22.03.1930
Neðri deild: 60. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1931

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er nú í þriðja sinn, sem ég hefi þá ánægju að sitja hér fyrir áróðri hv. stjórnarandstæðinga á eldhúsdegi. (ÓTh: Það ætti að vera í síðasta sinn). Ég efast um, að hv. 2. þm. G.-K. trúi því sjálfur, að svo verði. — Í bæði skiptin hefi ég haft ástæðu til þess, þegar ég hefi hlýtt á ræðu aðalræðumanns stjórnarandstæðinga, að láta í ljós ánægju mína. Og eftir að ég hefi hlýtt á ræðu hv. 1. þm. Skagf. nú, sé ég, að ég hefi enn ástæðu til að þakka stjórnarandstæðingum fyrir það, hvernig þeir hefja árás sína á stj.

Ég skal aðeins rifja það upp, hve mikla ástæðu ég hafði til að þakka hv. þm. í hitteðfyrra. Þá líkti hann mér við hinn forvitra, rómverska guð, sem hafði tvær ásjónur og horfði annari fram í tímann, en hinni aftur til hins liðna. En í fyrra var hv. 1. þm. Reykv. kjörinn til að hefja árásina á mig, og hóf hana þá með því að segja, að stj. væri að batna.

Ef litið er í stórum dráttum yfir ræðu hv. 1. þm. Skagf., þá er það dálítið eftirtektarvert, að hann byrjar ekki á því að finna að stj. Nei, það finnst hv. þm. ekki liggja næst; hann byrjar með því að ráðast á þingið. Hv. þm. var að tala um, hve lítið lægi eftir það. Þetta væri 16. þingið, sem hann sæti, og þetta væri aumasta þingið af þeim öllum.

Svo kom hv. þm. að mér. Og þá skyldi maður halda að rauði þráðurinn í ræðu hv. þm. hefði verið árás á forsætisráðherrann. Nei, það var langtum meira árás á gamla ritstjóra. Tímans, Tryggva Þórhallsson, sem hv. þm. verður svo oft talað um. Þegar hv. þm. svo löngu síðar fer að ráðast á ráðh., verður hann að rifja upp eitthvað gamalt til þess. En ég fyrir mitt leyti er mjög ánægður með, hvernig fór um okkar viðskipti, og hefi enga ástæðu til að reyna að bæta um það aftur.

Svo hélt hv. þm. áfram að tala við ráðherrann, og þá var ég að bíða eftir einhverri nýrri samlíkingu hjá honum. Jú, hún kom. Hv. þm. líkti mér við fálka, þennan göfuga og hrausta fugl, sem um langt skeið var í skjaldarmerki Íslands. Ég verð einu sinni enn að þakka hv. þm. fyrir það, hvernig hann byrjar aðalárásarræðu sína. (MJ: Það hefði átt að líkja hæstv. ráðh. við sauð. — ÓTh: Það hefði verið réttara að líkja honum við þorsk). Nei, ég vil heldur láta líkja mér við sauð heldur en þorsk.

Ég verð að víkja að því, sem hv. þm. beindi til mín sem ritstjóra Tímans. — Af því gamla, sem hv. þm. nefndi, var það, að ég hefði kallað hv. 3. landsk. skuldakóng, og ég vil undirstrika það, að ég skal gera það enn, hvar og hvenær sem er, því að ég álit það verðskuldað nafn. En það var ekki það, hverjar skuldirnar eru á pappírnum, sem setti aðalsvipinn á ráðherradóm hv. 3. landsk. Það, sem var höfuðsvipurinn, var það, að þegar yfir Ísland kom eitthvert hið mesta góðæri og veltiár, sem yfir landið hefir komið, þá notar stj. það, með hv. 3. landsk. í broddi fylkingar, til að breyta því góðæri í hið mesta böl, með því að láta dynja yfir þjóðina hina mestu gengishækkun, sem dæmi eru til, sem bæði bankar og einstakir atvinnurekendur enn standa undir með bogin bök, vegna ofurþunga hinna ranglátu byrða.

Því næst talaði hv. þm. um það, sem ég hefði sagt um hans eiginn ráðherradóm. Náttúrlega get ég látið minn dóm koma fram um það á ný, en ég þarf ekki að vera að rifja það upp aftur, því að ég get vitnað í annan dóm, dæmdan af hans eigin flokksmönnum. Hv. þm. varð fjmrh. í fyrsta skipti þegar hann varð ráðherra. Svo komst hans flokkur aftur til valda, og ég hygg, að engum af hans flokksmönnum hafi þá dottið í hug að gera hann að fjármálaráðherra, en sá, sem var gerður að fjmrh., var verkfræðingur, sérfræðingur í atvinnumálum. En engum kom í hug að gera hann að atvmrh.; það var álitin jafnmikil fjarstæða og að gera hv. þm. sjálfan aftur að fjmrh. (MJ: Það er víst sérfræðingur í lögum, sem er dómsmrh. núna.?).

Svo kom hv. þm. aftur að okkar gömlu málum og „fjáraukalögunum miklu“. Sagðist einu sinni hafa haft þau með sér þegar hann var í þingmálafundaferð, og talaði mikið um þann árangur, sem orðið hefði af því. Það er fróðlegt að tala mikið um það, en það er ennþá fróðlegra að sjá, hver árangurinn hefir orðið í verkinu. Hv. þm. var með þau í töskunni, þegar hann bauð sig síðast fram í Skagafjarðarsýslu, — og hver varð árangurinn? Hann varð sá, að atkvæðum mótstöðumanna hans fjölgaði meira en nokkru sinni áður, um 50–100%, en hans eigin atkvæðum fækkaði að sama skapi. Það hefir m. ö. o. aldrei verið komið eins nærri hv. þm. með hinn pólitíska skurðhníf eins og einmitt þegar hann var með fjáraukalögin miklu í töskunni. Og sami hefir árangurinn orðið annarsstaðar úti um land, því að við sjáum hann alstaðar við síðustu kosningar. Það er, sem sagt, hinn mesti stjórnmálaósigur, sem nokkur flokkur hefir beðið síðan árið 1908. Ef þetta mætti nú skilja sem árangur af bardagaaðferð hv. þm., þá vildi ég fyrir mitt leyti óska þess, að hv. 1. þm. Skagf. færi sem oftast út um byggðir landsins með fjáraukalögin miklu í töskunni.

Hv. 1. þm. Skagf. vék svo ofurlítið að skýrslu, sem hann hefði gefið á þingi sem fjmrh. — ég man ekki, hvort það var á þinginu 1920 eða 1921 — og skýrslu, sem ég sem settur fjmrh. gaf á þinginu í fyrra. Um þær skýrslur er það að segja, að engum er kunnugra um það en hv. þm. sjálfum, að þær skýrslur eru samdar af starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu, og verður fjmrh. mjög að reiða sig á það, sem þeir starfsmenn gefa upp. Hv. þm. sagði, að aðstaða okkar um þetta hefði nákvæmlega verið sú sama. En ég vil segja það, að það er mjög rangt að segja, að okkar aðstaða væri nákvæmlega sú sama. Hv. þm. var fjmrh. og hafði ekkert annað starf á hendi, og átti þess vegna að hafa lagt alveg sérstakt starf í það, þegar þessi skýrsla var samin. Ég hafði, aftur á móti, hlaupið til, þegar Magnús heitinn Kristjánsson dó, og bætt því ofan á önnur störf; meira að segja sat ég líka samhliða á búnaðarþingi, og gat þá ekki hjá því farið, að ég yrði miklu háðari starfsmönnum í stjórnarráðinu um þessa skýrslugerð. (MG: Báðar skýrslurnar voru réttar). Það reyndist síðar, að þær voru hvorugar fyllilega réttar.

Þá vék hv. þm. að því, hvað þeir stjórnarandstæðingar væru vel innrættir í minn garð; ég hefði smíðað vopnin, en þeir vildu ekki beita þeim, þeir væru svo meinlausir og saklausir. Hvernig stendur á þessu? Ég hefi ekki beðið þá að vera meinlausa. Og hafi ég verið grimmur og harður við þá, því koma þeir þá ekki líka með sína grimmd? Ég bið þá engrar vægðar. Komi þeir bara og með þau vopn á mig, sem þeir geta!

Þá vék hv. þm. að sérstöku atriði frá því að ég var ritstjóri Tímans, sagði, að ég hefði þá viljað leggja skatta á krossa, en vildi nú ekkert við það fást eða væri á móti því, eftir að ég hefði verið krossaður sjálfur. Hv. þm. getur borið fram frv. um það efni, og ég lofa hv. þm. því hér í heyranda hljóði, að ég skal vera tilbúinn að samþykkja slíkt frv. hvenær sem er. (MJ: Hversvegna kemur hæstv. ráðh. ekki með það sjálfur?). Ég hefi einu sinni borið fram þess háttar frv., og goldið Torfalögin að því leyti, en þá var það fellt fyrir mér, mig minnir af hv. þm. og flokksbræðrum hans. En ég skal fylgja því af öllu afli. Svona er þessu þá varið, og hv. stjórnarandstæðingar geta hagað sér eftir því; öruggasta atkv. sitt skulu þeir hafa frá mér. (MG: Það er ekkert að marka, hverju hæstv. ráðh. lofar). Það er bezt að láta reynsluna skera úr því.

Svo sagði hv. þm., að ég hefði lánað kaupmanni einum hér í bæ 300.000 kr. úr Brunabótafélagi Íslands. Ég verð að segja það, að þetta var það illgjarnasta, sem kom fram í ræðu hv. þm., og hv. þm. veit vel, hvernig á þessu stendur. Það var einn af hans kunnustu fylgismönnum, sem lagði til, að stjórn Brunabótafélagsins fengi leyfi til að gera þetta, til að reyna að bjarga allmiklum fjármunum fyrir Brunabótafélag Íslands. Forstjóra Brunabótafélagsins fyrrv. mun ekki hafa gengið annað til en þetta. Ef hv. þm. því óskar að ræða þetta frekar, þá getur hann fengið allar upplýsingar um þetta mál hjá þessum nánasta samherja sínum.

Þá talaði hv. þm. mikið um fjós á öðrum bændaskólanum. Hann talaði aðeins um fjós, en það er um fjós og hlöðu að ræða. Já, „öðrum fórst en ekki þér“, því hv. 1. þm. Skagf. á sína sögu gagnvart bændaskólunum, og ef við förum að rifja upp, hvaða fjármuni hv. þm. lét renna úr ríkissjóði til íbúðarhússins á Hvanneyri, þá kemur það fram, að hann lét ríkissjóðinn borga þá helmingi hærri upphæð en ég hefi látið ganga til fjóss og hlöðu þar, og þótt nauðsynlegt sé að hafa stórt og gott íbúðarhús á slíkum stað, þá hygg ég þó, að gott fjós og hlaða sé enn nauðsynlegra fyrir rekstur bændaskóla. En hvað snertir heimildir fyrir stj. til að láta gera þetta, þá er sú saga svo löng, að hún nær aftur í stjórnartíð hv. 1. þm. Skagf. Það var á þinginu 1927, sem erindi kom frá bændaskólastjóranum á Hvanneyri um, að það væri ekkert undanfæri, að það yrði að byggja upp fjósið á Hvanneyri, og fjvn. Nd. lagði einróma til, að á liðinn „ýmisleg útgjöld“ væri bætt 9.000 kr. í þessu skyni, og að á næsta ári skyldi koma meira. Þetta var samþ. hér í hv. Nd., og þar sem hv. þm. var að tala um, að þetta væri mál, sem kæmi mönnum mjög á óvart, þá er þó skýrt og skilmerkilega frá því sagt í landsreikningnum, sem nú hefir verið útbýtt hér, auk þess sem þessi saga er öllum kunn, sem sátu í Nd. á Alþingi 1927. En hv. Ed. felldi þessa fjárveitingu að því sinni.

Í fjárl., sem sett voru 1928, var þetta aftur borið fram af stj. og samþ. af Alþingi, og svo var farið að hugsa um framkvæmdir á verkinu. Húsameistari ríkisins var sendur upp eftir meðan stóð yfir þingið 1928. Ég man ekki dagsetninguna, hvenær hann fór þessa ferð, en svo mikið er víst, að þegar hann kom aftur, voru fjárl. svo langt komin, að ekki var hægt að koma brtt. að. Af till. húsameistara er það að segja, að hann taldi „plan“ það, sem verið hafði áður um það, hvernig fjósið skyldi verða, með öllu óframkvæmanlegt. Það átti nefnilega að notast við veggi úr gamla fjósinu, en hann taldi það með öllu ógerlegt. En þá þurfti að leysa málið á annan hátt. Við vildum ekki, að þarna færi eins og í Reykholti, að fjósið dytti niður á kýrnar. Ég veit ekki nema hv. 1. þm. Skagf. hafi viljað það, en okkur þótti það höfuðskömm, að láta það koma fyrir á öðrum bændaskóla landsins. Húsameistari lagði til, að reist yrði nýtt fjós, fyrst ekki var hægt að nota það gamla. Húsameistari gerði áætlun um kostnaðinn í þinglokin 1928. Sú áætlun og þessar till. hans komu fyrir fjvn. Nd. rétt í þinglokin. Fjvn. hafði ekki langan tíma til stefnu, og ég man ekki, hvort sérstök samþykkt var gerð um þetta, en n. áleit, að í þessu efni yrði að fara eftir því, sem húsameistari legði til.

Það var vitanlega ekki formlegt að veita úr ríkissjóði þá upphæð, sem þetta kostaði, en það var gert í samráði við fjvn. og farið eftir till. sérfræðings, húsameistara ríkisins. Á þessum grundvelli var málið framkvæmt. Þessi bygging kostaði meira en áætlað var, eins og oft vill verða, og mér þykir ekkert undarlegt, þó að mörgum þm. vaxi þessi upphæð í augum. Og enginn átti von á því í upphafi, að þetta yrði svona dýrt. En ég skal taka það fram, að mér veg hún ekki mjög í augum. Hv. þm. sagði, að þarna hefði verið byggt yfir búfé einstaks manns. En hann veit það vel, sá hv. þm., að þetta er ekki rétt nema að litlu. Þó að ríkið eigi ekki ennþá mjög mikið af fénaði á Hvanneyri, þá er ætlazt svo til, að það verði ekki svo framvegis. Hv. Ed. gerir a. m. k. ráð fyrir því, að í framtíðinni verði rekið myndarlegi bú á Hvanneyri, sem verði ríkiseign.

Ég skal með mestu ánægju taka á móti ávítum fyrir það, að ég lét reisa þarna myndarlegt fjós og hlöðu. Og ef nú stæði svo á, að þyrfti að taka slíkar ákvarðanir, mundi ég snúast alveg eins við því). (ÓTh: Ekki má nú gleyma fjárveitingunni). Hv. þm. mega láta mig sæta ábyrgðinni fyrir þetta. Þeir mega koma og segja: „Þar sem bændaefni landsins eiga að læra að búa, þar á fjósið að detta niður á kýrnar“.

Hv. 1. þm. Skagf. spurði, hvernig verkinu hefði verið hagað, hvort það hefði verið ákvæðisvinna eða daglaunavinna. Því get ég ekki svarað nú; ég hefi engan tíma fengið til að fara og spyrja húsameistara að því. Hv. þm. heldur ef til vill, að ég hafi haft einhverja pretti í frammi við þetta, en ég skal segja honum það, að húsameistari sá um þessa byggingu eins og allar aðrar opinberar byggingar og hefir vafalaust hagað sér eins um þessa sem um allar aðrar.

Hv. þm. sagði, að umhyggja mín fyrir landbúnaðinum sýndi sig í þessu. Ég léti reisa svona stórbyggingu á einum stað fyrir afar mikið fé, en ríkissjóður væri lokaður fyrir 8–10 sveitum norður í Skagafirði, þegar þær vildu fá styrk ríkisins til að koma upp raforkuveitum. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál nú, en aðeins geta þess, að nú er verið að semja heildarlöggjöf fyrir raforkuveitur. Þess vegna eiga einstakar sveitir ekki að hlaupa fram fyrir, meðan verið er að koma skipulagi á þetta mál. En þegar þessi löggjöf er komin, þá geta Skagfirðingar komizt að með sínar till. eins og aðrir.

En ég mun jafnan, meðan ég er atvmrh., telja það skyldu mína að hlynna alveg sérstaklega að bændaskólunum, sem ég tel einna þýðingarmestu stofnanir landbúnaðarins.

Þá talaði hv. þm. um Búnaðarbankann og það húsnæðisleysi, sem hann ætti við að búa. Sem betur fer, eru fyllstu líkur á því, að það húsnæðisleysi verði ekki lengi. Og það grunar mig, að ef ég verð lengi ráðh., sem enginn veit, að ég muni fremur fá árásir fyrir það, að hafa fengið bankanum of veglegt húsnæði en of lélegt, og til þess hefi ég fremur skap. Ég vil heldur fá átölur fyrir að vera of rausnarlegur en of knífinn í því efni. Hv. þm. talaði um, að ég hefði dregið lengi að stofna bankann, en ég hefði ekki dregið að veita bankastjórastöðurnar. En hvernig er hægt að stofna banka án þess að skipa bankastjóra? Bankinn er ekki stofnaður fyrr en bankastjórarnir eru komnir. Hv. þm. vill láta draga að skipa bankastjórana. En hverjar hefðu afleiðingarnar orðið, ef það hefði verið gert? Þá hefði vitanlega öll undirbúningsvinna undir það að koma skipulagi á bankann orðið að bíða. Heldur hv. þm., að allar reglur fyrir hinar mörgu deildir bankans og yfirleitt allt fyrirkomulag bankans hefði skapað sig sjálft, svo að bankinn hefði allt í einu komið fram alskapaður eins og Aþena forðum út úr höfðinu á Seifi? Nei, til alls þessa þarf mikla vinnu, og hverjir áttu að vinna það verk aðrir en bankastjórarnir? Það er gæfa, að hv. 1. þm. Skagf. átti ekki að skipa bankastjórnina. Hann hefði látið það dragast, svo að bankinn hefði ekki getað tekið til starfa og ekkert verið hægt að gera. Ég vona, fyrst bankastjórnin var skipuð á þeim tíma, sem var, en ekki dregið að gera það, þá takist að vinna hinn nauðsynlegasta undirbúning, áður en hann flytur í þau bráðabirgðahúsakynni, þar sem hann verður að vera, þangað til hann fær önnur veglegri og betri húsakynni en þar eru.

Þá kom hv. þm. að því í ræðu sinni, þegar ég hafði á hendi yfirstjórn Íslandsbanka, eins og hann orðaði það. Honum fannst, að þessi generalbankastjóri, Tryggvi Þórhallsson, hefði að mestu leyti eða öllu leyti verið valdur að þessum vandræðum Íslandsbanka. Það hefði þó verið munur á hinum fyrrv. ráðherrum og þessum. Þeir hefðu vitað og skilið, hvað þeir voru að gera. Hv. 1. þm. Skagf. vissi, hvað hann var að gera, þegar hann tók enska lánið, það versta lán, sem nokkru sinni hefir verið tekið Íslendingum til handa. Hv. 3. landsk. vissi, hvað hann var að gera, þegar hann skipaði Landsbankanum að beina einni millj. til Íslandsbanka. Hv. þm. vill, að ég hefði gert slíkt hið sama og látið ríkið taka á sig alla súpuna, þegar bankastjórn Íslandsbanka kom til mín og fór fram á það. Ég er sammála hv. l. þm. Skagf., að það er mikill munur á mér og hinum fyrrv. bankaráðsmönnum Íslandsbanka að þessu leyti.

En ég er ósammála hv. 1. þm. Skagf. um annað. Það hefir komið fram áður í ræðu hjá honum, að hann álítur, að fyrst og fremst hafi ég sem bankaráðsformaður átt að hugsa um hag bankans, en ég álít, að fyrst og fremst hafi átt að hugsa um hag landsins. Annars fer ég ekki langt út í það mál. Ég býst við, að flestir séu nú ánægðir með það, hvernig þetta mál var leitt til lykta, og kvarta því ekki yfir því, hvernig komið er. Ég fyrir mitt leyti er mjög ánægður, ekki sízt fyrir það, að hv. 1. þm. Skagf. hefir haft tækifæri til að halda líkræðuna yfir bankaráðsformennsku minni, þó að ég hefði fremur kosið, að hann hefði getað flutt hana fyrr. Árið sem leið var ég að hugsa um að fara þess á leit við konung; að hann vildi létta því af forsrh. landsins með útgáfu bráðabirgðalaga að vera bankaráðsformaður fyrir prívatbanka. Enginn maður er glaðari en ég út af því að vera nú leystur við að vera bankaráðsformaður Íslandsbanka.

Hv. þm. fór loks að tala um fjáraukalögin í sinni tíð og fjáraukalögin nú. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál; það heyrir undir fjmrh. Hv. þm. fór hér sem oftar með villandi og rangar tölur. Ég skal aðeins nefna tvö atriði. Annað er umframgreiðsla á berklavarnakostnaðinum frá stjórnartíð hv. 1. þm. Skagf. Árið 1924 var sú umframgreiðsla 256 þús. kr., 1925 var hún 204 þús. kr., 1926 var hún 191 þús. kr. og 1927 var hún 360 þús. kr. Hitt atriðið er jarðræktarlögin. Árið 1927 var umframgreiðsla vegna þeirra 129 þús. kr. Engin þessara upphæða var tekin í fjáraukalög, en svona umframgreiðslur eru í fjáraukalögunum nú. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi til að sýna, hvað villandi þessar tölur eru hjá hv. þm.

Nú skal ég ljúka máli mínu, en vil aðeins minnast á það, sem hv. þm. talaði um einn af mínum látnu vinum, Hallgrím Kristinsson. Hann var að tala um, hvað hann hefði sagt, og var að gera samanburð á sér og honum. Ég vil ekki taka þátt í því starfi með hv. 1. þm. Skagf., hvorki nú né endranær. Ég hefi enga tilhneigingu til að nefna þá í sömu andránni, hv. 1. þm. Skagf. og Hallgrím Kristinsson, og samanburð á þeim mun ég aldrei gera.