27.03.1929
Efri deild: 33. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í C-deild Alþingistíðinda. (3476)

103. mál, menntaskóli og gagnfræðaskóli í Reykjavík og Akureyri

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Úr því að hv. 3. landsk. hefir vakið máls á því, að æskileg væri rækilegri framsaga í þessu máli, vil jeg geta þess, að frv. sjálfu fylgja mjög ítarlegar athugasemdir. Frv. hefir nú þegar legið frammi talsverðan tíma. Jeg held þess vegna, að hv. þm. (JÞ) mundi hafa gefið sjer tíma til að blaða í gegnum það, ef hann hefði á annað borð talið umræður nauðsynlegar á þessu stigi málsins. En þó að jeg búist við, að flestir hv. deildarmenn hafi lesið athugasemdirnar, skal jeg bæta við þær nokkrum orðum, fyrst fram á það er farið.

Eins og hv. flm. tók fram, hafa forráðamenn mentaskólans hjer, og ýmsir áhugamenn utan hans, árlega farið fram á það, nú um langan tíma, að sett yrði ný löggjöf um skólann. Þetta hefir enn eigi tekist, og ekki víst að það takist fremur nú. Um það eru líka skiftir skoðanir, hversu sníða skuli slíka löggjöf. En um eitt atriði munu flestir vera sammála, og það er, að sú skifting, sem gerð var á skólanum fyrir aldarfjórðungi síðan, hafi verið óheppileg. Nú er mentaskólinn tvent í einu: gagnfræðaskóli fyrir Reykjavík og fræðslustofnun fyrir þá nemendur, sem ætla sjer að halda áfram til stúdentsprófs. Afleiðingin er m. a. sú, að gagnfræðaskólinn er ekki fyrst og fremst miðaður við almennafræðslu, eins og alþýðuskóli þarf að vera, heldur miklu fremur stefnt að því, að nemendur þeirrar deildar sjeu, að prófi loknu, hæfir til inntöku í lærdómsdeildina. Af þessari ástæðu hefir gagnfræðadeildin mist þann tilgang, sem henni var ætlaður upphaflega. Og gallar skólans hafa komið enn skýrar í ljós en ella, vegna sívaxandi og óhóflegrar aðsóknar.

Það er á hinn bóginn auðsætt, að nú, þegar kröfur og þörf til almennrar fræðslu fara stöðugt vaxandi, er það alveg óviðunandi, að Reykjavík eigi engan alþýðuskóla. Þetta er mönnum að verða ljóst. Á Alþingi hefir tvisvar sinnum komið fram frv. um að steypa saman nokkrum skólum hjer í bænum og stofna í sambandi við þá sjerstakan gagnfræðaskóla. Þetta frv. náði eigi fram að ganga, einkum vegna þess, að með því hefði alþýðufræðslan í Rvík verið tekin út úr skólakerfi landsins og orðið þyngri baggi á ríkinu en sanngjarnt er, með tilliti til annara hjeraða landsins. En eigi að síður verður að bæta úr fræðsluþörf reykvíkskrar alþýðu, svo að viðunandi sje.

Í frv. er gert ráð fyrir 8 bekkjum í mentaskólanum hjer. Með því móti myndi skólinn komast fyrir í sínu eigin húsi, enda verður svo að vera. En þá vantar alþýðufræðslu fyrir Rvík. Því er lagt til, að ungmennafræðslu þeirri sem hafin er fyrir atbeina síðasta þings, verði komið í fast horf og henni sköpuð hæfileg vaxtarskilyrði. Til þess á landið að leggja fram til skólabyggingar 60 þús. kr., eða alt að 2/5 kostnaðar. Þetta var rætt nokkuð á þingi í fyrra og í fjárlögum 1928 stendur fyrsta fjárveiting til slíkra skóla, og var um hana gott samkomulag. Virtust allir vera á einu máli um, að þessi hlutföll milli framlega ríkis og kaupstaða væru hæfileg, og sanngjarnt má telja, að byrjað sje að byggja yfir þann skólann, sem ekkert þak á yfir höfuðið, þ. e. skólann í Rvík.

Þá kem jeg að skólanum á Akureyri.

Um leið og skólanum í Rvík var skift í tvær 3 ára deildir, var Akureyrarskólanum komið í beint samband við lærdómsdeildina, til þess að ljetta mönnum að austan og norðan aðgang að háskólanámi. En nú eru orðnar háværar raddir um það, að skólinn verði sjerstakur mentaskóli, og hefir kensla farið fram í þá átt um nokkur missiri.

En nú eru sjálfsagt þeir menn til í landinu, sem álíta, að fyrirkomulagið geti verið eins á báðum stöðum, þriggja vetra gagnfræðadeild á Akureyri og í Reykjavík, en út í það ætla jeg ekki að fara, enda nokkuð vikið að því í frv., að þessi kensla er ekki miðuð við starfslífið í landinu, heldur við framhaldsnám. En þar sem á Akureyri má búast við, að ekki sje nema lítill hluti af ungum mönnum, sem þar vaxa upp, er óska eftir framhaldsnámi, þá verður skólinn óhagkvæmur fyrir alþýðu manna, og því er með rjettu óánægja með það, að miða alþýðumentun margra manna á Akureyri við framhaldsnám fárra úr hópnum. Þess vegna er lagt til hjer, að bæði á Akureyri og í Reykjavík sje breytt því, sem hingað til hefir verið kallað gagnfræðanám, gert ljettara, og einungis miðað við kröfur starfslífsins í landinu, og að alþýðuskólar í. Reykjavík og á Akureyri verði á engan hátt frábrugðnir öðrum samskonar skólum í kaupstöðum og sveitum landsins.

Þá vil jeg víkja að því, í þessu sambandi, að fyrir hv. Nd. liggur nú frv. um skipulag fjögurra alþýðuskóla í sveitum landsins, en auk þess er Eiðaskólinn eiginlega hliðstæður þeim. Það er allítarlegt frv., og þar sem þessu máli hefir verið vel tekið af öllum flokkum í Nd., má búast við, að það nái samþykki Alþingis. En jafnframt hafa komið fram tvö frv. í Nd. um alþýðuskóla í kaupstöðum, eða eiginlega eru þar fram komin tvö frv. vegna Ísafjarðarkaupstaðar, og eitt vegna Vestmannaeyja, og það er áreiðanlegt, að það verður ekki komist hjá að afgreiða þessi mál á næstu þingum, enda ástæðulaust annað en að sinna þessum kröfum. Bendir og alt til þess, að jafnvel á næsta þingi verði að gera heildarlög fyrir fjóra skóla á landinu, Vestmannaeyjar, Reykjavík, Ísafjörð og, ef þetta frv. nær fram að ganga, Akureyri. Svo er undirbúningur um það, að ef til vill komi á Austfjörðum, á Seyðisfirði eða Norðfirði, unglingaskóli með svona fyrirkomulagi.

Breytingin, sem þetta frv. gerir, er sú, að um leið og losuð eru böndin á milli hinnar núverandi gagnfræðakenslu á Akureyri og í Reykjavík, við mentadeildina, þá er um leið reynt að ráða bót á tveim göllum, sem gamla fyrirkomulaginu fylgja. Í fyrsta lagi er það, að gagnfræðaskólarnir eru óþarflega þungir sem alþýðuskólar, og á hinn bóginn það, sem menn alment álíta, að þar sem slíkir undirbúningsskólar með burtfararprófi sínu veita aðgang að mentaskólanum, að halda muni áfram sú regla, sem þegar hefir brytt á hjer og á Akureyri, að þeim, sem komið hafa í skólann til þess að fá almenna fræðslu, finnist það vansi fyrir sig, að halda ekki áfram, úr því að þeir fá rjettindin. En af þessari skoðun leiðir það, að margir halda áfram námi, sem ekki langar virkilega til þess, eða ekki finna hjá sjer sjerstaka köllun til þess, en af þessu getur skapast hjer skólagenginn lýður, sem atvikin hafa kastað inn á þessa braut, en ekki eigin þörf þessara ungu manna eða ungu kvenna.

Ennfremur má geta þess, að það fyrirkomulag, sem verið hefir til þessa, hefir eiginlega gefið Reykjavík óhæfilega mikinn aðgang að háskóla- og mentaskólanámi. Jeg þarf ekki að fara mikið út í það hjer, en það leiðir nokkuð af sjálfu sjer, að þegar 12–13 ára börn ganga inn í gagnfræðadeildina og eru svo, ef þau reynast sæmilegum námsgáfum gædd, látin halda áfram, þá er það auðsætt, að Reykjavík hefir fengið eins konar landfræðilegt „monopol“ á háskólagöngu.

Af þessu er auðsætt, að það verður að reyna að leysa spurninguna um ungmennafræðsluna í einu fyrir sveitirnar og kaupstaðina, og hjer er það gert á þann hátt, að tveir mentaskólar skulu vera á landinu, og að skólinn í Reykjavík skuli geta tekið við helmingi fleiri nemendum en skólinn á Akureyri, tvískiftir bekkir í Reykjavík, en í einu lagi á Akureyri. Enn fremur er svo til ætlast, að alþýðuskólamálunmn sje þannig fyrir komið, að kensla í þeim skólum sje eingöngu miðuð við daglegar þarfir manna, en á hinn bóginn svo hæg inntökuskilyrði í mentadeildina á Akureyri og í Reykjavík, að gáfuðum efnismönnum, sem langar að fara þá leið, sje hægt að keppa með inntökuprófi upp í lærdómsdeild á öðrum hvorum staðnum.

Það, sem jeg get aðallega búist við að valdi óánægju, er það, að íbúum Reykjavíkur finnist, að hjer sje að nokkru leyti breytt þeim einkarjettindum, sem Reykjavík hefir hingað til haft á inngöngu í skólann hjer. En hún hefir samt sem áður sína sjerstöku aðstöðu, en það er ætlast til þess, að Reykjavík standi alveg eins að vígi sem aðrir kaupstaðir í landinu, en ekki betur, að rjettlæti sje látið gilda, en ranglætið ekki haldast, eins og verið hefir.

Í þessu frv. er tekið fram allnákvæmlega um inntökuskilyrði í 1. bekk lærdómsdeildarinnar. Það er nauðsynlegt allra hluta vegna, en sjerstaklega vegna þess, að menn eiga að geta komist þarna inn með samkepnisprófi, eða búið sig undir það heima. Það má því ekki vera neinn vafi á því, hversu þungt það sje, og það er aðallega haft með almennum mentunarskilyrðum, til þess að gáfumenn landsins geti þreytt þessa inntökuraun án þess að leggja út í nokkurt eiginlegt sjernám.

Ef svo fer, sem jeg vona, að komist á einir fimm samstæðir skólar í sveitum landsins, þ. e. a. s. að Núpi, Laugum, Hvítárbakka, Laugarvatni og Eiðum, og ef til vill aðrir fimm skólar í kaupstöðum, með svipuðu fyrirkomulagi, aðeins breytt dálítið til eftir staðbáttum, þá hygg jeg að reynslan yrði sú, að það yrði tiltölulega auðvelt fyrir úrvalsfólkið úr þessum skólum að standast próf inn í mentaskólana. Húsrúm skólanna og þörf þjóðarinnar myndi takmarka tölu stúdentanna, en gáfnapróf inngöngu í mentaskólana.

Þetta eru aðalatriðin viðvíkjandi prófunum, en þá er ein nýjung í þessu, sem jeg vil drepa á að þessu sinni. Það er það, að á meðan ríkið ekki álítur sjer skylt að halda uppi mentaskólakenslu nema með þrem hliðstæðum bekkjum, tveimur í Reykjavík og einum á Akureyri, þá getur verið, að eitthvað af fólki hafi ekki komist að, sem vildi þó halda áfram. Fyrir það er tvent til. Fyrst að lúka gagnfræðaprófi utan skóla, og svo, ef það fær ekki að komast að, þá að lúka stúdentsprófi utan skóla. En þetta fólk hefir hingað til orðið að vinna án árlegrar hjálpar frá skólanum, án þess að láta mæla hina árlegu vinnu sína. En þetta er ranglátt. Það er engin ástæða til annars, en að þessir skólar hjálpi fólkinu með því að lofa því að ganga undir próf, lofi því að reyna, hvort það fær staðist hina árlegu þekkingarraun, og því er rjettara, að þetta fólk geti lokið stúdentsprófi, en aðeins á þann hátt, að það beri allan kostnað af því, að fráteknum prófkostnaði, sem landið annast um. Jeg hygg, að þessi rjettarbót yrði til mikils gagns, af því að hún hjálpar sjálfsvinnuviðleitni og sjálfsbjargarstarfsemi manna.

Þá vil jeg minnast nokkuð á kostnaðarhlið málsins. Á þskj. 207, bls. 40, er yfirlit um, hvað ríkið kostar hina ýmsu skóla álandinu. Því er skift í tvent, ríkisskóla og þá, sem reknir eru af einstökum hjeruðum, en sem ríkið styrkir. Það kemur þá í ljós, að í Reykjavík er kostnaðurinn 8–9 þús. kr. á bekk, en í sumum minni skólum, t. d. Stýrimannaskólanum og Bændaskólanum á Hólum, sem þurfa að hafa töluvert marga sjerfræðinga til kenslunnar, en hafa ekki mikla aðsókn, getur kostnaðurinn farið upp í 11–12 þús. kr., og í einstökum tilfellum upp í 13 þús. kr. í öðrum tilfellum er þetta talsvert minna. Í þeim skólum, sem reknir eru af einstökum mönnum og hjeruðum. t. d. Laugaskólinn og Hvítárbakkaskólinn, er styrkurinn 4–5 þús. kr. á bekk. Það er þannig alt að því helmingi lægri kostnaður fyrir ríkið heldur en við þessa föstu ríkisskóla. Frv. um hjeraðsskólana er bygt á því, að kostnaðurinn við hvern bekk, með 20–25 manns, þurfi ekki að fara yfir 5 þús. kr. En hins vegar er með því fyrirkomulagi, sem hjer er gert ráð fyrir að verði ætlast til að kaupstaðirnir beri nokkuð af byrðunum við sína skóla, en jafnframt er ætlast til, að skólagjöldin falli niður þar, en verði aftur á móti haldið í sveitunum, vegna þess að þá skóla sækja menn oft langt að, en ekki aðeins þar úr grend, en þetta munar mjög miklu fyrir landið. Lítum t. d. á Mentaskólann, sem er fyrir alt landið, en þó þarf að eyða fram undir 50 þús. kr. á ári í sex bekki gagnfræðadeilda. En hjer er ætlast til að kostnaðurinn verði ekki nema 1600 kr. á bekk, en að bærinn leggi fram 2100 kr. Náttúrlega getur svo farið, að rannsókn þessarar hv. deildar og Alþingis í heild sinni sýni, að þetta sje of mikil sparsemi, og að ekki sje hægt að komast svo mikið niður, en með þeirri reynslu, sem fengin er sumstaðar á landinu, hygg jeg, að þokast megi nokkuð í sömu átt. Í þessu sambandi vil jeg benda á, að á Ísafirði er ungmennaskóli með 50 nemendum, en kostnaður á bekk ekki nema tvö þús. kr. Náttúrlega er þetta of lítið. Ísfirðingar kvarta yfir því, að þeir sjeu afskiftir, enda er munurinn mikill, hvort það eru 2 þús. eða 4 þús. kr.

En eitt af því, sem jeg vil biðja hv. deild að athuga, er það, að um leið og við erum að krefjast þess af sveitum og kaupstöðum að byggja sjer unglingaskóla að miklu leyti og starfrækja þá, þá er ekkert rjettlæti í því, að Reykjavík hafi nokkra sjerstöðu um þetta, eða að bekkur, sem á Seyðisfirði t. d. kostar landið ekki nema 5 þús. kr., skuli í Reykjavík kosta það 8–9 þús. kr. Með þessu frv. er verið að reyna að leggja glöggar línur, ekki síður yfir kostnaðarhliðina en innihaldshliðina, og það er líka augljóst, að það verður að gera, því það má nærri geta, að ef hallast verður að því ráði, að láta alþýðufræðsluna í Reykjavík og ef til vill á Akureyri líka, vera eingöngu á ríkissjóðs kostnað, þá verður ómögulegt að fá sýslurnar til að taka á sig þann kostnað. Ennfremur er það, að þegar allur hugsunarháttur alþýðu krefst svo mjög skóla, og góðra skóla, eins og frv. þau, sem nú liggja fyrir þinginu sýna, þá verður þingið að kveða á um það, hvort með þeirri reglu, sem tekin verður upp um skólana í Reykjavík og á Akureyri, skuli ríkið taka að sjer að halda alla þessa skóla, með 8–9 þús. kr. kostnaði við hvern bekk. Jeg vil einnig benda hv. deild á það, í sambandi við þá skýrslu, sem jeg gat um áðan, að maður getur síst búist við því, að ríkisrekstur á skólum í sveitum verði ríkinu ódýrari, heldur jafnvel þvert á móti, t. d. eins og á Eiðum. Þar fór, árið 1927, kostnaður á bekk yfir 12000 kr. Jeg efast ekki um það, ef þingið fer inn á þá braut, að láta alþýðufræðsluna í Reykjavík vera á ríkiskostnað, þá verði ómögulegt að standa á móti kröfunni um það, að taka alla aðra alþýðuskóla á ríkið.

Jeg spara mjer af ásettu ráði ítarlegt umtal um frv., af því að jeg í athugasemdunum hefi tekið fram flest það, sem ástæða hefir þótt til að segja um þetta mál, eins og það nú horfir við. Náttúrlega koma fram ýmsar skýringar frá ýmsum hv. þdm., máske þegar við þessa umr. eða síðari umr. En jeg skal aðeins óska þess, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og nefndar.