það, að með þessu frv. er því slegið föstu, að töpin, sem verkafólkið varð fyrir vegna lækkunarinnar, á ekki að bæta upp með jafnmikilli gengishækkun. Verðfestingin verður því til þess að lögfesta ranglæti í garð meginþorra þjóðarinnar; allra þeirra, sem selja öðrum vinnu sína.

Það er kunnugt, að tvenn tækifæri hafa verið látin ónotuð, þegar mátti hækka krónuna sársaukalítið upp í gull á stuttum tíma. Það var árið 1925 og 1928. Mönnum er kunnugt um, af hvaða ástæðu hækkunin var stöðvuð 1925, og hvaða maður varð þess valdandi. Aftur á móti er alt hljóðara um árið 1928. Þá mátti hækka krónuna sársaukalítið í árslok, þar sem allar afurðir landsins voru seldar, og innkaup ekki byrjuð fyrir næsta ár. Landsbankinn átti þá nær 20 milj. kr. í erlendum bönkum, og mátti því auðveldlega hækka krónuna upp í gullgildi á mjög stuttum tíma, án þess að það hefði veruleg áhrif á fjárhagsafkomu ársins fyrir landsmenn. Árið 1925 kom hækkunin á óhentugasta tíma, bankar, ríkisstjórn og gengisnefnd, lögðust á eitt um að halda genginu niðri, en lánaðist það ekki. Hækkunin kom meðan mest af afurðum landsmanna var óselt, en innkaup til ársins að mestu gerð. Loks stöðvaði svo „hækkunarmaðurinn“ hv. 3. landsk. (JÞ) hækkunina með nýju seðlaflóði seint um haustið, einmitt þegar hún hefði orðið þrautaminst. Ef hækkað er á rjettum tíma, þegar búið er að selja allar afurðir ársins og áður en innkaup til næsta árs eru byrjuð, verður hækkunin mjög sársaukalítil og hefir engin áhrif á rekstrarafkomu þess árs. Hún íþyngir þá ekki öðrum en þeim, sem eiga ógreiddar stofnskuldir frá lággengisárunum, og er þá sjálfsagt að ljetta undir með þeim með ívilnunum á vaxtakjörum, eins og jeg áður hefi bent á.

Jeg er bjartsýnn á framtíð okkar. Jeg býst við, að hún beri í skauti sjer góðæri, sem gefa okkur ný tækifæri til þess að hækka, og jeg vil ekki láta þau tækifæri ónotuð. Jeg er á móti þessu frv., því að með því er krónan fest upp á við, aðeins upp á við. Með því er lögfestur órjettur sá, sem gengislækkunin olli, og gengishækkunin til þessa hefir eigi bætt, sem eigi verður bættur á annan hátt en þann, að láta krónuna ná sínu gamla gildi.