07.02.1930
Neðri deild: 17. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (1158)

36. mál, járnbraut frá Reykjavík til Ölfusár

Gunnar Sigurðsson:

* Það bar ekki að skilja orð mín svo í fyrri ræðu minni, að ég vildi amast við umr. á þessu stigi málsins, heldur á þá leið, að ég bjóst við, að hugir manna væru uppteknir af öðru alvarlegra máli í svipinn.

Ég ætla að svara hv. 1. þm. Skagf. viðvíkjandi brýningu hans til okkar sunnlenzku þingmannanna; það voru vissar ástæður til þess, að ég gekk ekki lengra, og eins mun hafa verið um hina að því er snertir frestinn til 1932.

Ég vil ekki segja, að stj. hafi beinlínis gefið vilyrði fyrir því, en það var látið í veðri vaka frá hennar hálfu fyrir síðustu kosningar, að kringum 1930 yrði eitthvað gert til framkvæmda í járnbrautarmálinu. Ég hafði alltaf vaðið fyrir neðan mig og vildi ekki skrifa undir áskorun til forsrh. um að veita ekki sérleyfið til Títanfélagsins, svo framarlega að peningar væru ekki fyrir hendi, því að hæstv. forsrh. gat alltaf sagt, að félagið hefði ekki nægilegt fé fram að leggja. Annars skal ég lofa hv. 1. þm. Skagf. og hæstv. forsrh. að deila um það atriði. Ég gat ekki komið auga á þá hættu af fyrirtækjum félagsins, ef vel væri um hnútana búið.

Ég vil svara hæstv. forsrh. því, þar sem hann var að tala um nauðsyn á rannsókn þessa máls, svo að undirstaða þess yrði sem traustust, og ég skal ekki lá honum það. En þó vil ég sérstaklega taka það fram, að undirstaða allra framkvæmda á Suðurlandi er lausn samgöngumálanna, og þá að sjálfsögðu með járnbraut austur yfir fjall. Og ég er ekki ósanngjarnari en það, að ég tel sjálfsagt, að ríkið hafi tekjur af þeirri hækkun landverðs, er leiðir af járnbrautarlagningunni.

Ég vil undirstrika það, að peningahlið þessa máls er í raun og veru alltaf að smækka í hlutfalli við aukningu verðmæta í landinu. Brunabótavirðing allra húseigna í Reykjavík er 80–90 millj. kr., og sé sú upphæð borin saman við kostnað af þessum samgönguframkvæmdum, þá virðist hann ekki ægilega hár. — Af því að ég treysti núverandi stjórn miðlungi vel í þessu máli, þá bar ég fram á síðasta þingi fyrirspurn til hennar um, hvað hún hefði í hyggju að gera því til úrlausnar; en allir vita, hvernig henni reiddi af, því að sökum veikinda hæstv. atvmrh. kom hún ekki til umr.

Þá vil ég segja hæstv. forsrh., að ég hygg það rangt með farið hjá honum, að hann hafi aðeins lýst sig fylgjandi samgöngubótum austur á Suðurlandsundirlendi á Ægissíðufundinum fyrir síðustu kosningar; hann talaði þar um járnbraut, og í öllum þingmálafundargerðum úr Rangárvallasýslu á síðari árum hefir verið samþ. ályktun um járnbraut „austur yfir fjall“. Mig minnir, að hann talaði líka um járnbrautarmálið á fundi við Þjórsárbrú 1927 og að kjósendur væru honum þakklátir fyrir þá framkomu. (Forsrh.: Ég hefi aldrei talað á þingmálafundi við Þjórsárbrú). Þá hefir það verið hæstv. dómsmrh., því að vissulega var þar um málið rætt af hálfu núv. stj. En hvað sem þessu líður, þá vil ég alls ekki leggja þann skilning í orð hæstv. forsrh., að hann sé ófáanlegur til að leysa þetta mál á þeim grundvelli, að járnbraut verði lögð, sem ég fyrir mitt leyti hefi slegið föstu. Mér þykir vænt um þá miðlunarleið, sem hv. 1. þm. Reykv. benti á, að ef ekki þætti fært að leggja járnbraut, þá skuli rannsakað vegarstæði fyrir bílveg austur og þetta samgöngumál leyst á þann hátt, sem heppilegast þætti.

Ég vænti þess, að fleiri þm. verði eins og hv. 1. þm. Skagf. og sýni, að þeir eru lausir við hreppapólitík í þessu máli. Okkur hefir borið ýmislegt á milli á undanförnum þingum, en ég verð að láta hann njóta þess sannmælis, að í þessu máli hefir hann verið eindreginn frá upphafi og sjálfum sér samkvæmur.