16.04.1930
Efri deild: 81. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í C-deild Alþingistíðinda. (1466)

172. mál, einkasala á tóbaki

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég hefi ekkert að athuga við skýrslu hv. 3. landsk. þm. í þessu máli og tilheyrandi. Ég býst við, að hún sé rétt í aðalatriðunum, það sem hún nær. Framsögu minni og því, sem hann sagði, bar þar ekkert á milli.

Þau andmæli, sem hann bar gegn frv., voru, að hann staðhæfði, að einkasala mundi ekki gefa neinn tekjuauka fram yfir þær tolltekjur, sem nú renna í ríkissjóð, án þess að verð tóbaks hækkaði, og í öðru lagi taldi hann, að frv. gengi í öfuga átt, þar sem það vildi svipta ríkið tekjum, sem það hefði af tóbaksheildsölum sem skattþegnum. Almennt skoðað get ég ekki skilið, að það stafi þá af öðru en að tóbaksheildsalar leggi ekkert á þá vöru, svo að ekki sé um verzlunarhagnað af henni að ræða, hvorki fyrir kaupmenn né þótt einkasala væri, en þessir heildsalar greiði af einhverjum öðrum tekjum skatta sína og gjöld. En tilfellið er, að óhætt má gera ráð fyrir, að þeir hafi hagnað af tóbaksverzluninni. Og þá er víst, að hann færist yfir til einkasölunnar, ef hún verður sett upp. Nema þá að reksturinn yrði miklu dýrari hjá henni en þeim. En það virðast ekki miklar líkur til þess, því að reynslan sýnir, að reksturinn er ódýrari í einu lagi heldur en ef honum er skipt í marga staði. Þó að heildverzlun með þessar vörur sé að talsvert miklu leyti á einni hendi, líklega allt að helmingi, þá er þó hinn hlutinn dreifður meðal margra.

Þennan mismun á rekstrarkostnaði hefði hv. 3. landsk. þm. átt að taka til greina í samanburði sínum.

Því verður ekki neitað, að tekjur af tóbakinu hafa yfirleitt farið hækkandi, síðan tóbakseinkasalan var afnumin. En þá verður að gera meiri samanburð um það, hvort innflutningur hafi vaxið. Þar er mjög erfitt að komast að fastri niðurstöðu, en eftir því, sem ég veit bezt, hefir hann aukizt mikið, og af því mun þessi hækkun stafa, a. m. k. að nokkru leyti. Við getum endalaust haldið áfram að deila um þetta aftur og fram, meðan ekki fást næg gögn til fullra sannana og nákvæmra útreikninga eftir skýrslum. Til þess þyrfti að kanna, auk innflutnings, þær birgðir, sem liggja fyrir frá ári til árs. Það gagnar því lítið, þó að fjhn. eða einhver þdm. settist niður nú að reikna.

Ég held, að öllu athuguðu, að það eina rétta sé að ganga úr skugga um, hvort hv. Ed. lítur svipað á málið og hv. Nd., að þessi vara sé þess eðlis, að hún sé hentug til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Reynsla er nokkur frá árunum 1922 til 1925 og bendir ótvírætt í þá átt, að svo sé.

Hv. 3. landsk. þm. hneykslaðist á því, að ég talaði um stefnur og um Sjálfstæðisflokkinn og Alþýðuflokkinn. Þó viðurkenndi hann, að foringjar Framsóknarflokksins hefðu hvað eftir annað lýst yfir því á þingi og annarsstaðar, að þeir viðurkenndu, að einkasölustefna ætti rétt á sér með vissar vörutegundir. (JÞ: Ég hefi aldrei talað um einkasölustefnu). Þetta frv. er borið fram sem tekjuöflunarfrv. og er því alls ekki óskylt stefnumálum Framsóknarflokksins að því leyti. En ef menn viðurkenna ekki, að rétt sé að nota einkasölu, þá er um mismunandi stefnu að ræða.

Hitt get ég látið mér í léttu rúmi liggja, þó að hv. 3. landsk. þm. segi, að ég og aðrir menn, sem um málið hafa fjallað, hafi ekkert fram að færa annað en órökstuddar staðhæfingar. Þá má segja, að líkt standi á hjá báðum hliðum. Þó getum við, sem mælum með frv., vitnað í reynsluna frá árunum, þegar einkasalan stóð. Sjálfur flm. þessarar hugmyndar, hv. 1. þm. Skagf., sagði árið 1925, að tóbakseinkasalan hefði í engu brugðizt þeim vonum, sem menn upphaflega gerðu sér um hana. (JÞ: Þær hafa þá ekki verið miklar). Ég hygg, að finna megi í þingtíðindum þær tölur, sem hann reiknaði með, og þær munu fyllilega hafa staðizt reynsluna.

Ég hefi ekkert á móti því, að málið sé tekið fyrir í fjhn. að nýju, eins og hv. 3. landsk. þm. vill. Hitt er annað mál, hvort hann hefir von um samkomulag þar. Ég vildi fá yfirlýsingu hans um það, hvort hann vill reyna að ná samkomulagi við þann vilja, sem komið hefir fram til þess að leysa málið. Fáist hann og flokksbræður hans ekki til að ganga inn á einhverja leið til samkomulags, sé ég ekki annað en að bezt sé að láta atkv. skera úr sem fyrst.