04.04.1930
Neðri deild: 71. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

5. mál, sveitabankar

Jón Sigurðsson:

Ég vil aðeins bæta örfáum orðum við það, sem hv. frsm. hefir sagt um þetta mál. Eins og hann drap á, hefir hv. Ed. gert talsverðar breyt. á frv., og allar miða þær í þá átt, að rýra þær tryggingar, sem við höfum sett fyrir vexti og viðgangi þessa félagsskapar. Hv. Ed. hefir numið burt úr frv. þau ákvæði, sem áttu að koma í veg fyrir það, að það söfnuðust fastar skuldir frá ári til árs, fastur skuldahöfuðstóll, sem svo stæði félögunum og félagsmönnum fyrir þrifum. Ef engar slíkar tryggingar eru settar, þá er mjög ósennilegt, að þessi félagsskapur komi að tilætluðum notum. Það, sem fyrir forgöngumönnum þessa máls vakti, og öðrum, sem að þessu frv. standa, er að útvega bændum fé til búrekstrar, en ekki til skuldasöfnunar, og hin eina vörn gegn því er að setja ákvæði um, að félagsmenn skuli vera a. m. k. einu sinni á ári skuldlausir við félagið. Þessi ákvæði höfum við sett inn í frv. samkv. till. stj. Búnaðarbankans, en nú hefir hv. Ed., illu heilli, haft þessar till. að engu. Ég vil því leyfa mér að skjóta til hæstv. stj., hvort hún vilji ekki hafa þetta í huga, þegar samin verður reglugerð fyrir Búnaðarbankann, því að ég álít, að þótt svo slysalega hafi nú til tekizt, þá megi nokkuð úr bæta, með því að setja þessi ákvæði inn í reglugerðina. Ef hæstv. atvmrh. vildi taka þetta til greina, gæti ég eftir atvikum verið ánægður, þótt frv. verði samþ. óbreytt eins og hv. Ed. hefir gengið frá því. En hitt er alveg víst, að ef engin slík öryggisákvæði eru sett, en allt látið reka á reiðanum í þeim efnum, þá getur vel farið svo um þessar stofnanir, að þá verði á ýmsum stöðum verr farið en heima setið, því lánstraustið má misbrúka, ekki síður en önnur gæði, eins og reynslan hefir oft sýnt, ef ekki hefir verið beitt nægilegri varúð.