17.04.1929
Efri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

30. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Till. þessi hefir legið nokkuð lengi hjá fjhn. þessarar hv. d., því ef jeg man rjett, var hún eitt meðal fyrstu skjalanna, sem útbýtt var í d., og var henni þá þegar vísað til n. Skömmu eftir að till. þessi kom fram, kom og fram önnur till. í Nd. í þessu máli, en í frv.formi. Var henni og vísað til n. þar, en ennþá bólar ekkert á henni þaðan. Fjhn. beggja d. áttu sameiginlegan fund með sjer um launamálið. En eins og venja er til á slíkum fundum, varð engin niðurstaða tekin í málinu. Við, sem eigum sæti í fjhn. Ed., höfum verið að búast við, að hv. fjhn. Nd. afgreiddi frv. það, sem hjá henni er, en ennþá hefir ekkert frá henni heyrst og því er till. þessi tekin fyrir nú. Þetta eru í stuttu máli ástæðurnar fyrir drætti á afgreiðslu till.

Afstaða fjhn. til till. þessarar er sú, að þrír nm. eru henni alveg fylgjandi. Einn hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, en sá fimti er henni alveg mótfallinn og ber fram sjerstakt nál.

Við fyrri umr. þessa máls gerði jeg grein fyrir hvers vegna till. þessi væri fram komin. Þá hefir og með frv. því, sem lagt var fyrir Nd., verið prentuð mjög ítarleg grg. um laun og afkomu starfsmanna ríkisins, og ennfremur er þar sýnt fram á, hverjar bætur þurfi að gera á launakjörum þeirra, svo að þau geti talist viðunandi. Jeg skal fúslega játa, að till. þessi er engin framtíðarlausn þessa máls, heldur er hún aðeins bráðabirgðaráðstöfun til þess að bæta upp laun embættis- og starfsmanna ríkisins að því leyti, sem dýrtíðarbætur þær, sem þeir hafa fengið, lækkuðu við síðustu áramót úr 40% niður í 34%. En slík lækkun á dýrtíðarbótunum var þeim mjög tilfinnanleg, eins og best má sjá á því, að búvísitala hagstofunnar lækkaði ekki nema um 1% á árinu sem leið.

Jeg hefi nú heyrt suma halda því fram, að hjer væri um svo litlar fjárhæðir að ræða, að einstaklingana munaði þær engu, en ríkissjóð, sem yrði að greiða allar upphæðirnar, munaði þetta aftur töluverðu. Þetta segir hv. minni hl. líka í nál. sínu. Jeg get alls ekki fallist á þessa röksemdafærslu, því að jeg lít þvert á móti svo á, að hina lægst launuðu starfsmenn muni þetta töluverðu. Sjeu t. d. tekin laun símamanna, sem eru frá 1600 upp í 2800 kr., auk uppbótar, er þessi mismunur á dýrtíðaruppbótinni talsvert á annað hundrað kr. En það nægir fyrir útsvari og skatti þeirra manna. Er því ekki hægt að segja, að uppbótin muni þá engu.

Hitt er kannske rjett, að það muni ekki miklu fyrir þá, sem hafa há laun, en þó telja ýmsir úr hærri launaflokknum, sem jeg hefi talað við, að sig muni þetta töluverðu, því að þeir verði að spara nauðsynleg útgjöld sem lækkun þessari svari, því að þeim finst ekkert hafa lækkað, sem þeir þurfa að kaupa, eins og líka búvísitala hagstofunnar sýnir.

Með till. þessari er, eins og jeg þegar hefi tekið fram, aðeins tjaldað til einnar nætur í þessu launamáli, þar sem óhjákvæmilegt er, að næsta þing taki það til yfirvegunar, meðal annars fyrir þá sök, að lögin um dýrtíðarbætur falla úr gildi 1930. Við þá endurskoðun get jeg fyllilega búist við, að ekki verði hjá því komist að hækka að einhverju leyti grunnlaun hinna lægra launuðu starfsmanna. En út í það skal jeg ekkert fara nú, enda liggur það ekki fyrir, því að það, sem hjer er farið fram á, er ekkert annað en það, að embættis- og starfsmenn ríkisins fái að halda sömu launum þetta ár, 1929, eins og 1928. Um hag ríkissjóðs og þar af leiðandi getu til þess að bera þessi útgjöld verður ekki annað sagt en að hvorttveggja sje hið æskilegasta. Og útlitið framundan virðist vera svo gott, að það hafi tæplega í annan tíma verið betra. Fiskafli hefir verið óvenjugóður, og tíðarfarið hefir verið betra en menn hafa átt að venjast svo norðarlega á hnettinum. Þó að þetta sje aðeins bráðabirgðaráðstöfun, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að það sje nauðsynlegt, eftir því sem á stendur nú, því að eins og kunnugt er, hefir fjöldi starfsmanna í landinu fengið að halda sömu launum þetta yfirstandandi ár eins og þeir höfðu síðastl. ár. Er því varla annað hugsanlegt en að starfsmenn ríkisins fái einnig að halda sínum launum óbreyttum eins og aðrir.

Um formshlið málsins er það að segja, að hjer er aðeins um þál. að ræða, og býst jeg við, að hún dugi, því að í fjárlögunum fyrir 1929 er gert ráð fyrir sömu launum til embættismanna og voru 1928. Er því ekki hjer um að ræða nein aukagjöld frá því, sem er í gildandi fjárlögum.

Ef frv. það, sem liggur fyrir hv. Nd. um dýrtíðaruppbót á launum embættis- og starfsmanna ríkisins, skyldi koma fram nú hjer eftir á þinginu, þá mun jeg að sjálfsögðu fylgja einhverjum ákvæðum þess, enda þótt till. þessi verði samþ.

Læt jeg svo staðar numið og tek ekki til máls aftur um þetta mál, nema þá því aðeins, að brýn ástæða sje til.