06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

106. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Lárus Helgason):

Jeg þarf ekki að lengja mikið umr. Þessi brtt. hv. þm. Borgf. er alveg óþörf og ekki rjettmæt. Landbn. kom fram með þessa breyt. af því að hún taldi auðsæja nauðsyn á henni. Kynbætur hrossa geta því aðeins verið í góðu lagi, að óvaldir hestar fái ekki að ganga lausum hala á þeim tíma, sem þeir geta gert skaða. Landbn. vildi því færa tímatakmarkið fram frá því, sem 1. ákveða nú, og sjer hún ekki, að það geti valdið neinum erfiðleikum, að svo sje gert. Mjer virtust því ástæður hv. þm. Borgf. harla ljettvægar. Tíminn frá 20. apríl til 14. maí er á engan hátt heppilegri til vönunar á tvævetrum folum en tíminn fyrir 20. apríl, nema síður sje. Þá er venjulega gróðurlaust. Sýnist því sjálfsagt að vera búið að þessu áður, eða fyrir 20. apríl, og koma þannig í veg fyrir þann skaða og óþægindi, sem þessir folar geta gert.

Önnur ástæða, sem færð hefir verið gegn þessu frv., er sú, að folarnir væru ekki orðnir kynþroska 20. apríl. Sú ástæða er ekki á neinum rökum bygð, því ef folarnir eru ekki orðnir kynþroska 20. apríl, þá verða þeir ekki heldur orðnir það 14. maí í flestum tilfellum, og ekki fyr en seinna að vorinu. Mjer virðist því báðar þessar ástæður vera einskisverðar. Vænti jeg því þess, að hv. deild samþ. frv. óbreytt.