30.04.1929
Efri deild: 57. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Guðmundur Ólafsson:

Þessar umr. eru orðnar svo fjörugar, að jeg leiðist út í það að leggja orð í belg, og er þó vanur að geta setið á mjer og vera um kyrt í mínum stóli.

Jeg er alveg forviða á því hve menn geta verið brjóstgóðir og kærleiksríkir, þegar þeir eru að lýsa yfir því, að þeir vilji ekki láta neinn missa kosningarrjett sinn vegna leti, óreglu eða hirðuleysi. Jeg hefi aldrei verið svona góður maður. (PH: Hæstv. forseti á vafalaust eftir að verða það). Já, það getur verið. En mjer ofbýður það, þegar hv. þm. eru að lýsa yfir því með sterkum orðum, að þeir vilji setja þessa menn á bekk með hinum, sem duglegir og reglusamir eru. Og svo er verið að deila um það, hvort konur þessara manna eigi að missa rjettindi sín með þeim. Það er svo sem gengið út frá því sem gefnu, að þeir sjeu kvæntir, þessir menn, enda er það ekki ólíklegt, eftir lýsingunni á þeim að dæma. Hv. 3. landsk. þm. heldur því fram, að þessi rjettindamissir nái ekki til kvenna þessara manna, en jeg held þvert á móti, að þær lendi í sömu fordæmingunni. Ef maður þiggur af sveit fyrir fjölskyldu sína, er ekki óeðlilegt, að þær konur, sem hafa verið svo óhepnar að eiga þessa menn, lendi í sama vítinu sem þeir. Þó er jeg því alls ekki mótfallinn, að konurnar missi ekki kosingarrjett sinn af þessum ástæðum, en sje mjer hinsvegar ekki fært að greiða atkv. á móti þessari brtt. hv. 3. Landsk. þm.

Þá verð jeg að minnast nokkrum orðum á brtt. hv. 2. þm. N.-M. Þar kalla jeg nú, að eigi að ganga vel frá hlutunum. Jeg hjelt nú, að ekki mundi það, að gera ráð fyrir að varamaður sýslunefndarmanns, sem og hann sjálfur, fjellu frá báðir á sama árinu af þessum 6 árum, sem kosning þeirra gildir um. En hv. 2. þm. N.-M. hefir ef til vill rekið sig á, að þetta gæti komið fyrir. Þau tilfelli munu þó ekki vanaleg. En ef hv. þdm. þykir nauðsyn til bera að samþ. þetta, kann jeg því illa, að hreppsnefnd skuli eiga að stjórna kosningum þessum til bráðabirgða. Ef svo skyldi til bera, að bæði sýslunefndarmaður og varamaður hans fjellu frá eða flyttu úr hreppnum, vil jeg láta kjósa í þeirra stað á venjulegan hátt fyrir þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu. Jeg hefi því leyft mjer að bera fram skriflega brtt. við þessar brtt. hv. 2. þm. N.-M., og vænti jeg þess, að hv. þdm. geti fallist á hana, ef þeir á annað borð telja nauðsynlegt að gera ráð fyrir slíkum tilfellum í þessum lögum. Till. mín gengur út á það, að 2. málsgr. 33. gr. hljóði svo:

„Nú fara sýslunefndarmaður og varasýslunefndarmaður báðir úr n. áður en kjörtímabil þeirra er liðið, og skal þá þegar kjósa í þeirra stað fyrir þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu“.

Mjer finst, að allir ættu að geta fallist á þetta. Jeg vil ekki láta taka það fram, að bæði sýslunefndarmaður og varamaður hans þurfi endilega að fara frá báðir á sama árinu, því að hæglega geta liðið 1–2 ári á milli, að þeir fara frá, ef báðir fara. En þegar þeir eru báðir farnir frá, þá á að sjálfsögðu að kjósa í stað þeirra.

3. og 4. málsgr. 33. gr. vil jeg hafa svo:

„Til kjörfundar skal boða skriflega með að minsta kosti 8 daga fyrirvara“.