04.05.1929
Neðri deild: 61. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2145 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

15. mál, laganefnd

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg þarf litlu að svara ræðu hv. þm. Barð., því að ekkert nýtt kom fram í ræðu hans. Jeg nenni heldur ekki að endurtaka ummæli mín við 2. umr. þessa máls, en jeg vil undirstrika það, að jeg álít það mjög nauðsynlegt fyrir þingið að hafa þessa n., skipaða lögfróðustu mönnum, sjer til aðstoðar. Og jeg hjelt, að hv. þm. Barð. sem allshnm. hlyti að geta fallist á það.

Hv. þm. tók það eftir öðrum áð minnast á aðstoð skrifstofustjóra og að hún ætti að vera þm. nægileg. Jeg vil aðeins benda hv. þm. á það, að skrifstofustjóri er alls ekki skyldugur til þess að veita slíka aðstoð, og hann hefði engan tíma til þess, ef hann ætti að gera það í verulegum stíl.

Þá kom hv. þm. að því, að þetta ættu að vera heimildarlög. Jeg játa það, að mjer er ver við, að einungis um heimildarlög er að ræða, en það skiftir engu máli, þar sem þetta er áhugamál hæstv. stj., og mun hún skipa n. eins fyrir því. Annars er seinni hl. frv. aðalatriðið fyrir mjer, þ. e. útgáfa laga.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Barð. um ágreining milli mín og hv. 2. þm. Árn., vil jeg taka það fram, að það er alls ekki rjett. Við hv. 2. þm. Árn. erum einmitt sammála um það að þurka út alt, er geti gert n. þessa pólitískt hlutdræga. Hv. 2. þm. Árn. hefir einnig neitað því að hafa sagt nokkuð í aðra átt.

Jeg hefi altaf lagt áherslu á það, að n. skoði sig ópólitíska hvað störfin snertir, svo að hún geti á engan hátt dregið vald þingsins úr höndum þess.