12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vildi fyrst segja nokkur orð í spaugi til hv. frsm. minni hl. Hann gat þess, að stjórnin hefði verið eftirlát jafnaðarmönnum, og haldið í lýðræðisáttina eða öfugt, eftir því hvað þeir óskuðu. Já, hv. þm. getur að vísu skoðað þetta svo, en að mínu áliti lægi eins beint við að segja, að jafnaðarmenn væru eftirlátir stjórninni og vildu þóknast henni í hvívetna, og meðal annars styðja þetta frv. Annars hefi jeg enga sjerstaka aðstöðu til að rannsaka hjörtu og nýru þessara hv. þm. fremur en annara þm.

Út af orðum hv. frsm. minni hl. um, að frv. þetta sje fram komið samkvæmt ósk jafnaðarmanna og að þeirra undirlagi, þá skal jeg taka það fram, að ef þetta væri rjett, þá væri einmitt rýmkun kosningarrjettarins úr 25 árum niður í 21 ár stóra atriðið frá sjónarmiði jafnaðarmanna. En þetta vill hv. þm. ekki kannast við, heldur heldur hann því fram, að stóra atriðið sje stytting kjörtímabilsins, því að jafnaðarmenn vilji altaf vera að kjósa. (MG: Jeg sagði að breyta). Kemur út á eitt. Þetta er furðulegur misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., því frv. miðar einmitt í gagnstæða átt. Samkvæmt elstu kosningalögunum átti að kjósa annaðhvert ár, samkvæmt núgildandi lögum þriðja hvert ár, en eftir þessu frv. á að kjósa fjórða hvert ár. Þetta atriði er rökrjett afleiðing af því, að kjósa á alla í einu.

Það, sem sterkast mælir með þessu frv., er það, að eftir því verða kosningar rjettlátari en þær hafa verið hingað til, Hlutfallskosningar tryggja smærri flokkunum meiri rjett. Eftir gildandi lögum eru þeir mjög órjetti beittir. T. d. er einn flokkur í Reykjavík, sem bauð fram lista við síðustu bæjarstjórnarkosningar, en kom engum manni að einungis vegna skipulagsins. Átti flokkurinn þó tvímælalaust rjett á að eiga fulltrúa í bæjarstjórn eftir atkvæðamagninu að dæma. Hið sama á sjer stað á Siglufirði, með Framsóknarflokkinn bar. Þetta frv. er því fram komið til þess að litlu flokkarnir í bæjunum geti notið sín.

Ummæli hv. þm. um Torfa í Ólafsdal og Jón Sigurðsson voru útúrsnúningur einn, og mjög færð á verra veg. Þessi hv. þm. sagði áðan, að þeir menn, sem ekki gætu talist efnalega sjálfstæðir, ættu heldur ekki að hafa stjórn og forræði bæjar- og sveitarfjelaga með höndum. Það var í þessu sambandi, að jeg gat þessara manna.

Þá mintist þessi hv. þm. á það, að þótt borgarstjóri væri kosinn af bæjarstjórn, gæti hann þó komist í andstöðu við meiri hluta bæjarstjórnar í einstöku atriðum. Þetta er engin ný upplýsing; slíkt á sjer meira að segja stað á Alþingi oft og einatt, og í því efni mun þessi hv. þm. hafa eigin reynslu frá ráðherratíð hans, og gæti jeg bent honum á ekki allfá dæmi þessu til sönnunar. Hinsvegar er ekkert til fyrirstöðu því, eins og nú er ástatt, að kosinn verði jafnaðarmannaborgarstjóri, en íhaldsbæjarstjórn, og sjá allir, hvílíkur háski gæti af slíku stafað. Frumvarpið miðar einungis að því, að skapa meiri festu og samræmi í stjórn bæjar- og sveitarfjelaga. Það miðar að því, að þingræðið komi betur í ljós og til þess að meiri hlutinn fái notið sín. — Hvað kærufrestinum viðvíkur, þá er þar einungis um smávægilegt atriði að ræða. En hv. þm. svaraði þar sjálfur fyrir mína hönd, þegar hann benti á úrskurðinn, sem gefinn var út af Akureyrarkosningunni á yfirstandandi vetri. Hv. þm. má skilja það, að jeg álít úrskurðinn rjettan, og þess vegna að setja beri þetta ákvæði inn í lögin. Af þessu leiðir, að kærufresturinn verður að vera eins stuttur og mögulegt er.

Loks langar mig til að svara hv. þm. Dal. nokkrum orðum. Hann virtist vera mjer sammála í öllum atriðum, nema því um kosningu borgarstjóra. Vildi hann leggja sjerstaka áherslu á, að Alþingi gengi ekki á undan í því, að rofnir væru samningar, og er nokkuð rjett í því. En jeg vil benda hv. þm. á bað að þó lofsvert sje að halda fiármálasamninga við 4–5 menn. eins og hjer ræðir um, þá er hitt þó óneitanlega miklu meira um vert, að styðja að því, að haldnir sjeu allir fjármálasamningar á þessu landi, með því að festa verðgildi peninganna. Þetta kemur að vísu ekki beint þessu máli við, en jeg vil nota tækifærið til að minna þennan hv. þm. og aðra á þetta, þeim til frekari íhugunar.