21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í C-deild Alþingistíðinda. (3915)

31. mál, sjómannalög

Ólafur Thors:

Eins og hæstv. forsrh. gat um, hefir hann skipað þá forseta Fiskifjelags íslands og formann Sjómannafjelagsins til að undirbúa þetta mál. Jeg hygg, að það hafi nú verið öllum ljóst þegar í stað, er þeir heyrðu um skipun þessa, að það hafi ekki verið á færi þessara manna, að gera þetta mál svo úr garði, að sæmilega færi, enda hefir raunin orðið sú, að þeir gáfust upp við málið, og fengu til þess hæfan mann, Ólaf prófessor Lárusson.

Jeg geri ráð fyrir að undirbúningur þessa máls hafi kostað ríkissjóð talsvert fje, og er ástæða til að finna að því, að þessu fje hefir verið á glæ kastað. Það liggur í augum uppi, að ekki muni vera á annara færi en hinna gleggstu lagamanna að fjalla um slíka flókna lagabálka. Í öðrum löndum hefir það verið svo, að nefnd hinna færustu manna hefir verið skipuð til að fjalla um siglingalögin.

Jeg læt þessar aðfinslur nægja að sinni, en vil svo hinsvegar geta þess, að jeg tel, að það komi ekki til nokkurra mála, að þetta Alþingi geti leitt slíkt stórmál til lykta, einkum þar sem bæði þetta frv. og hið næsta á dagskránni eru lögð svo seint fyrir þingið, og jeg hefði í sjálfu sjer talið eðlilegt, til þess að tefja ekki störf þingsins, að hæstv. atvmrh. hefði látið það nægja að sjá um, að þm. fengi í þinglokin frv. þetta til athugunar fyrir næsta þing. Með því hefðu þeir getað athugað málið í ró og næði milli þinga og leitað upplýsinga fróðra manna um það. Tel jeg að störf þingsins sjeu eingöngu tafin með því, að þetta frv. er nú lagt fram, þar sem vitanlegt er, að ekki vinst tími til að afgreiða það.