18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

5. mál, sveitabankar

Halldór Stefánsson:

Ég ætla mér engum deilum að halda uppi um þessi atriði, sem ég gerði að umtalsefni, um tryggingar fyrir bústofnslánum, þar sem þetta er 3. umr. En ég vildi aðeins leyfa mér að benda á það, að það er allt annað, ábyrgð bústofnslánafélags gagnvart Búnaðarbankanum, eða ábyrgð einstaklinga gagnvart félagi sínu. Ég hefi átt tal um það við bankastjóra Búnaðarbankans, að þetta líti dálítið öðruvísi út fyrir bankann, þegar búið væri að skjóta inn ábyrgð á milli lántakanda og bankans, sem sé bústofnslánafélaginu sjálfu. En hitt er allt annað, ábyrgð sú eða trygging, sem hver einstakur félagsmaður setur svo gagnvart sínu félagi. Það er líka miklu auðveldara að komast hjá því að krefjast óþarflega mikillar tryggingar, þegar hægt er að hafa stöðugt eftirlit með hverjum einstökum lántakanda, en það getur Búnaðarbankinn ekki haft. Ég vildi aðeins benda á þennan mun, sem orðinn er eftir þessum till., eða ef bankinn hefði orðið að lána beint til hvers einstaks lántakanda.