17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (3718)

144. mál, gengi gjaldeyris

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Umr. þær, er fram hafa farið, gefa lítið tilefni til andsvara. Það, sem hv. 3. landsk. gaf í skyn í öðru orðinu, að fáir íhaldsmenn mundu fylgja frv. flokksbræðra sinna um verðfestingu, það hafa tveir aðrir hv. þm. borið til baka, bæði hv. þm. Dal., er starfað hefir í fjhn. og gerir ráð fyrir, að komið sje á samkomulag, er valdi úrslitum málsins, og eins hv. 4. landsk., er virtist nokkuð öruggur um að hafa mist mest af liði sínu. En það var einkennilegt, að ekki var á honum að heyra, sem hann væri neitt sorgmæddur yfir að hafa mist stærstu sveit hækkunarliðsins yfir til óvinanna; miklu fremur var á honum að heyra fögnuð yfir því að vera nú orðinn einn af örfáum „rjettlátum“. Jeg hefi áður veitt því eftirtekt, að það er eins og hækkunarmenn verði fegnir því að missa fylgismenn sína. Það bendir til, að hækkunarmenn meini í raun og veru ekki mikið með stefnu sinni, heldur gleðjist frekar yfir þeim pólitísku möguleikum, er fráhvarf annara kynni að rjetta þeim upp í hendurnar.

Hv. 3. landsk. sagði, að það horfi ekki byrlega fyrir stefnu okkar, eftir þeirri yfirlýsingu minni, að þau tvö frv., sem fram eru komin, mundu falla. Það getur horft byrlega fyrir málinu fyrir því. Þau mundu falla á atkv. stuðningsmanna hvors annars. En meginatriðið, það atriðið, er barist hefir verið fyrir alla tíð, er fólgið í báðum frv. Það er augljóst, að ekki er beðið eftir öðru en samkomulagi um form. Aðaldeilan er útkljáð. Samkomulag er fengið um verðfestinguna. Jeg get vel trúað því, að Íhaldsflokkurinn sem slíkur hafi ekki tekið ákveðna afstöðu til málsins, „frekar en um önnur þingmál, eins og formaður flokksins komst að orði, eins og til að draga úr því, að flokkurinn væri því sjerlega mótfallinn. Enda endaði flokksforinginn ræðu sína á því, að hann ljeti sjer í ljettu rúmi liggja afdrif till. okkar. Hann viðurkendi, að breyt. væri orðin á hugum margra hv. þm., er hækkun hafa fylgt, hvað sem honum sjálfum líður. Þessu hafa allir þeir samsint, sem til máls hafa tekið. Það er vitanlegur hlutur, að meiri samhugur ríkir í þessu máli með aðalflokkum þingsins en verið hefir. Og hitt, að hv. 3. landsk. lætur sjer í ljettu rúmi liggja afdrif till. um óbreytt gengi, bendir til þess, að brattasti hjallinn sje nú klifinn og að festingarmenn þurfi ekki að gera sjer miklar áhyggjur út af framtíðinni. Þau atriði, sem samkomulag hefir ekki enn náðst um, eru hjegómi í samanburði við hið mikla deiluefni gengismálsins, hvort lántakandi á að greiða 22% meira en hann tekur að láni, eða ríkisvaldið ætlar að halda skuld hans verðfastri. Það er þetta mikla atriði gengismálsins, hvort greiða skuli álnir með metrum, litla krónu með stórri krónu, sem nú er orðið samkomulag um. Jeg get því eftir atvikum lýst ánægju minni yfir gangi málsins á þessu þingi, því vonirnar voru ekki miklar í þingbyrjun um heppilega lausn. En þótt hvorugt þeirra frv., er fram eru komin, geti orðið að lögum á þessu þingi, þá er samt rjett, að þingviljinn komi fram í ályktunarformi. Og að þingviljinn er í samræmi við þessa till., sjest best af því, að engar till. hafa komið fram í gagnstæða átt. Ef sterkur straumur hefði verið í þinginu á móti festingu, þá hefði ekki hjá því farið, að hækkunaráhuginn hefði lýst sjer í till. til þál. um hækkun krónunnar. Nú hafa slíkar raddir ekki látið til sín heyra, og er það sönnun fyrir því, að nú sje farið að líða að síðasta þætti þessa máls, þeim, að andstöðuflokkar taki höndum saman um verðfesting gengisins. Yfir því fagna jeg.