18.03.1929
Neðri deild: 25. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 122, við 3. gr. 1. nr. 43, 15. júní 1926. í stað orðanna: „Þeim er setið hafa .... síðast sæti“ komi: „Þeim, er setið hafa í bæjarstjórn eða hreppsnefnd, er þó óskylt að taka við kjöri, fyr en jafnlangur tími er liðinn síðan hann átti þar síðast sæti“. Í lögunum er talað um 4 og 6 ár, en jeg vil orða það svo, þar eð með því lagi, sem nú er, getur auðveldlega komið fyrir, að sami maður þurfi að gegna þessum störfum í 11 ár, en það verður að álítast óhæfilega langur tími, og svo er það ósanngjarnt, þar eð þessi störf eru mjög vanþökkuð. Þetta getur ekki komið fyrir, nema maður sje kosinn sem varamaður í stað annars, sem hefir búinn að sitja 1 ár í nefndinni. Væri hann þá búinn að vera 5 ár, þegar næst yrði kosið. Ef hann svo væri aftur kosinn til 6 ára, yrði hann í einu 11 ár í sömu nefnd. Jeg hygg, að sú hafi verið meining löggjafans, að menn væru ekki skyldir til að taka við kjöri í þessar nefndir, fyr en jafnlangur tími er liðinn og hann var búinn að vera í nefndinni samfleytt, og jeg hygg, að orðalag þessarar brtt. sje þannig, að komið sje í veg fyrir, að menn þurfi að taka við kosningu, nema jafnlangur tími sje liðinn frá því, er hann átti þar síðast sæti. Jeg veit það, að hv. dm. eru kunnugir þessu máli og skilja því, hvað fyrir mjer vakir, og jeg vænti þess, að enginn mæli á móti þessu, sem vill styðja rjett mál.