20.02.1930
Efri deild: 30. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

14. mál, Menntaskólinn á Akureyri

Jón Þorláksson:

Ég hafði ekki heyrt um skeytið, sem skólastjóri hefir fengið í hendur frá háskólanum, en það verð ég að segja, að mér kemur það mjög á óvart, ef háskólaráðið hefir lýst yfir því, að latínukunnátta væri aðeins nauðsynleg í læknadeild. Ég vil benda á það, að hér er einnig svokölluð heimspekideild, en aðalnámið er þar norræn fræði, og fæ ég ekki skilið, hvernig nemendur ættu að geta numið þau fræði til fulls án þess að geta farið út í og kynnt sér samanburðarmálfræði, og þá verður ekki komizt framhjá kunnáttu í latínu. Ég hefi líka ímyndað mér, að guðfræðideildin óskaði eftir, að piltar geti lesið lærifeðurna og kirkjufeðurna, sem eins og kunnugt er hafa ritað eingöngu á latneskri tungu, og merkustu guðfræðingar hafa einnig ritað á latínu allt fram á vora daga.

Svipað hygg ég, að mætti segja um lögfræðina, enda þætti mér þeir lögfræðingar undarlegir, sem ekki skildu tilvitnanir í Rómarétt eða kynnu almennustu lögfræðileg hugtök á latínu, sem nú eru á hvers manns vörum. Hinsvegar segja lögin ekkert um, hve miklar kröfur eigi að gera í þessu efni, og fæ ég þá ekki annað séð en að vel mætti samræma námið og þörfina á kunnáttunni, þannig að ekki kæmi að sök.

Ekki er ég hræddur við það, að ákvæði 4. gr. verði misbrúkað eða að nokkurri kennslumálastjórn detti í hug að fækka námsgreinum fram yfir það, sem þörf gerist.

Annars finn ég það, að ég er kominn hér í öfuga aðstöðu við hv. þm. Ak., því að ég, sem hefi verið talinn andstæðingur skólans, vil gera hann betri en hv. þm. virðist hafa tilhneigingu til, en það mun orsakast af því, að mér er illa við allt kák og fæ ekki séð, hvaða ástæða hefir verið til að gefa skólanum sama nafn og réttindi og skólanum í Reykjavík, en heimta þó ekki sama nám.

Vilji menn gera skólann að almennum unglingaskóla, er auðvitað ekkert við því að segja, en eigi hann að útskrifa stúdenta og gera þá hæfa til háskólanáms, verður hann að uppfylla þau skilyrði, sem þarf til að hann standi jafnfætis skólanum í Reykjavík.