22.03.1929
Neðri deild: 29. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

41. mál, aukin landhelgisgæsla

Hannes Jónsson:

Það er ekki nema gott eitt að segja um allar þær tilraunir, sem gerðar eru til þess að vernda smábátaútveginn og smábátamiðin. En á það ber einnig að líta, að láta ekki alt fje, sem veitt er í þessum tilgangi, renna til einstakra hjeraða, en láta um leið önnur verða útundan. Jeg veit, að mörgum hv. þm. er vel kunnugt um, að á Húnaflóa eru víða góð mið fyrir smábáta, enda er sá útvegur í mikilli framför alt í kringum flóann. Nú er það og alkunnugt, að bæði á sumrin og á vertíðinni eru togararnir að veiðum bæði fyrir utan landhelgislínuna og innan, og taka fiskinn við nefið á smábátunum. Þetta verða menn að horfa upp á án þess að geta nokkuð rönd við reist.

Hjer í Faxaflóa hefir verið sjerstök gæsla undanfarið, aðallega í Garðsjónum, en á Húnaflóa hefir alls engin varsla verið að undanförnu, nema þá sjaldan sem varðskipin koma þangað. Þótt það sje nú ekki oft, munu þau þó sjaldan fara nokkra ferð svo um flóann, að þau hafi ekki eitthvað upp úr krafsinu. Og jeg vil því leggja áherslu á það, að þótt eitthvað fje verði lagt af mörkum til aukinnar gæslu hjer, þá verði það á engan hátt til þess að draga úr þeirri litlu gæslu, sem við höfum haft þar norður frá. Miklu fremur væri ástæða til að auka hana til muna. Jeg er ekki mikill sjómaður og þekki miðin lítið, en jeg hefi oft heyrt sjómenn tala um það, að smábátar hlæðu einn daginn, en fengju næsta dag ekki neitt, vegna þess að um nóttina var togari að skaka á því miði. Jeg geri ráð fyrir, að landhelgisgæslan verði aukin talsvert á næstunni, en það er nú með þetta eins og flest annað, að útgjaldaaukinn markar básinn. Og jeg vona, að ríkisstj. hlutist til um aukna gæslu við Húnaflóa, eða að minsta kosti, að þær ráðstafanir, sem gerðar kunna að verða til aukinnar gæslu á öðrum miðum landsins, verði á engan hátt til að draga úr þeirri gæslu, sem við nú höfum við Húnaflóa.