26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Við 2. umr. fjárl. flutti jeg aðeins eina lítilsháttar brtt Nú á jeg hjer aðra, XXXV. brtt. á þskj. 408, að veita til gagnfræða- og alþýðuskólans í Flensborg 16000 kr. — Eins og hv. þm. vita, var Flensborgarskólinn gefinn af sr. Þórarni Böðvarssyni, prófasti í Görðum á Álftanesi, og konu hans til minningar um son þeirra látinn. Gjafabrjefið er frá 11. ágúst 1877, en var breytt 1. júní 1882. Þessar eignir voru gefnar til þess að halda uppi alþýðuskóla í Hafnarfirði, sem ríkið kostaði rekstur á. Þessi skóli hefir nú starfað alt að því 50 ár, og allan þann tíma hefir ríkið kostað rekstur hans. En nú í fyrsta sinn hefir verið brugðið út af þeirri venju, að því er jeg hefi sjeð í fjárl. Í stað þess að ríkið hefir áður greitt allan kostnað af skólahaldinu, að frá dregnum skólagjöldum, þá er nú lagt til í fjárlfrv., að ríkið greiði aðeins af rekstrarkostnaði skólans; hitt á að greiðast annarsstaðar frá. Jeg skal ekki fjölyrða mjög um þetta, en jeg verð að segja það, að mjer þykir það alveg óviðeigandi, að ríkið brjóti þannig 50 ára venju sína og skuldbindingar. Jeg álít, að hv. Alþ. eigi að vera tregt til að aðhyllast það, að breytt sje að tilefnislausu 50 ára venju. Og mjer þykir enn síður ástæða til að gera slíkt nú, þar sem það er vitanlegt, að bráðlega rekur að því, að bygt verður nýtt skólahús, því þótt skólahúsið, sem nú er, mætti teljast ríkmannlegt, þegar það var gefið, þá svarar það þó nú orðið varla þeim kröfum, sem almenningur gerir til skólahúsa nú. Stendur því fyrir dyrum að byggja nýtt hús, og verður þá, í tilefni af nýjum samningum, sem um það verða, tækifæri til að ákveða, hvernig rekstrarkostnaðinum skuli skift. Er því alveg ótækt, þar til sá samningur kemur, að vera að rjúfa gamlar venjur um skólann. — Jeg hefi því leyft mjer að gera þá brtt., að Flensborgarskólinn fái í fjárl. 16000 kr. eins og var í síðustu fjárl. Og þar sem jeg bjóst við því, að hv. deild mundi samþ. þetta, þá hefi jeg jafnframt lagt til, að styrkur sá, sem ætlaður er alþýðuskólum landsins, verði lækkaður um 10 þús. kr., eða úr 70 þús. kr. niður í 60 þús. kr. — Að vísu hefði átt að lækka þessa upphæð niður í 58 þús. kr., ef gert er ráð fyrir því, að af þessari upphæð hefðu átt að ganga til Flensborgarskólans 12 þús. kr., en 4 þús. kr. þá komið annarsstaðar frá. Jeg hefi látið nægja að lækka þetta niður í 60 þús. kr. Hv. Ed. getur þá lagað þetta, ef henni sýnist svo. Vona jeg, að þetta verði samþ.

Þá vil jeg víkja nokkuð að LXVII. brtt. á sama þskj., sem er frá fjvn. og er um það að hækka liðinn til slysavarna um 8 þús. kr., sem skal verja til vegar milli Sandgerðis og Stafness, svo flytja megi björgunarbát þá leið. Það mun hafa verið upphaf þessa máls, að til mín kom oddviti Miðneshrepps, Eiríkur Jónsson, formaður slysavarnafjelagsins í Sandgerði. Hann hefir verið lengi búsettur þarna og því orðið sjónarvottur að mörgum slysum á þessum slóðum. Hann sagði mjer, að þegar frjetst hefði til Sandgerðis um björgunarbátinn, þá hefði það vakið óblandna ánægju allra þar um slóðir. Er það og eðlilegt, að þeir, sem horfa verða upp á slysin, verði fegnir hverri hjálp, sem gerir björgun vonmeiri. En Eiríkur sagði þó, að einum skugga brygði á þetta frá sínu sjónarmiði, því þótt björgunarbátur væri til í Sandgerði, þá væri lítil not hægt að hafa af honum einmitt þar, sem slysin væru tíðust. Benti hann á, að þegar slysin bæri að höndum, þá væri venjulega ekki um það að ræða, að hægt væri að flytja bátinn á sjó, hvorki innan skerja nje utan. Eina vonin til að koma honum að, er að flytja hann á landi, enda er hann útbúinn með það fyrir augum. Undir honum er stór sleði með 4 hjólum. í útlöndum eru þessir bátar fluttir á landi til strandstaðarins. — Þessar ástæður tjáði þá þessi kunnugi maður mjer, og spurði mig ráða um, hvernig þessu mætti fyrir koma. Jeg láðlagði honum að taka málið upp á fundi slysavarnafjelagsins í Sandgerði og senda áskorun um vegagerð áleiðis til Alþingis, en leita þó álits aðalstjórnar Slysavarnafjelags Íslands. Þetta alt hefir verið gert. Stjórn Slysavarnafjel. Ísl. hefir ljeð þessu máli eindregin meðmæli sín og ljet skýrslu fylgja þeim, sem sýnir 62 skipsströnd og 92 druknanir á þessum sjóðum frá aldamótum. Mjer dettur nú að vísu ekki í hug að halda því fram, að öll þessi mannslíf hefðu bjargast, ef bátur hefði verið nærtækur, en það er fullvíst, að svo hefði verið í mörgum tilfellum.

Jeg vil því færa hv. fjvn. bestu þakkir fyrir það, hvernig hún hefir tekið í þetta mál. Og þótt hún sje að vísu nokkru smátækari en helst hefði verið kosið, þá vona jeg, að menn hafi það í huga, að þetta ber að skoða sem fyrstu fjárveitingu til þessa verks, því jeg vona, að menn ljái þessu það fulltingi, sem með þarf, og láti eigi staðar numið á miðri leið. — Jeg veit, að hv. þm. er svo í fersku minni skipsstrand við Stafnes, að enginn muni vilja standa í vegi fyrir því, að hægt sje að flytja björgunarbátinn þangað frá Sandgerði. Og jeg vil skora á hv. þm. að gera sitt til, að vegur þessi verði kominn áður en fleiri vitni en þau 92, sem jeg gat um áður, verða leidd fram. Það er meira en nóg, að fortíðin vitni í þessu máli, þótt reynt verði að koma í veg fyrir, eftir því sem unt er, að framtíðin geri það líka.

Eins og getið hefir verið um, þá gaf Þorsteinn skipstjóri í Þórshamri bátinn og útlendur maður gaf sama dag 5000 d. kr. til fjelagsins. Nú vona jeg, að Alþ. sýni líka rausn og veiti fje til þess að vegur verði gerður frá Sandgerði til Stafness. Jeg skal svo, um leið og jeg endurtek þakklæti mitt til hv. fjvn., einnig þakka þeim mönnum á Suðurnesjum, sem sýnt hafa glöggan skilning og áhuga á þessu máli. Og að síðustu vil jeg þakka hv. þm. fyrir væntanlegt fylgi þeirra við þetta mál.