21.03.1930
Neðri deild: 59. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1931

Gunnar Sigurðsson:

Til þess að tefja ekki tímann um of, skal ég í þetta sinn aðeins tala sem frsm. samgmn., og þá aðeins minnast á eina till., þá til Flugfél. Íslands, styrkur til flugferða, 20 þús. kr., og til flugvélakaupa 50 þús. kr. Ég skal taka það fram, að ég get í raun og veru verið hæstv. fjmrh. þakklátur fyrir undirtektir hans. Hann mælti í raun og veru með þessari till., þótt hann hinsvegar af varfærni og af hræðslu við getuleysi ríkissjóðs treysti sér ekki fyllilega til að mæla með henni á þessu stigi og í þessu formi. En það skein út úr orðum hans, að hann er þessu máli fylgjandi, eins og reyndar hver einasti maður hlýtur að vera. Einn hv. þm. hefir sagt við mig, að ég hafi átt að tala lengur í gær fyrir þessu máli. Ég talaði að vísu ekki lengi, en ég tók þó fram öll aðalatriði málsins. Ég hélt líka, að allir hv. þm. væru vel heima í þessu máli, og það er mér ávallt mjög á móti skapi að túlka mál mitt á Alþingi eins og gert myndi vera í barnaskóla.

Ég benti á það í gær, að dr. Alexander Jóhannesson, sem manna bezt hefir barizt fyrir þessu og verið hefir frömuður flugmála hér, hefir skrifað rækilega um þessi mál í tvö stærstu blöðin hér, Tímann og Morgunblaðið, og lýst þar „plani“ flugmanna. Telur hann nauðsynlegt, að ríkið leggi fram 50 þús. kr. styrk eða til hlutabréfakaupa. Er tilætlunin að kaupa tvær flugvélar og nota aðra til síldarleitar um síldveiðitímann.

Rekstrarkostnaður er talinn að muni verða 150 þús. kr. á ári. Er gerð áætlun um, að hann fáist þannig:

Styrkur úr ríkissjóði .... 20 þús. kr.

Úr flugmálasjóði ......... 55 — —

Farþegagjöld ............... 50 — —

Póstflutningur ………. 25 — —

Samtals … 150 þús. kr.

Að auki má búast við tekjum fyrir hringflug o. fl.

Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi gert sér ljóst, að verði þessi brtt. felld, þá eru flugferðir hér á landi stöðvaðar, um tíma a. m. k., og allt undirbúningsstarf eyðilagt, en í raun og veru erum við nú komnir yfir örðugasta hjallann. Viðvíkjandi síldarleit er eflaust, að við erum á réttu spori, og þar höfum við verið brautryðjendur. Norðmenn tóku það þegar eftir. Verð ég að þakka hæstv. atvmrh. fyrir skilning hans og undirtektir um það mál. Hver sem viðurkennir, að slík síldarleit sé á fullu viti byggð, hlýtur að verða með þessum styrk, því ein síldartorfa borgar hann fullkomlega. Hér er ekki verið að tala um neitt nýtt og óreynt. Á loftferðir er komin 10 ára reysla í öllum menningarlöndum heimsins. Framfarir í fluglist hafa orðið örari en í nokkurri annari samgöngubót. Bifreiðar voru miklu seinni að ná fullkomnun.

Ég vil víkja að þeim ummælum hv. frsm. fyrri kaflans, að flugferðirnar væru meira til gamans en gagns, eins og hann orðaði það. Ég veit nú, að hann hefir slegið þessu fram án þess að hann hafi meint það, eða þá sagt það í athugaleysi. Eða þá af því, að hann hefir átt erfitt með að færa rök á móti loftferðum. Heldur hv. þm. kannske, að Bandaríkin hafi 5.000, England 500–600, Frakkar álíka mörg loftför bara að gamni sínu? Önnur samgöngutæki eru þó þar miklu fullkomnari en hér. Mundu þó ekki slík farartæki miklu nauðsynlegri hér, þar sem öll „moderne“ samgöngutæki vantar? Heldur hann ekki, að þetta mundi greiða afarmikið fyrir póst- og farþegaflutningi? Hefði ekki verið gagnlegt í vetur að geta náð í hv. þm. A.-Sk. á þing, þegar allar aðrar leiðir voru lokaðar? Eða heldur hv. frsm., að ekki geti verið mikilsvert að flytja þannig dauðveika sjúklinga, sem enga bið þola, til læknisaðgerðar. Ég vil benda á það dæmi frá síðastl. sumri, er önnur flugvélin flutti dauðvona sjúkling frá Stykkishólmi og var 3 tíma í þeirri ferð. Það getur oft og einatt riðið á lífi sjúklingsins, að hægt sé að flytja hann á sem skemmstum tíma.

Ég skal ekki áfellast hv. frsm. harðlega, þótt hann hafi snúizt svona við þessu máli. Ég veit, að hann muni skilja þetta sjálfur. Ég veit, að hann hefir þann eina tilgang, að auka ekki útgjaldabyrði fjárl. Sá tilgangur er vitanlega lofsverður, en ég álít bara, að þessi liður megi sízt missa sig eða falla niður. Áhugi fyrir flugferðum fer hraðvaxandi, og alltaf verður minni og minni hætta að ferðast með flugvélum. Áætlunarferðir LuftHansa eru t.d. taldar miklu öruggari gegn slysum en t. d. bílferðir. Nýlega hefir og verið fundið upp áhald eitt, „gyrorektor“, sem gerir loftförunum fært að ferðast í þoku. Áhald þetta segir jafnan til um það, hversu loftfarið er langt frá jörðu. Áætlunarferðir eru nú daglega milli Parísar og Lundúna, sem er löng leið.

Ég skal taka það fram, að ef flett er í gömlum Alþt., má sjá, að nákvæmlega sömu skoðun hefir verið haldið fram um bílana þá og nú er gert um flugvélarnar: að þeir gætu orðið til gamans, en aldrei til neins gagns. Þessa skoðun lét einn þm. þá í ljós. Nú þykir sú skoðun blátt áfram hlægileg. En spá mín er sú, að enn skemmra verði þangað til það þykir jafnhlægilegt að vera á móti því, að flugvélar verði teknar í notkun hér á landi. Ég vil og minna á, að Einar H. Kvaran lætur mann í einni sögu sinni segja, að Íslendingar, sem kæmu upp í járnbrautarvagn, mundu geta hlotið hana af því, að vagninn færi harðara en þeir hugsuðu. Ég vil þó ekki segja, að neinum hv. þm. sé svo varið, að hann af þeirri ástæðu þoli ekki að ferðast í flugvél. En ég vil fullyrða að þeir, sem greiða atkv. móti þessari till. nú, munu sjá eftir því síðar. Það má vera, að hægt sé að stöðva þetta mál í bili, en aldrei til langframa. Og að stöðva það nú er hinn mesti skaði, því allur sá undirbúningur, sem nú er hafinn, verður þá að engum notum.