27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Það er í tilefni af þeim orðum, sem fjellu frá hæstv. dómsmrh., að jeg vildi segja nokkur orð. Hæstv. dómsmrh. sagði, að með þessari brtt. minni væri jeg að ganga á rjett skólans, en jeg get nú ekki skilið, hvernig hann getur fundið þeim orðum sínum stað, því að samkv. hans vilja á skólinn að fá 12000 kr. styrk, en jeg vil að hann fái 16000 kr. Það hljóta allir sæmilega reikningsglöggir menn að geta áttað sig á þessu, þótt hæstv. dómsmrh. hafi ekki getað það, enda mun það nú ekki hans sterka hlið að fást mikið við tölur. Hæstv. ráðh. sagðist hafa skoðað skólann og hann væri ekki í góðu standi, þannig, að hann væri ekki notandi lengur, og vildi láta byggja hann upp á ný. Ef þetta væri gert, mundi fást tækifæri til að semja um nýtt fyrirkomulag, og þá mætti skifta niður kostnaðinum milli ríkissjóðs og Hafnarfjarðarbæjar, en fyrr ekki. Hæstv. dómsmrh. gat þess, að hann hefði haldið fund í Hafnarfirði í vetur og skýrt þar málið fyrir bæjarbúum og allir hefðu unað vel við uppástungur hans Þetta má vel vera, en þá hefir hann ekki komið fram eins og nú, — það er að segja sem fjandmaður málsins. Jeg veit ekki, hvort hæstv. dómsmrh. hefir lesið gjafabrjefið, en þó virðist sem hann hafi ekki gert það. Hann talaði um, að það væri ekki bindandi fyrir Alþingi, og það má vel vera, en 50 ára venja bindur ríkissjóð og verður ekki riftað. Mjer fanst áðan, þegar hæstv. ráðh. mintist á Jón heit. Magnússon og skylduna til að standa við vilyrði hans, að ráðh. væri að fá nýjan og betri skilning, sem jeg hafði nú raunar ekki búist við af honum, en svo kom það í ljós, að lítil var breytingin. Hann vill ólmur og uppvægur láta rifta þeim samningi, sem gerður var fyrir 50 árum, en eins og jeg mintist á áðan, þá er hægt að gera nýjan samning, þegar skólinn verður bygður að nýju, og fyr er ekki ástæða til þess. Í þeim samningi væri þá hægt að ákveða framlag Hafnarfjarðarkaupstaðar án þess að hinn forni samningur, sem skólinn byggist nú á, væri rofinn að nokkru leyti. Jeg held því fram, að eins og sakir standa sje ríkið bundið, ef ekki af samningnum, þá er hefðin a. m. k. búin að binda það.

Hv. þm. V.-Ísf., fræðslumálastjóri Íslands, hefir risið hjer upp gegn hæstv. dómsmrh. í tveimur skólamálum, sem hann hefir viljað eyðileggja, og það er eftirtektarvert, að bæði þessi mál hafa verið áhugaefni pólitískra andstæðinga ráðh. og mótstaða hans byggist á ofsóknaræði, en hv. þm. V.-Ísf. er maður sanngjarn og rjettlátur, og þar skiftast leiðir. Jeg verð því að vona, að hv. þdm. meti till. hans meira en till. hæstv. dómsmrh., sem orsakast af ofsóknaræði hans og hefnigirni. Að öðru leyti vil jeg vísa til þeirrar greinar, sem jeg gerði fyrir málinu í gær.