28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (1191)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Eggerz:

Það er óþægilegt, að svona stórt mál skuli vera tekið fyrir án þess að frsm. minni hl. sé viðstaddur. Umr. geta að þessu sinni því ekki hnigið að nál. og brtt. minni hl., þar sem frsm. getur ekki gert grein fyrir afstöðu sinni.

Ég vildi segja hér nokkur orð út af brtt., sem ég ber fram. Ég vil taka það fram um tekju- og eignarskatt almennt, að þeir séu í eðli sínu hinir réttlátustu skattar, en örðugleikar á framkvæmd þeirra eru svo miklir, að þeir koma oft og tíðum ranglátlega niður. Þeir, sem ávallt verða að greiða tekjuskattinn, eru hinir föstu launamenn, en aðrir, sem hafa í rauninni meiri möguleika til að bera skattinn, komast undan honum. Þetta er svo um allan heim, enda er hann kallaður í Þýzkalandi „Lohnsteuer“, vegna þess hve þungt hann kemur niður á launamenn.

Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort það sé í rauninni sæmilegt að afgreiða þetta frv., sem á að verða hyrningarsteinninn undir skattalöggjöf okkar, á einni morgunstund, án þess að minni hl. segi eitt einasta orð. (MT: Hver hefir sagt, að það ætti að gera það?). Hefði ég ekki kvatt hér hljóðs nú, hefði verið látin fara fram atkvgr. um málið.

Þá sný ég mér að brtt. minni á þskj. 264, sem fer fram á, að svo verði áfram, að menn megi draga tekjuskatt, eignarskatt og útsvör frá skattskyldum tekjum. Það er svo óeðlilegt sem verið getur, að menn eigi að borga nýjan skatt af þeim sköttum, sem þeir þegar hafa greitt. Ég skal sýna þetta með dæmi, sem ég bý til. Er það eðlilegt, að maður, sem hefir 10 þús. kr. tekjur og borgar af þeim 3000 kr. í tekjuskatt og útsvar, að hann eigi næsta ár að telja 10 þús. kr. fram sem skattskyldar tekjur? Þó að hann hafi þessar 10 þús. kr. á pappírnum, þá eru raunverulegar tekjur hans ekki meiri en 7000 kr.

Ég sagði, að tekjuskattur væri sanngjarn í eðli sínu, en yrði oft ranglátur í framkvæmd. Ef slík ákvæði sem þessi, sem skylda menn til að greiða skatt af tekjum, sem þeir ekki hafa, er sett í löggjöfina, þá hlýtur það að verða til að gera skattinn óvinsælan. Ég hefði satt að segja gaman af að heyra röksemdirnar fyrir þessari breytingu.

Þá hefði ég ekki síður gaman af að heyra, á hvaða skatta-„principi“ sú miðlunartill. hyggist, að leyft skuli að draga helming af tekju- og eignarskatti og útsvari frá skattskyldum tekjum, en ekki hinn helminginn. Hv. frsm. meiri hl. segir, að þessi till. mín dragi úr tekjuskattinum. En hans miðlunartill. gerir það líka. Ég get ekki gert það upp að sinni, hversu mikið mín till. dregur úr skattinum, en ef skatturinn minnkar um of við hana, þá vil ég benda á, að í 16. gr. frv. eru ákvæði, sem leyfa fjárlagavaldinu að hækka skattinn, ef hann er of lágur.

Ég ætla ekki að fara um þessa brtt. fleiri orðum, en verði hún ekki samþ., þá er hér verið að skapa verulega rangláta löggjöf. Þegar um jafnviðkvæm mál og skattamál er að ræða, þá er mjög varhugavert að setja auðsætt ranglæti inn í lögin, og sízt hefði þess verið að vænta nú, þegar mþn. hefir setið á rökstólum um þessi mál, til þess að skapa meira réttlæti en áður og nema burt sem mest af því ranglæti, sem í þessari löggjöf hefir verið og skapazt hefir af því, að nauðsynin hefir þvingað okkur til að ganga framhjá ýmsum sjálfsögðustu frumreglum í skattamálum, af því þörfin hefir verið svo mikil fyrir fé í ríkissjóð, en það hefir oft ekki náð fram, sem réttlátast var, en umfram allt hefir þurft að ná í peningana.