27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Flm. (Jón Jónsson):

Í byrjun þessa þings var lagt fyrir hv. Nd. frv. um hjeraðsskóla. Afgreiðsla þess mun nú komin vel á veg. Hjer er á ferðum annað frv. um mentamál, eigi ómerkara, og fjallar um stúdentafræðsluna í landinu, ásamt gagnfræðakenslu í tveim stærstu kaupstöðunum. Því miður var frv. þetta eigi fullbúið fyrir þing, og gat því eigi komið fram sem stjórnarfrumvarp. Þess vegna fór hæstv. kenslumálaráðh. fram á það við mig og hv. þm. Ak., sem báðir eigum sæti í mentmn. þessarar hv. deildar, að við flyttum frv. fyrir sína hönd. Þótti okkur eigi rjett að skorast undan því að verða við tilmælum hans, þótt hitt hefði verið æskilegast, að frv. hefði verið formlega flutt af stjórninni. Er ný löggjöf um þetta efni mjög aðkallandi, eigi síst vegna norðlenska skólans. Sá skóli hefir nú mjög fært út starfssvið sitt, og veldur þar um mestu áhugi núverandi skólameistara og sá skilningur og víðsýni, sem komið hefir fram af hálfu hæstv. kenslumálaráðh. í garð skólans. Æskir skólinn þess nú, að fá nánari fyrirmæli í lögum um starfsháttu og tilgang þeirrar fræðslu, sem honum er ætlað að veita.

Um mentaskólann hjer hafa orðið miklar umræður á undanförnum árum. Milliþinganefnd hafði stúdentafræðsluna til athugunar fyrir nokkrum árum. Frumvörp um breytingar á skólanum hafa verið til umræðu á Alþingi hvað eftir annað. Má ætla, að nú sje tímabært að setja lög um skólann, og er líklegt, að það, sem um hann hefir verið rætt og ritað, um nokkurra ára skeið, geti orðið til leiðbeiningar við þá lagasetningu.

Það mælir ennfremur með lagasetningu nú, að endurskoðun á fyrirkomulagi stúdentafræðslunnar hefir alveg nýlega farið fram á Norðurlöndum. Af niðurstöðum þeirrar endurskoðunar má vafalaust mikið læra.

Það frv., sem hjer liggur fyrir, er samið af 3 mönnum, sem tvímælalaust eru meðal bestu skólafræðinga landsins. Hafa þeir allir farið utan, til að afla frv. undirbúnings. Er því einsætt, að til þess muni vandað í besta lagi. Við flm. höfum sjálfir ekkert að því unnið og eigi tekið afstöðu til einstakra atriða þess. Þess vegna tel jeg eigi ástæðu til, að við gerum grein fyrir því sjerstaklega, og því síður sem hæstv. kenslumálaráðh. er sjálfur viðstaddur. En jeg vænti þess, að hv. deild leyfi því að ganga til 2. umr. og vísi því til nefndar.