17.05.1929
Efri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

16. mál, fjárlög 1930

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg er eiginlega ekki við því búin að taka til máls við þessa umr. fjárl., en mjer finst afgreiðsla þeirra hafa orðið þannig í þetta sinn, að hún gefi tilefni til, að upplýst verði nánar en hv. form. n. hefir gert, hvers vegna engar brtt. liggja fyrir við þessa umr. fjárl. hjer í hv. deild. Og því miður verða það frekar óánægjuorð en hitt, sem jeg hefi fram að færa. Jeg vil fyrst taka það fram, að vegna tímaskorts hefir öllum nefndarstörfum fjvn. verið hagað með svo miklum flýti, að tæpast er forsvaranlegt, úr því að báðar deildir þingsins eiga að hafa fjárlögin til meðferðar og þess jafnvel vænst, að Ed. lagfæri það, sem kann að vera komið út á viðsjárverða braut hjá hv. Nd. Enginn má þó skilja orð mín svo, sem jeg sje að hnýta í samverkamenn mína í nefndinni. N. vann myrkranna á milli þá 5 daga, sem hún hafði til að afgreiða fjárl., og geta allir sjeð, að það var alt of naumur tími. Jeg hefi aldrei verið jafnókunnug þeim plöggum, sem legið hafa fyrir fjvn., og nú, og hefi jeg þó gert mjer alt far um að kynna mjer þau, eftir því sem tími vanst til.

Þá kem jeg að því, hvers vegna n. hefir engar brtt. borið fram nú. Það var vegna þess að meiri hl. hennar, sem vitanlega hefir töglin og hagldirnar, var ánægður með fjárl. eins og þau komu frá hv. Nd., enda þótt bert væri, að um brot á fjármálastefnu hv. meiri hl. n. væri að ræða. Jeg á einkum við sjúkrastyrkina og minningargjafasjóðina. Það eru engar stórupphæðir, sem hjer koma til greina, en ef um stefnubrot er að ræða, er það, brotið sjálft, aðalatriðið. Sannleikurinn er sá, að meiri hl. n. sættir sig við þetta stefnubrot, af því að hann fjekk sínu aðaláhugamáli framgengt, sem sje, að engin hækkun var gerð á tekjuliðum fjárl., önnur en 100000 kr. hækkun á tekju- og eignarskatti, og að tekjuhallinn var jafnaður með því að fella niður fje til verklegra framkvæmda, vegagerða. Vegna þess að hv. meiri hl. fjvn. Ed. gat ekki aðhylst till. minni hl. n. um mjög svo varlega hækkun á nokkrum öðrum tekjuliðum, t. d. vörutolli og aukatekjum, var tekjuhallinn jafnaður með því að lækka framlag til verklegra framkvæmda. Þetta ljet hv. Nd. standa óbreytt, og tekur meiri hl. fjvn. Ed. því við frv. orðalaust og er hinn ánægðasti. Jeg veit, að hv. meiri hl. kemur ekki á óvart, þó að jeg gefi þessa yfirlýsingu. Mjer fanst það vera skylda mín. En hitt vil jeg taka skýrt fram, að í þessu felst engin ásökun til samverkamanna minna um vinnubrögðin í nefndinni.

Jeg öfunda ekki þessa hv. deild fyrir meðferð hennar á fjárl. En hjeðan af verður að skeika að sköpuðu. Við höfum ekki getað verið samtaka um það atriði, sem er eina og rjetta og besta lagfæringin, að hækka áður nefnda tekjuliði, sem vitanlegt er um, að þola mundu þá mjög svo varlegu hækkun, sem minni hl. fjvn. fór fram á. En minni hl. telur ekki gerlegt, eins og nú er komið, að fara að bera fram brtt. og hleypa fjárl. til Sþ.