15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hv. þm. Barð. vil jeg segja örfá orð. Jeg sje ekki ástæðu til að tala mikið við hann um Tervani-málið, því fremur sem ýmsir af kjósendum hans eyddu því máli fyrir honum á þingmálafundum í hjeraðinu og fundu ekki ástæðu til að deila um það. Og þessir menn búa við einn af þeim fjörðum hjer við land, sem eiga mest í húfi í strandvarnarmálunum. En þrátt fyrir það hafa þeir tekið gætilega og skynsamlega á þessu máli, eins og aðrir góðir borgarar og almenningur yfirleitt, eftir að farið var að ræða málið í hófi og athuga það. Jeg hefi ástæðu til að þakka vini mínum, hv. þm. Barð., fyrir þær upplýsingar um, varðbátinn „Trausta“, sem hann gaf, og samband hans áður við einn hv. þm. íhaldsflokksins, sem jeg hefi ekki ástæðu til að rengja. (HK: Jeg tók það eftir hæstv. ráðh.). Jeg held, að hv. þd. hafi skilið þm. eins og jeg, að viss maður, sem að vísu var ekki búsettur þar í kjördæminu, hafi átt mikil sambönd og kunnugleik við bátinn. En vilji hv. þm. skýra þessar upplýsingar sínar á annan hátt, þá skal jeg taka því.

Að því er kemur til þess máls, sem hv. þm. Barð. gerði að aðalumtalsefni í ræðu sinni, þá virðist kenning hans sú, að ekki hafi mátt blanda öðru fje inn í gjafasjóð frú Herdísar Benediktsen en hinu upprunalega, og að ekki megi snerta þann sjóð fyrri en hann einn er þess megnugur að bera uppi kvennaskóla á Vesturlandi. Í þessu máli hefir nú gerst sá atburður, sem hv. þm. vill ekki viðurkenna gildan, en sem jeg álít fullkomlega bindandi bæði fyrir þing og stj., og einkum fyrir íhaldsmenn. Hv. þm. mun líta svo á, að stj. eigi að ógilda þann samning, sem gerður var á milli Jóns heit. Magnússonar og Magnúsar Friðrikssonar á Staðarfelli. Með því eina móti að ónýta þennan samning er hægt að fallast á kenningu hv. þm. Ef aftur á móti er gengið inn á það, að Jón Magnússon hafi haft rjett til þess að taka á móti gjafafje í sjóðinn, og ef játað er, að Alþingi 1921 hafi gegn ákvörðun um árlegan lífeyri til hjónanna á Staðarfelli haft rjett til að taka við gjöf þeirra, þá er ekki hægt að breyta því nú á þann hátt, sem hv. þm. vill. Það er fullkominn samningur á milli ríkisins og hins nýja gefanda, sem er bindandi fyrir alla framtíð. Eina vafaatriði þessa máls er það, hvenær skóli eigi að taka til starfa á Vesturlandi, sem nýtur styrks úr sjóðnum. Í nýja samningnum er ákveðið, hvar hann á að vera, en um þetta getur verið meiningamunur. Jeg vil ekki þreyta hv. d. á því að fara ítarlega út í þetta mál nú, en aðeins benda hv. þm. Barð. á þær umr., sem fram fóru á Alþingi, þegar tekið var við Staðarfellsgjöfinni 1921, Þá þoldi hv. þm. sinni stj. mótmælalítið að gera þennan samning og brá ekki stuðningi sínum og fylgi við Jón Magnússon, meðan honum entist líf til stjórnarstarfa. Það rýrir möguleikana fyrir hv. þm. að mótmæla nú. Hann átti að koma fram með þau 1921. Jeg ætla ekki að fara út í það efni, hvort jeg álít, að rjett hafi verið af stj. og þingi að taka við gjöfinni og bæta henni við gjöf Herdísarsjóðsins, en jeg er nú sem stendur arftaki Jóns Magnússonar í stj. bundinn við gjöfina og þann samning, sem hann hefir gert. Vil jeg svo, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr gjafabrjefinu 1. lið, sem áskilinn er af gefanda: „Að á Staðarfelli verði reistur á sínum tíma hinn fyrirhugaði skóli frú Herdísar sálugu Benediktsen“.

Þetta er fyrsta skilyrði fyrir gjöfinni, sem stj. og þing hefir veitt móttöku, um leið og gengið var að öðru skilyrði um árlegan lífeyri úr ríkissjóði til hjónanna á Staðarfelli. Ennfremur er svo að orði kveðið í samningnum:

„Þar sem ríkisstjórn og Alþingi hafa lofað, að það skuli gert verða, er jeg hefi áskilið, þá lýsi jeg hið íslenska ríki löglegan eiganda hinnar ofangreindu eignar frá næstu fardögum að telja, með þeim rjettindum, er jeg hefi eignina átt“.

Þar sem þetta brjef er eigi aðeins ómótmælt af fyrv. stj., sem við því tók, heldur og viðurkent, þá er enginn vafi á því, að aðalkenning hv. þm. Barð. er alveg röng. Jeg segi ekkert um, hvort rjett hafi verið af J. M. að þiggja gjöfina með þessum skilyrðum; en samninginn má ekki brjóta.

Annað atriði í ræðu hv. þm. Barð. var spurningin um það, hvort kominn sje tími til þess, að Herdísar-sjóðurinn geti starfað á þann sjálfstæða hátt, sem frumgjafabrjefið getur um, og með þeirri viðbót, sem hann hefir fengið, góðri jörð, sem metin hefir verið á 70 þús. kr. Eign sjóðsins er nú alls c. 200 þús. kr. virði. Það er að vísu altaf hægt að segja, að sjóðurinn sje ekki orðinn nógu stór til að taka til starfa, og það má líka segja, að hann sje nógu stór til þess. Það fer alt eftir því, hvaða kröfur eru gerðar. Í gjafabrjefinu er ekkert, sem getur hindrað stj. í að ákveða, að skólinn skuli taka til starfa hvenær sem henni þóknast. Ef hv. þm. Barð. hefði verið í stj. í mínum sporum, þá hefði hann að sjálfsögðu dregið málið á langinn. En jeg álít, að sjóðurinn geti nú þegar tekið til starfa. Hann hefir til umráða stóra jörð og verðmikla. Gefandinn (Magnús Friðriksson) var búinn að reisa þar steinhús, eitt með þeim stærstu á landinu; og síðastl. ár var reist þar viðbótarbygging, báðum sjóðunum að heita má að kostnaðarlausu. Húsið rúmar 15–20 skólastúlkur, sem dvelja þar nálega alt árið, að fráteknum slættinum. Að vísu mætti segja, að skólinn ætti að vera fyrir 20–30 stúlkur, en um það er ekkert sagt í gjafabrjefinu, og kenslukonur þær, sem vit hafa á, álíta, að húsmæðraskólar í sveitum eigi ekki að vera stærri en þetta.

Eins og hv. þm. Barð. mun vera kunnugt, þá hefir skólinn á Staðarfelli starfað undir þröngum skilyrðum og við erfiðan fjárhag. Fyrsta árið fjekk hann 3000 kr. styrk úr ríkissjóði, og forstöðukona skólans þurfti þá að greiða landskuld af jörðinni. Er það augljóst, að þegar lagður er til skólans sá arður, sem jörðin og sjóðurinn gefa af sjer, þá verða það fyllilega helmingi meiri tekjur en skólinn fær nú til rekstrar. Skólinn hefir getið sjer gott orð og aðsókn er svo mikil, að á komandi hausti verður að vísa frá af þeim, sem sótt hafa um skólavist. Þetta sýnir, að það er ekki ótímabært að láta vilja gefendanna njóta sín hið fyrsta, og aðsóknin sýnir, að með skólanum er bætt úr brýnni þörf, sem vert er, að sjóðirnir styðji.

Önnur ástæða hans gegn því, að veita mætti skólanum styrk úr sjóðnum á þessu ári, var einskis virði. Hv. þm. taldi, að í tilskipun stj. um Herdísarsjóðinn, frá 1908, væri gert ráð fyrir, hvernig meðferð sjóðsins skyldi háttað. Þar væri svo fyrir mælt, að þegar Herdísarskólinn yrði stofnaður, skyldi leita um það álits sýslunefnda á Vesturlandi. Þetta var náttúrlega hyggilegt af stj. sjóðsins, að ákveða að leggja þetta undir úrskurð sýslunefndanna. Meðan amtsráðið var við lýði, þá var það allsherjarþing fyrir Vesturland; þar gat myndast meiri hluti og orðið samþyktar ályktanir, sem voru bindandi fyrir sýslurnar. En þegar amtsráðið var lagt niður og till. um þetta mál skotið undir sýslunefndir á Vesturlandi, sem aldrei geta haft sameiginlegan fund og vitanlega aldrei komið á samkomulagi um þetta mál, þá var útilokað, að nokkur úrlausn gæti á því fengist eftir þeirri leið. Þar, sem um minni fjarlægðir er að ræða, hefir reynst erfitt og jafnvel ómögulegt að fá aðila til þess að sameina sig um skólasetur.

Jeg vil benda hv. þm. Barð. á það, að 4 ár voru liðin frá því að amtsráðið var lagt niður og þangað til þessi tilsk. var gerð, þannig að ef reisa hefði átt Herdísarskólann á þessum tíma, var ekkert til að fara eftir og styðjast við, auk þess sem ekkert var upp úr því að hafa að spyrja sýslunefndirnar. Úr því að landsstj. 1908 gat gefið út tilsk. um, hvernig þessu skyldi haga, getur hver stj. sem er breytt þessu, eftir því sem hún vill, og til að gleðja hv. þm. Barð. vil jeg segja honum það, að komið getur til mála að breyta tilsk. nú bráðlega. Jeg vona, að hv. þm. Barð. sjái, að það er staðreynd, að Alþingi og stj. hafa tekið við gjöf Magnúsar Friðrikssonar með þessum skilmálum, er jeg nú lýsti.

Þessi skýring verður að duga frá minni hálfu, sjerstaklega þar sem þetta var gert á þingi, sem hv. þm. Barð. átti sæti á, og þar sem það var flokksforingi hans, sem samningana gerði. Það kemur sem sje í ljós, að hv. þm. Barð. á aðgang að sínum eigin dána foringja og samherjum á þingi 1921 um þetta mál.

Hv. þm. Skagf. hafa báðir farið mörgum orðum um sláturhúsmálið í Skagafirði og vikið ýmsu að mjer í því sambandi. Til þess að gera þetta mál einfalt fyrir þá, sem lítið eru því kunnugir, vil jeg skýra frá, hvernig það er vaxið. Fyrir forgöngu Jóns Árnasonar og hæstv. forsrh. gekk Alþingi inn á að styðja að því, að reist yrðu kælihús á vissum höfnum úti um land, og sem áframhald af því máli lagði ríkið í kæliskip Eimskipafjelagsins. Það er að flytja kol til Newcastle, þegar þeir, sem ekkert hafa gert í þessum málum og enga þekkingu hafa á þeim, eins og þessir tveir hv. þm., ætla sjer að fara að kenna Jóni Árnasyni og hæstv. forsrh., hvernig eigi að leysa þessi mál. Það er broslegt, þegar eftirsnakkararnir ætla sjer að fara að kenna forgöngumönnunum, en einkum er það þó broslegt, og ekki samboðið mönnum með fullu viti, að láta sjer detta í hug, að stj. leggi fram fje í tvö kælihús á sama staðnum. Annaðhvort eru hv. þm. Skagf. blindaðir af þeim ofsa og hjeraðsríg, sem ríkt hefir í þessu máli, eða þeir eru ekki með sjálfum sjer. Þetta eru þau almennu rök, munurinn á forgöngumönnunum og eftirsnökkurunum. Það er algerlega dæmalaus ráðleysa og vitleysa, að viss hluti manna í einu hjeraði skuli ætlast til að fá ríkisstyrk til þess að byggja annað kælihús í viðbót við það sem fyrir er á staðnum. Og ofan á svona grundvöll, sem er með öllu heimskulegur og þessir hv. þm. láta sjá í sem undirstöðu framkomu sinnar, bætist svo það, að maður norður í Skagafirði, sem mjer er kunnugur, á að hafa spurt mig um álit mitt á þessu og það að hafa orðið bindandi fyrir alt annan fjelagsskap en þessi maður stendur fyrir. Til þess að gera það ennþá ljósara, hvílík vitleysa þetta er, ætla jeg að segja nánar frá, hvernig þessi íhaldsgrautur er tilbúinn. Í Skagafirði er stórt kaupfjelag, sem altaf er að vaxa, en til skamms tíma hefir það ekki slátrað, heldur verslað eingöngu með aðfluttar vörur og tekið ull af bændum. Í seinni tíð er fjelagið þó farið að slátra og hefir tekið langmest fje til slátrunar í Skagafirði á síðasta hausti. Fyrir þessu fjelagi stendur sjera Sigfús Jónsson, ágætur maður, sem fyrrum var prestur á Mælifelli. Er hann eindreginn andstæðingur hv. þm. Skagf. í pólitík. Að því er snertir hv. 2. þm. Skagf. (JS), sem var í þessu Kaupfjelagi, þó að hann sje genginn úr því nú, og gerði þá alt, sem hann gat, til að spilla fyrir starfi framkvæmdarstjórans og hafði meira að segja í hótunum við hann, ef hann byði sig fram til þings. (JS: Hefir sjera Sigfús skýrt frá þessu?). Þetta vita allir í Skagafirði, en ef hv. þm. vill jeta þetta ofan í sig og þurka það út, þá hann um það. En hv. 2. þm. Skagf. þýðir ekkert að ætla sjer að reyna að telja Skagfirðingum trú um slíkt, vegna framkomu sinnar í þessum málum. Hún er vissulega of ill til þess að því verði trúað. Það vita allir þar nyrðra, hversu hann hefir reynt að troða skóinn niður af sjera Sigfúsi. Kælihúsmálið var rannsakað af tveim aðalmönnum Sambandsins og Framsóknarflokksins, og allar aðgerðir í því hafa verið bornar upp af kaupfjelögunum og Sambandinu, en ekki af sláturfjelögunum, hvorki hjer í Reykjavík, í Borgarnesi nje á Sauðárkróki. Sláturfjelagið á Sauðárkróki hefir auk þess verið til skams tíma utanvelta við Sambandið og átti mjög erfitt með að koma lögum sínum í rjett horf. Það er hreinasta fjarstæða, að það fjelag hafi átt nokkra forgöngu í þessu máli, heldur var það kaupfjelagið, sem hana átti. Og jeg get lýst yfir því, að ef jeg hefði haft afskifti af þessu máli, mundi mjer ekki hafa blandast hugur um, að kaupfjelagið hlaut að hafa forgangsrjettinn. Það var bæði sterkari aðili og heilbrigðara. Eins og Húnvetningar gengu inn á, að kaupfjelagið ætti kælihúsið, en leyfði kjötframleiðendunum að njóta fulls jafnrjettis, eins og er á Reyðarfirði, Akureyri og Kópaskeri, eins átti þetta líka að vera á Sauðárkróki og hefði orðið, ef ekki hefði sprottið upp þessi hjeraðskritur, sem hv. 2. þm. Skagf. stendur fyrir. Þess ber að gæta, að kaupfjelagið á Sauðárkróki er aðalsamvinnufjelag hjeraðsins, en sláturfjelagið, sem hjarði lengi vel utan Sambandsins og seint og síðar meir tókst að verða fjelagi í því, hlaut eftir reglunni á Hvammstanga að njóta sama rjettar sem aðrir framleiðendur í hjeraðinu yfirleitt. En svo kom það upp úr kafinu, að hv. 2. þm. Skagf. fanst, eftir því sem hann gróf sig fastara í íhaldsflokkinn, að kaupfjelagið á Sauðárkróki stæði of fjarri þeim flokki, enda var það ekki ólíklegt, þar sem allir kaupmenn og spekúlantar eru flokksmenn þessa hv. þm., en þeir eru verstu fjandmenn kaupfjelaganna. Má þar t. d. nefna hv. 1. þm. G.-K. (BK). En þá gerist það, sem sýnir, að hv. 2. þm. Skagf. átti skilið að fá að vera stund úr æfi sinni í kaupfjelagsskapnum, því að hann sýndi þá hreinskilni að segja sig úr fjelaginu, ásamt nokkrum öðrum, þeim er æstastir voru, og myndaði nýtt fjelag, sem jeg man ekki, hvað heitir, en í daglegu tali er það kallað „verslunarólagið“. Jeg efast ekki um, að hv. 2. þm. Skagf. sje í stjórn þessa hjáleigufjelags og muni helga því krafta sína, og að því lýtur bað, þegar hæstv. forsrh. var að tala um, að þessi hv. þm. hefði riðið um hjeraðið til þess að mynda nýja deild og tekist að ná í 2–3 menn í hverjum hreppi. Kaupmönnunum á Sauðárkróki hefir altaf verið meinilla við kaupfjelagið þar, og þeir rjeru undir með þetta og æstu menn gegn því, að kaupfjelagið hefði forgöngu í þessu máli. Látum vera, þó að skagfirskir spekulantar leggi sitt eigið fje í annað kælihús, en að þeim skuli geta dottið í hug, að landið fari að styrkja þá til þess, er svo mikil fjarstæða og barnaskapur, að orðum er ekki um það eyðandi. Þegar menn athuga, hve alt er holgrafið á Sauðárkróki í herbúðum íhaldsins af pólitískum ofsa og sundurlyndi, ættu menn að geta skilið, hvernig á því stendur, að slík vitleysa sem þetta skuli reka upp höfuðið.

Ásökunin í minn garð er sú, að formaður kaupfjelagsins á Sauðárkróki, sem báðir þessir hv. þm. eru á móti, hafi, þegar hæstv. forsrh. var í siglingu, símað til mín til þess að fá að vita, hvort stj. ætlaði að veita þetta lán. Það sjá nú allir, að hjer er eitthvað óeðlilegt á ferðinni, því að hjer er ekki farin sú venjulega, formlega leið. Í stað þess að senda símskeyti sjálfir til stjórnarráðsins. biðja þessir menn leiðtoga annars fjelags, sem þeir vilja ekki vera í, að símtala við mann í öðrum landsfjórðungi, sem ekki hafði neinn ákvörðunarrjett um málið. Það kom aldrei til mála, að stj. leysti málið á þennan hátt. heldur átti styrkumsóknin að koma skjalfest frá Sláturfjelaginu og sömuleiðis svar stj. Auk þess var það ekki jeg, heldur Magnús sál. Kristjánsson og hæstv. forsrh., sem hafði með þetta að gera, svo að þetta var svo óformlegt og heimskulegt að þess munu engin dæmi. Samt er hv. þm. Skagf. að áfella mig fyrir það, sem jeg á að hafa sagt og gert í þessu máli. Þeir vita þó, að aldrei kom neitt skeyti eða brjef frá þessum skjólstæðing þeirra til stj. Við þetta bætist svo, að fjelag sjera Sigfúsar Jónssonar biður um lán til að byggja kælihús. Því var vel tekið. Sambandið mælir með því, að það fái lánið, enda var gert ráð fyrir, að húsið stæði opið til afnota fyrir alla hjeraðsbúa jafnt. Það gat því engum óvitlausum manni dottið í hug, að það fengist eyrir af opinberu fje í keppandi stofnun.

Mjer þykir leiðinlegt, þegar þessar umr. eru búnar að standa í viku, að það skuli bætast ofan á, að farið væri að nefna þessa vitleysu. Hv. 1. þm. Skagf. er leyfilegt að rógbera mig í Skagafirði, en vita má hann, að það mun lítið þýða, ef einhver er við til að reka ofan í hann rangfærslurnar. Jeg ætla ekki að fara að minnast á alla hina sundurlausu punkta þessa hv. þm., þegar hann var að hreyfa hjer óánægju, sem fram átti að hafa komið í n., sem við eigum báðir sæti í, en aldrei bar þó á. (MG: Á-á, mig minnir þó ekki betur en að þetta komi fram í gerðabókinni). Það er ekkert rógsyrði bókað í gerðabókinni, og tel jeg henni það til sóma. En jeg vil í þessu sambandi minnast á annað mál, Arnarhólsmálið, af því að það bregður skýru ljósi yfir afstöðu mína og hv. 1. þm. Skagf., og þeirra flokka, sem við hvortveggja erum í. Það er víst, að fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, nam land hjer í Reykjavík, og tún hjer í bænum ber nafn hans. Á því hefir verið reist táknmynd íslensku þjóðarinnar, gerð af frægasta listamanni landsins. Einari Jónssyni, og búið um hana eftir hans fyrirsögn. Eitt af því, sem hv. 1. þm. Skagf. átti að annast um, meðan hann var dómsmrh., var viðhald þessa minnismerkis og umhverfis þess. En aldrei hefir verið farið andstyggilegar með nokkurn grænan blett á jörðunni en þennan, sem hver mentaþjóð hefði talið sjer helgan, þar sem fyrsti landnámsmaðurinn hafði reist fyrstu bygð landsins. Utan um þennan blett var höfð ómerkileg girðing, hann var troðinn og traðkaður af hestum og stórgripum, upp að minnismerkinu lágu sligaðar tröppur, sem hver útlendingur gekk upp, og í sliguðu, fúnu trjehliðinu, sem alt var af sjer gengið, var svokallaður „draugur“ — hefir það sennilega verið íhaldsdraugurinn, eða ímynd flokksins. Öll hin auðvirðilega meðferð Íhaldsins á þessum alhelgasta stað þjóðarinnar sýnir mentunarleysi flokksins og óþjóðrækni. Síðasta afrek Íhaldsmanna um niðurlægingu Arnarhóls er það, að kvenfulltrúi flokksins á þingi hefir hafið illvígar deilur fyrir það eitt að fá ekki að halda þarna fjölmenna samkomu í gróandanum og gera túnið þar með að algerðu flagi. (MG: Jeg er nú dauður!). Hv. þm. hefir nóga dáta til að verja sig. Og það er í raun og veru hagur fyrir hv. þm. að hafa ástæðu til að geta verið laus við að verja hina óhæfilegu meðferð sína á þessum fagra bletti. En þegar jeg hefi verið sakaður fyrir að hafa ekki veitt þetta leyfi, þá hefir það gleymst, að jeg bauð kvenfólkinu annan blett, sem ekki var þeginn. Á þeim bletti var samkoma haldin nokkru síðar og gafst vel. Þegar stjórnarskiftin urðu síðast, lágu 16 moldargötur frá Ingólfslíkneskinu niður hólinn og að draugnum í hliðinu og víðar. Jeg segi frá þessu sem vott um þjóðrækni þessa hv. þm. (MG). Sama er að segja um Þingvelli. Og andstaða flokksins gegn því að friða þann stað byggist á hinni sömu óþjóðrækni.

Hv. 1. þm. Skagf. talar um það sem einhvern þjóðarvoða, að banna á sauðfjáreign í sambandi við Þingvallafriðunina. En hver er þá þessi voði? Hann er sá, að banna á sauðfjáreign á tveimur kotum: Hrauntúni og Skógarkoti. Með því að þetta svæði sje girt og sauðfjáreign bönnuð innan þess svæðis, þá verður þarna kominn samfeldur skógur eftir 40–50 ár. Eins og kunnugt er, þá voru það kolagrafirnar og sauðfjárbeitin, sem eyðilögðu skóginn mest áður. En nú segir hv. þm., að það sje eitthvert afskaplegt glapræði að banna sauðfjárbeit á þessum helgasta stað landsins. En var þá ekki líka glapræði að leggja Svartagil í eyði? Eftir sögn biskups var það gert eftir beiðni Jóns heit. Magnússonar. Nú má telja rjett að byggja jörðina aftur, og þá fer nú að minka um það, að jörðum sje fækkað í Þingvallasveitinni. Spurningin er þá aðeins sú: Á að verja þennan blett eða verja hann ekki? Hv. þm. Skagf. hefir nú sagt það í Þingvallanefndinni, að honum þætti fallegra að láta Valhöll standa þarna áfram í miðri þinghelginni. Jeg býst helst við, að hann vilji láta timburskúrana standa líka óáreitta. — Til Þingvalla á nú að leggja veg, sem kostar 300 þús. kr. Íhaldsmenn sögðu það nú á fundum í vor, að það væri Framsóknarflokknum að kenna, að sá vegur er lagður. En jeg vil minna þá á það, að formaður undirbúningsnefndar alþingishátíðarinnar, hv. þm. Seyðf., mælti svo fast fram með þessari vegargerð, að hann kvaðst mundu segja af sjer nefndarstörfum, ef vegurinn væri ekki lagður. Það er áætlað, að vorið 1930 muni um 20 þús. manns fara þennan veg fram og aftur í bílum. Og hv. þm. Seyðf. sagðist ekki vilja bera ábyrgð á þeim slysum, sem fyrir gætu komið, ef svo margir bílar og menn ættu að ferðast eftir gamla veginum einum á 2–3 dögum. íhaldsmenn verða því að beina skeytum sínum á þennan hv. þm. og flokksbróður sinn. Annars var nú þessi vegargerð ákveðin hvort sem var. Henni er bara flýtt vegna alþingishátíðarinnar. En vill nú hv. 1. þm. Skagf., þegar búið er að kosta svona miklu til að flytja 20 þús. manns, og margt af því fólki tignir útlendingar, að þegar á sjálfan Þingvöll kemur, þá sje alt þar í óhirðu og niðurníðslu? Er ekki sóma landsins betur borgið með því að láta þennan fornhelga stað líta eins vel út og hægt er? Jeg býst við, að öllum þjóðræknum mönnum finnist svo vera.

Jeg býst nú ekki við, að þessi ádrepa nægi til þess að gera upp á milli hinna andstæðu afla í Þingvallanefndinni. Hv. 1. þm. Skagf. getur nú látið sig dreyma um það, að þann ómenningarvott, sem nú verður tekinn burtu af Þingvöllum, megi setja þangað síðar, þegar hann og hans skoðanabræður hafa aftur tekið við völdum. En jeg hygg það, að þeim verði aldrei liðið það, að svívirða Þingvöll aftur með því að íklæða helgistaðinn sama ræfilshjúpnum, sem nú er verið að færa hinn forða þingstað úr.

Þá talaði hv. 1. þm. Skagf. um Hnífsdalsmálið og taldi, að það væri búið að vera nokkuð lengi á leiðinni. Það er nú mikil spurning, hvort svo er, þegar alls er gætt. Þá sagði hv. þm., að setudómarinn hefði skipað sjer að verja einn sökudólginn. Þetta er nú bara vitleysa. Þeir rjeðu sjer vitanlega verjendur sjálfir. (MG: Jeg hefi í höndum símskeyti, sem skipar mig verjanda eins mannsins). Það er aðeins vegna hinnar formlegu hliðar. Skipunin var gefin út sem venja er til, eftir beiðni ákærða og að undangengnum samningi við hv. þm., þar sem hann lofaði að taka að sjer málið. En fyrst hv. 1. þm. Skagf. fór að tala um símskeyti, þá má geta þess, að til eru önnur skeyti, sem eru til orðin vegna ósvífinna spurninga, er hv. þm. beindi til setudómarans. Annars ætti hv. þm. sem minst að tala um rannsókn þessa máls. Því alt, sem hann gerði í því meðan hann var dómsmrh., miðaði í þá átt að gera alt málið erfiðara og ómögulegra viðfangs. Þótt hann sendi rannsóknardómara vestur, sem kostaði 100 kr. á dag, þá varð sú aðgerð til þess eins, að málið var nærri fallið. Hvað sem flýti á málinu líður, þá er þó það víst, að að því hefir verið unnið með miklum dugnaði. Og málið er nú þegar orðið svo vel afgreitt, að dómur alls almennings er fallinn í því, hvernig svo sem hv. 1. þm. Skagf. reynir að flækja það. Hæstirjettur getur aukið eða minkað refsinguna, en dómi almennings á málinu breytir hann aldrei. Um þetta eru nóg dæmi frá öðrum löndum. Svo var það um Dreyfus-málið í Frakklandi. Þar var það almenningsálitið, sem sigraði, þvert á móti niðurstöðu dómstólanna. Svo var það og í Danmörku. Danir vildu ekki beygja sig fyrir þeim dómi, sem uppkveðinn var um Berg og sem eyðilagði heilsu hans. Þar var almenningsálitið ekki í neinum vafa. Eins er um þetta moldviðri, sem þyrlað hefir verið upp af íhaldsblöðunum og öðrum í sambandi við Hnífsdalsmálið. Það trúir því enginn.

Eins er það um Shell. Enginn trúir því, að hjer sje um íslenskt fyrirtæki að ræða. Þótt hv. 1. þm. Skagf. hafi, og 3 menn aðrir, lagt fram 2000 kr. hver og fimti maðurinn 244 þús. kr., þá trúir enginn því, að hjer sje um íslenskt fyrirtæki að ræða eða að hv. 1. þm. Skagf. sje hreinn í því máli. Hitt er alt annað, að nógu sterkar sannanir vantar til þess að kveða upp áfellisdóm í málinu, eftir því sem hæstirjettur segir. En það hefir engin áhrif á skoðanir manna á málinu. Það er því algerlega óþarft af hv. 1. þm. Skagf. að fara að slá um sig sem nokkurskonar þjóðhetja. Af almenningi verður hann talinn bandamaður, eða öllu heldur bandingi erlends auðvalds. Á forsögu málsins er auðsjeð, að hann hefir ætlað að hleypa því hingað inn, meðan hann var ráðh. Og hann verður svo formaður þessa fjelags um leið og hann lætur af stjórn. Við þennan dóm almennings verður hann að sitja meðan hann lifir.

Hv. 1. þm. Skagf. og fleiri hv. þm. hafa haldið því fram, að ekkert væri að marka vörn Lárusar Jóhannessonar í Júpíters-málinu, af því að honum hefði verið borgað fyrir að semja hana. Fyrir mig sjálfan hefir þetta ekkert að segja. því jeg þurfti ekki þessa varnarskjals Lárusar Jóhannessonar við til þess að mynda mjer rökfasta skoðun á málinu. En það fjarlægði mig heldur ekki frá hinni sönnu niðurstöðu. Að L. J. hafi fengið peninga fyrir að semja vörnina, sje jeg ekki að skifti neinu máli. Þessi maður er nú fjelagi og yfirmaður hv. 1. þm. Skagf. í lögfræðiskrifstofu hjer í bænum. Og mjer finst satt að segja dálítið undarlegt, ef hv. 1. þm. Skagf. heldur því fram, að það sje tóm vitleysa, sem yfirmaður hans segir, og sem ekkert mark megi á taka, af því hann hafi verið keyptur með fjemútu til að hafa þar ákveðna skoðun.

Jeg vil nú í einu lagi taka fram þær röksemdir, sem fram hafa komið áður og sem sýna, hve hörmulegt ástand þessa varðbáts hefir verið. Á bátnum voru engin nauðsynleg áhöld til mælinga. Engin skriffæri til að rita niður hjá sjer athuganirnar. Og eftir því var skipshöfnin. Eftir umsögn L. J. voru vitnin bæði ósannsögul og heimsk. Þau höfðu ekkert til að skrifa með á skipinu. Og þau skrifuðu heldur ekkert hjá sjer, er þau komu í land. Og það líður heill mánuður áður en þeim dettur í hug að kæra. Það er fyrst þegar varðskipið kemur þarna suður eftir af tilviljun, að þeir fara að segja frá því, að þarna hafi nú tvö skip verið að veiðum fyrir mánuði síðan, og sem, að því er þeir hjeldu, voru fyrir innan landhelgislínuna. Menn skulu bara gæta þess, að það er mánuður þangað til þeir kæra. Og það er jafnlangur tími þangað til þeir skjalfesta miðin. Á meðan geymast þau í hinum sljóa heila þessara manna, sem að dómi L. J. skortir líka hæfileika til að segja satt. Eftir mánuð er fyrst farið að draga upp úr þeim, hvar miðin voru. Og þetta alt á að leggja undir dóm færustu manna í Berlín og London, og eftir þeim rannsóknum á að mynda í stóru löndunum skoðun um lögreglumál og rjettarfar á Íslandi. Það er ekki hægt annað að segja en að það var hreinasta heppni og tilviljun, að þessu fjekst afstýrt.

Hv. 1. þm. Skagf. var ekki ánægður með þá samveikislækningu mína, að láta L. Jóh. tala. Jeg notaði þetta aðeins sem sönnunargagn fyrir Morgunblaðsmennina. Og jeg hygg, að hv. L þm. Skagf. hafi aldrei nema gott af því, að yfirmaður í skrifstofunni hans segir honum þarna til syndanna.

Þá hefir það einnig verið vítt, að jeg hafi ekki komið fram með hin önnur skjöl í Júpíter-málinu. Að jeg hefi ekki gert það, er af þeirri einföldu ástæðu, að fleiri skjöl voru ekki lögð fram fyrir undirrjetti. Og í hæstarjetti er málfærslan munnleg. Önnur gögn eru því ekki til í málinu. Og þetta gagn var að vísu líka óþarft til annars en að hirta heimska íhaldsmenn með því. Allir aðrir vita það, að stj. gerði rjett í þessu máli, og fjölda margir íhaldsmenn, sem vit hafa á málinu, viðurkenna það líka. En öðrum íhaldsmönnum var gott að fá álit flokksbróður síns, enda þótt þá hafi sviðið nokkuð undan því. En það er eins og danskurinn segir: „Der skal skarp Lud til skurvede Hoveder“. Jeg hjelt, að þetta væri góður pískur á þá íhaldsmenn, sem ekki gátu á annan hátt lært það í þessu máli, sem þeim bar að læra.