05.04.1930
Neðri deild: 72. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (1421)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Þetta mál hefir verið hér oft áður rætt ítarlega í þinginu; seinast voru miklar umr. um það 1928.

Eins og kunnugt er komst þessi einkasala hér á 1. jan. 1922 og var lögð niður 1. jan. 1926. Ég vil nú leyfa mér að rifja upp, án þess að ég ætli að halda mjög langa ræðu, þær tekjur, sem ríkissjóður hafði af einkasölunni og tollum á þessum árum. Árið 1922 voru þær 339 þús. kr., 1923 634 þús. kr., 1924 878 þús. kr., 1925 1108 þús. kr. Svo var eins og kunnugt er, eftir að einkasalan var afnumin, hækkaður tollur á tóbaki. Þá voru tekjurnar sem hér segir: 1926 1134 þús. kr., 1927 900 þús. kr., 1928 1 millj. og 1929 eru þær áætlaðar 1249736 kr. Ég hygg, að það muni vera rétt, að þrátt fyrir það, að tollur var hækkaður, þegar einkasalan var afnumin, mun niðurstaðan hafa orðið sú, að tóbakið hafi orðið ódýrara á eftir. Það má vera, að það liggi að einhverju leyti í breyttu tóbaksverði.

Það, sem mér skilst vera auðsætt í þessu máli, og sem reynslan að sjálfsögðu sýnir, er það, að með báðum þessum leiðum má auðvitað útvega ríkissjóði tekjur. Aðalatriðið er hvor leiðin er betri. Og þá kemst maður alltaf að sama spursmálinu, hvort betur sé séð fyrir verzluninni með samkeppni eða einkasölu.

Eitt af fyrstu spursmálunum verður þá, hvort einkasalan geri betri innkaup en sú frjálsa verzlun. Á því veltur það, hvort varan verður ódýrari í landinu í samkeppni eða einokun.

Það gildir ekkert sérstakt um einkasölu á tóbaki frá því, sem er um aðrar einkasölur.

Í samkeppninni er það lífsspursmál fyrir hvern einstakling, sem við verzlun fæst, að ná sem beztum innkaupum og reka verzlunina með sem minnstum kostnaði. Í einkasölunni deyfist áhuginn fyrir þessu. Þar er enginn til að kontrollera innkaupin og einkasöluforstjórinn lifir alveg eins góðu lífi, hvernig sem innkaupin takast. Auk þess, þegar svo mikið er keypt í einu, geta orðið svo mikil mistök, þegar allt er á einni hendi, en allt öðru máli er að gegna þegar samkeppnin ræður. Hér skal ekki farið út í það, ef freistingarnar koma yfir þá einu hönd, sem hefir verzlunina í hendi sinni, þannig að verzlunin verði mjólkurkýr fyrir hann. Þá er auðvitað spillingin byrjuð. Ef komizt yrði aftur að þeirri niðurstöðu, að einkasala á tóbaki væri ódýrari og betri en frjáls verzlun, þá gengi sú röksemdaleiðsla lengra og það yrði farið að koma á sömu verzlunaraðferðinni á öðrum sviðum, svo niðurstaðan yrði sú, að við fengjum eintómar einkasölur. Annars verð ég að segja það, að það er í raun og veru einkennilegt, hvað menn eru minnislitlir, þegar þeir minnast þess ekki, hve einokunin gamla var djöfulleg fyrir þjóðina. Myndin af bóndanum með húfuna í hendinni fyrir framan feitan einokunardrjólann, biðjandi um rándýra vöru, ætti að sitja fastari í hugum manna en hún nú gerir. Og þó innlendir menn séu nú einokunarherrar, þá mun það sýna sig, þegar þeir eru búnir að ná miklu af verzluninni í sínar hendur, þá heimta þeir auðmýktina í augun og húfuna í hendina; þá getur það gamla endurtekið sig.

Eins og ég oft hefi lýst yfir, er ég á móti allri einokun. En einokun getur náð yfir stærra svið en þetta. Og hættulegust er einokunin, þegar hún er komin á fjármálatoppinn, þegar einokun er komin á bankana og þar með öll peningaverzlunin komin á eina hönd. Þá sjá menn fyrst, hvers þeir mega vænta.

Það hefir oft verið bent á það — og sýnist í raun og veru ástæða til að benda á það í hvert skipti, sem einokun er á ferðinni, sérstaklega þar sem hún sýnist eiga svo mikil ítök hjá ráðandi flokkum í landinu —, að ef peningaverzlunin færist æ meir og meir á eina hönd, þá muni spillingin stinga upp höfðinu.

Það hefir stundum hér á Alþingi verið tekið tillit til þess, hvað gilti annarsstaðar um þau mál, sem hér eru til umr., og þá einkum hvað gilti hjá Norðurlandaþjóðunum. En nú er það svo, að þær hafa sama sem enga einokun, og er því meiri ástæða til þess að taka tillit til þeirra, þar sem í Danmörku og Svíþjóð eru jafnaðarmannastjórnir. Það lítur út fyrir, að þær stjórnir treysti sér ekki inn á einokunarbrautina.

Menn hafa hér eitt augljóst dæmi upp á einokun. Það er síldareinokunin, sem búin er að standa hér um nokkur ár. Ég skal hreinskilnislega játa, að ég er ekki svo vel að mér í rekstri síldarverzlunar, að ég ætli að fara ítarlega út í það. En hitt er víst, að þann tíma, sem þessi einokun hefir lifað, hafa sýnt sig ýms þau einkenni á henni, sem jafnan hafa fylgt allri einokun. Það er þó aðallega eitt atriði, sem ég sérstaklega vil minnast á, og það er það, að mér finnst það hvíla svo mikil hula yfir öllu því, sem gerist í þessari einkasölu. Og það er svo erfitt að fá skýrar myndir af því, sem gerist í þessari verzlun, þótt það virðist vera mjög auðvelt að gefa upplýsingar um ýms atriði, sem spurt hefir verið um. Það hefir t. d. verið mikið um það deilt nú síðastl. ár, hvort vantað hafi tunnur eða ekki. Því hefir harðvítuglega verið haldið fram af framleiðendum, að það hafi vantað tunnur, en það hefir verið borið til baka af forstjórum einkasölunnar. Ég get ekki dregið upp skýra og áhyggilega mynd af þessu máli. Hitt veit maður, að saltað muni hafa verið um 120 þús. tunnur. Þó hefi ég það ekki eftir skýrslum, heldur frá útgerðarmönnum, en það mun láta nærri.

Þá er annað atriði, sem talað hefir verið um og mér finnst einfalt að gefa upplýsingar um. Síldareinkasalan mun hafa orðið skaðabótaskyld vegna samninga, sem hún hefir gert, en ekki getað fullnægt. Hvað er það sanna í þessu máli?

Mér er sagt, að innihald síldartunnu hafi verið selt á 13 kr., sem er sama og að hver tunna hafi verið seld á 24 kr. En á sama tíma er verðið 40 kr. fyrir hverja tunnu síldar í Kaupmannahöfn. Hvað mikið hefir nú verið selt með háa verðinu og hvað mikið með lága verðinu? Og hefir einkasalan orðið skaðabótaskyld, og þá hve mikið og í hverju er sú skaðabótaskylda fólgin? Þessa hluti ætti Alþingi að vita fyrir löngu. En ég, sem er einn fulltrúi þjóðarinnar á þessu þingi, veit ekkert, hvað rétt er í þessu.

Mér var álasað hér á eldhúsdeginum af einum hæstv. ráðh. fyrir það, að ég skyldi leyfa mér að standa á móti einokun.

Ég hefi veitt því eftirtekt, að þegar útgerðarmenn selja, fá menn að vita það strax næsta dag, hvað selzt hefir fyrir mikið. Þetta gefur mönnum bendingu um það, hvernig markaðurinn er. En þegar síldareinkasalan selur, veit maður það ekki fyrr en seinna, stundum löngu eftir dúk og disk. Það er þessi hula, sem hvílir yfir öllu starfi einkasölunnar. En þegar selt er þannig, að ekkert má fréttast, er ekki hægt að koma eins sterkri gagnrýni að, sem viðskiptalífinu er nauðsynleg. Þó að hún sé gerð ári síðar, hefir hún ekki þá þýðingu, sem hún ætti að hafa. Eða því má ekki reka verzlunina fyrir opnum tjöldum, svo öllum sé kunnugt um rekstur hennar? Og ef það er svo erfitt að fá að vita, hvað gerzt hefir við síldareinkasöluna, því er þá verið að halda lengra inn á þá braut? Og hvað ætli verði þá mikil birta yfir íslenzku verzluninni, ef hún kemst öll á eina hönd? (ÓTh: Er það svarta höndin?). Ég er enginn sérfræðingur í þessum einkasölumálum, en ég hefi varpað hér fram nokkrum spurningum sem maður, sem þykir undarlegt að fá ekki að vita meira um þessa verzlun.

Satt að segja trúi ég því ekki, að hæstv. stj. ætli að styðja þetta frv., svo að það komist í gegnum þingið. Það er henni þó í lófa lagið að gera með tilstyrk jafnaðarmanna. En ég ætla að vara hæstv. stj. við því að fara að koma þessu máli í gegn nú, einmitt þegar lífsþráður hennar er svo mjög farinn að styttast.