15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Jeg á þrjár brtt. á þskj. 646. Áður en jeg kem að þeim, þykir mjer þó rjett að geta þess, að jeg hefði helst kosið, að gengið yrði að fjárl. óbreyttum eins og þau komu frá hv. Ed. Er það þó ekki fyrir þá sök, að jeg sje ekki ýmsum liðum þeirra ósamþykkur, en jeg geri ekki ráð fyrir því, að þau batni neitt í meðförum þessarar hv. d., ef af líkum má ráða. En úr því að það varð ofan á, að fjvn. gerði brtt. við fjárl., svo og aðrir þm., má telja víst, að þeim verði eitthvað breytt, og sá jeg þá ekki ástæðu til annars en að koma með nokkrar brtt., þótt fáar sjeu.

Það er þá fyrst XII. brtt., við 15. gr. 14., nýr liður: Til útgáfu 50 ára minningarrits Möðruvallaskóla 1000 kr. Við 3. umr. fjárl. í þessari hv. deila bar jeg fram till. sama efnis ásamt átta öðrum hv. þm. Þessi till. var feld, þótt furðulegt sje. Skal jeg ekki endurtaka það, sem þá var mælt fyrir þessari till., en aðeins geta þess, að þetta rit verður eitthvert hið merkasta í sinni röð, mikilsverður kafli menningarsögu okkar Íslendinga á síðustu 50 árum. Það hefir hingað til verið talið sjálfsagt að styrkja slík rit, og sje jeg ekki, að hv. Nd. geti sóma síns vegna synjað um þessar 1000 kr.

Sá maður, sem annast á um ritstjórn og útgáfu ritsins, Sigurður Guðmundsson skólastjóri á Akureyri, er að dómi allra, sem til hans þekkja, svo vel til þess fallinn, að fullvíst má telja, að ritið verður hið prýðilegasta og fróðlegasta í alla staði.

Þá er XXVII. brtt. á sama þingskjali, að í stað þess að nú er heimilað að greiða Eimskipafjelagi Íslands styrk að upphæð 85 þús. kr., verði stj. gefin heimild til að kaupa hluti í fjelaginu fyrir sömu upphæð. Jeg vildi mega ætla, að óþarft væri að hafa mörg orð fyrir jafnsjálfsagðri till. og þessi er. Eimskipafjelagið hefir notið 60 þús. kr. styrks til strandferða á hverju ári, auk þess sem það er með lögum undanþegið ýmsum skattgjöldum. Síðan árið 1924 hefir það einnig notið aukastyrks, svo sem nú skal greina:

Árið 1924 … 60 þús. kr.

— 1925 …... 60 — —

—1926 …… 85 — —

— 1927 …… 85 — —

— 1928 …… 85 — —

og í fjárl. þessa árs eru því enn ætlaðar 85 þús. kr. Auk þess er það upplýst, að stj. hefir lofað stj. Eimskipafjelagsins 11 þús. kr. til þess að jafna kaupdeilurnar á síðasta nýári, m. ö. o. keypt fjelagið með þessari upphæð til þess að losa skip sín, láta þau ganga. Samtals hefir þá ríkissjóður lagt til fjelagsins þessi 6 ár — auk strandferðastyrksins, 60 þús. kr. á ári — nærri hálfa milj. króna sem hreina og beina gjöf til hluthafa fjelagsins. Nú á ríkissjóður að vísu nokkra hluti í Eimskipafjelaginu, en það er svo lítill hluti af öllu hlutafjenu, að aðrir hluthafar bera ríkissjóð gersamlega ofurliði. Mjer virðist sjálfsagt, að ríkissjóður öðlist hluthafarjettindi í samræmi við það fje, er hann leggur fram til fjelagsins, því að fyrir afkomu fjelagsins út á við skiftir það engu, hvort það fær peningana sem Styrk eða hlutafje.

Þá á jeg loks XXX. brtt. á sama þskj., að ríkisstj. sje heimilað að ganga í ábyrgð fyrir lánum til sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði til kaupa á fiskiskipum, alt að 4/5 hlutum kaupverðs, samtals alt að 80 þús. kr., enda stofni þeir samvinnufjelag á sama grundvelli og Samvinnufjelag Ísfirðinga er reist á, setji samskonar tryggingar og hlíti sömu skilyrðum og sett voru fyrir ábyrgð ríkissjóðs fyrir láninu til fjelagsmanna í Samvinnufjelagi Ísfirðinga í fjárl. yfirstandandi árs. — Eins og hv. þdm. er kunnugt, barst Alþingi umsókn frá tveim mönnum á Seyðisfirði, þar sem þeir fara þess á leit, að þeim verði veitt undanþága frá fiskiveiðalöggjöfinni, svo að þeir mættu taka um 5 þúsund skippund fiskjar af erlendum skipum til verkunar á Vestdalseyri, en þar eiga þeir eða hafa umráð yfir góðri fiskverkunarstöð. Jeg veit ekki, hvort hv. fjvn. þingsins hafa athugað þessa beiðni, en hvorug þeirra hefir lagt beiðninni liðsyrði. Á Seyðisfirði er gnótt fiskverkunarstöðva og mannafla, en verkefni lítil, svo að fólkið gengur þar atvinnulaust tímum saman. Þegar sýnt þótti, að þessi beiðni næði ekki fram að ganga, ritaði einn bæjarfulltrúanna á Seyðisfirði, Karl Finnbogason, Alþingi brjef, þar sem hann fór þess á leit, að stj. væri veitt heimild til þess að ganga í ábyrgð fyrir Seyðfirðinga, með sömu skilyrðum og sett voru fyrir ábyrgð til fjelagsmanna í Samvinnufjelagi Ísfirðinga í fyrra. í brjefinu er þess getið, að aðstæður sjeu svipaðar þarna eins og á Ísafirði. Þó skal það játað, að undirbúningur eystra er miklu miður og skemmra á veg kominn á Ísafirði, en á það er líka að líta, að hjer er aðeins um að ræða þeirrar fjárhæðar, sem stj. var heimilað að ganga í ábyrgð fyrir til meðlima Samvinnufjelags Ísfirðinga. Ennfremur getur stj. gengið eftir þeim tryggingum, að öruggar þyki. Þættu mjer það æðiþungar búsifjar þeim Seyðfirðingum, ef þeim væri fyrst synjað um að taka fisk til verkunar, og einnig um allan styrk til þess að koma á útgerð, svo að þeir geti sjálfir aflað fisksins. Þeir væru þá jafnilla settir og áður. — Get jeg svo látið útrætt um þessa brtt. að sinni, en vísa að öðru leyti til ræðu minnar í fyrra í sambandi við ábyrgðina til Ísfirðinga.