26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

16. mál, fjárlög 1930

Hákon Kristófersson:

Jeg á hjer ekki nema 2 brtt. í þessum kafla fjárl., sem jeg ætla að fara um örfáum orðum.

Sú fyrri er brtt. við brtt. hv. fjvn. við 22. gr. fjárl. Fer brtt. fjvn. í þá átt að veita nokkrum hreppum uppgjöf vaxta og greiðslufrest fyrir árið 1929 á skuldum þeirra við ríkissjóð. Við 2. umr. bar jeg fram till. þess efnis, að Patreksfjarðarhreppi yrði veitt þessi uppgjöf. Fjvn. tók þá máli mínu svo liðlega, að jeg tók þá brtt. mína aftur við þá umr. Nú sje jeg, að hv. fjvn. hefir breytt í samræmi við það, sem hún áður boðaði að verða mundi, og jeg reyndar hafði grun um, bæði af samtali við hv. n. og af „privat“-samtali við form. hennar. Hún hefir sem sje tekið upp í till. sínar, að áðurnefndum hreppi verði veitt einhver ívilnun.

En nú er það svo, að Suðurfjarðahreppur í Barðastrandarsýslu er undir sömu sökina seldur. Og að jeg ekki bar fram við 2. umr., að hann yrði líka tekinn með, stafaði af því, að jeg vildi sjá, hvernig Patrekshreppi reiddi af, en hafði hugsað mjer, ef honum gengi vel, að koma þá með hina á eftir. Till. mín er því sú, að á undan Patrekshreppi komi Suðurfjarðahreppur. Þykist jeg vita, að hv. fjvn., er hefir sýni, svo góðan hug til þessa máls, muni geta fallist á þessa till. mína. Því eins og tekið hefir verið fram áður, getur vel farið svo — ef ekki verður unnið að því á skynsamlegan hátt að gera viðkomandi hreppum mögulegt að greiða —, að ómögulegt verði að innheimta þessar skuldir í framtíðinni, nema með allverulegri eftirgjöf. Hefi jeg bestu vonir um, að takast megi að leiða þetta til lykta á farsælan hátt og sætti mig vel við þá niðurstöðu, er þegar er orðin um þetta mál, með voninni um það, að þessum málum verði ráðið til farsælla lykta fyrir næsta þing. Vona jeg, að n. leggi samþ. sitt á þessa brtt. mína viðvíkjandi þessum hreppi.

Hin brtt. er við 22. gr. fjárl. og er þess efnis, að stj. sje veitt heimild að gefa Halldóri Arnórssyni umbúðasmið eftir eftirstöðvar af viðlagasjóðsláni, er honum var veitt 1922. Það má með sanni segja um þennan heiðursmann, að hann er verulegur brautryðjandi á þessu sviði. Er það ekki á mínu færi að færa honum þakkir frá öllum þeim fjölda manna, er hafa notið aðstoðar hans og hjálpar. En þessi maður er mjög illa efnum búinn, því þessi atvinna. er hann hefir stundað, er þannig, að hann hefir ekki getað gefið sig að öðrum störfum samhliða þessu handverki sínu, sem ekki getur þó veitt honum nægilegt lífsviðurværi. Hefir hann því ekki getað aflað sjer þeirra áhalda ýmsra eða komið sjer upp þeirri vinnustofu, er nauðsynleg verður að teljast vegna þessarar atvinnu. Tel jeg og víst, að nokkur styrkur til hans mundi verða til þess, að hann gæti selt ódýrar gervilimi þá, er hann smíðar, því fólki, er hefir verið svo óhamingjusamt að missa hönd eða fót. Og því þori jeg að slá föstu, að gervilimir hafa ávalt verið ódýrari hjá honum en hafi þeir verið keyptir frá útlöndum. T. d. þekki jeg eina virðulega dánumannskonu hjer í bæ, er fjekk sjer gervifót frá Danmörku. Kostaði hann 600 kr. Þennan sama lim mundi Halldór hafa selt fyrir 380–400 kr. En nú hefir þessi sami umtalaði gervilimur komið 10 sinnum til hans í viðgerð síðastl. 12 mán. Þetta sannar, að hinir útlendu limir þola ver áreynslu en þeir íslensku. Þó skal þess getið, að jeg býst við, að þeir útlendu sjeu ljettari.

Jeg lít svo á, að þær ráðstafanir, er gerðar eru í þessu skyni, sjeu heilbrigðisráðstafanir; því það eru ekki altaf þeir efnaðri, er verða fyrir slysum og óhöppum.

Að áhugi vaknaði hjá mjer fyrir þessum efnum, kom til af því, að jeg var einu sinni á ferðalagi í Barðastrandarsýslu. Mæti jeg þá manni þar uppi í afdölum. Var hann haltur mjög og gekk við staf, og tók jeg eftir því, að það marraði og brakaði í öðrum fæti hans, er hann gekk. Spurði jeg hann, hverju sætti tíst það hið mikla í fæti hans. Sýnir hann mjer þá gervifót sinn og segir, að hann sje mjög bilaður, en ilt fyrir sig sökum fjárskorts og erfiðleika að láta gera við hann. Þetta mun hafa verið fyrir 8 árum. Síðan hefi jeg jafnan haft það hugfast að gera með atkv. mínu hjer á þingi það, sem mjer væri mögulegt, til að stuðla að því, að löggjafarvaldið sýndi það með framkomu sinni, að það hefði skilning á þeim erfiðleikum, sem handar- eða fótlausir menn eiga við að stríða. Nú reynir á skilning þm. í þessu efni, því með samþ. till. minnar ætti að vera stigið spor í áttina til þess, að gervilimir mundu verða seldir mun ódýrari. Þetta fyrsta dæmi, sem jeg nefndi, sýndi mjer, við hvaða erfiðleika þessir menn eiga að stríða og hve erfitt er fyrir þá að inna af hendi lífsstörf sín.

Einnig veit jeg til þess, að einn hv. þm. hjer í þessari hv. deild hefir þá sögu að segja, að Halldór hafi orðið honum mjög hjálplegur með smíðisgrip einum. Sama munu fleiri geta sagt. (BÁ: Þingmenn?). Ekki er nú það, svo jeg viti til. En fyrst hv. frsm. fjvn. spyr, skal jeg geta þess, að jeg þekki enn eina unga stúlku hjer í bænum, sem fór til útlanda í þeim erindum að fá bót meina sinna. Þessi för hennar varð algerlega árangurslaus. Nú er svo komið fyrir hjálp þessa heiðursmanns, að ástæða er til að ætla, að hún fái fulla bót meina sinna. Sýnir það ljóslega, að dverghagleikur þessa manns hefir í þessu tilfelli áorkað meira en læknar þeir, sem stúlkan hafði leitað til.

Jeg skal geta þess, að þessi maður hefir aldrei farið þess á leit við mig, að jeg beitti mjer fyrir því að fá þessa eftirgjöf honum til handa. Þetta er aðeins skoðun mín, að rjett sje og sjálfsagt að gera þetta. Vildi leg því láta Alþingi hafa tækifæri til að sýna, að það teldi þetta starf þessa ágæta manns þess vert að styrkja það nokkuð, svo að það gæti komið að sem bestum notum fyrir mannfólkið. Og í sambandi við þetta vil jeg geta þess, þó það eigi ekki við þennan kafla fjárl., að jeg er alveg samþykkur till. hv. 1. þm. Árn. um það, að styrkur, sem greiddur er til að styrkja þetta fólk, er þarf að fá sjer gervilimi, eigi aðeins að renna til þeirra, er fá sjer gervilimi smíðaða innanlands. Þetta er ekki mælt af neinni einokunartilhneigingu, því jeg er ekki snortinn af henni ennþá, heldur stafar það af því, að jeg er fyrst og fremst samþ. máltækinu forna: „Holt er heima hvað“, og svo þori jeg að fullyrða, að þessir gervilimir, sem smíðaðir eru hjer heima, eru engu lakari en erlendir. Hitt getur vel verið, að einhverjum þyki fínna að ganga á útlendum löppum, þó að hann fái betri í sínu eigin föðurlandi. En jeg álít ekki, að löggjafinn eigi að styrkja slíkt. Þó vil jeg alls ekki banna, að menn kaupi limi utanlands frá, en jeg vil ekki, að styrkur sje veittur til þess.

Jeg býst helst við því, að það sjeu erfiðar fjárhagsástæður, er hv. fjvn. og hv. þm. þykjast sjá fram á, ef þeir treysta sjer ekki til þess að samþ. þessa till. mína. Skal það og viðurkent, að heilsuleysi almennings er svo margháttað, að ekki er við því að búast, að hið opinbera geti ávalt hlaupið undir bagga, er þess væri þörf. En jeg þarf ekki annað en að benda á hin mörgu sjúkrahús, sem styrkt eru af opinberu fje, til þess að sanna, að þetta á engu síður rjett á sjer. Jeg álít, að þessi styrkur yrði verulegur liður í því að stuðla að því, að þessi maður ætti hægara með að fá sjer góð áhöld. Mundi honum þá veitast auðveldara að smíða þessa hluti og gæti þess vegna selt þeim óhamingjusömu mönnum, er þurfa að nota þá, með allmiklu lægra verði. Tel jeg, að þessi ráðstöfun ætti af þeim ástæðum ekki síður að eiga rjett á sjer en ýmsar aðrar ráðstafanir, er þjóðfjelagið gerir til þess að stuðla að vellíðan þegnanna. Treysti jeg því, að allir sanngjarnir hv. þm. sjái sjer fært að styðja mál mitt með atkv. sínu. Fel jeg svo þessa brtt. dáð og drengskap hv. þdm. til þeirrar fyrirgreiðslu, er hæfa þykir.