25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Sjálfsagt þarf engan að undra afstöðu fjhn. þessarar deildar í yfirsetukvennamálinu. Þessir þrír menn, sem hana skipa, hafa á undanförnum tveim þingum, 1928 og 1929; eindregið lagt með svipuðum og jafnvel orði til orðs hinum sömu till. og nál. þeirra nú hljóðar um.

Það er ekki fyrir það, að ekki hafi verið á öllum þessum þingum frammi till., sem gengu skemmra, eða til samkomulags, eins og það hefir stundum verið orðað, en fjhn. hefir ekki séð ástæðu til þess að ganga inn á þær, því að frá kröfum þeim, sem upphaflega voru gerðar í þessu til Alþingis, hefir þegar verið talsvert hvikað, eins og sjá má, ef borið er saman við erindi frá Ljósmæðrafélagi Íslands viðvíkjandi kjörum ljósmæðra í landinu. Í fljótu máli að segja, þá hefir fjhn. tekið upp sínar till. frá í fyrra og ber þær nú fram sem breyt. við frv., sem stj. hefir borið fram til breyt. á yfirsetukvennalögunum. Sá munur, sem yrði á launum yfirsetukvenna eftir frv. stj. og eftir till. n., er talsverður. Það, sem sérstaklega skiptir miklu máli, eru lágmarkslaunin í hinum fámennu héruðum, því að þau verða lífvænlegri eftir till. fjhn. en frv. stj.

Eins og nú er gerir frv. stj. ráð fyrir 300 kr. lágmarkslaunum, og á það á síðan að koma dýrtíðaruppbót, en hækkanirnar, sem eiga að fara fram eftir því frv., eru aðeins tvennar, eiga að fara fram eftir fimm ár og tíu ár og eru þá aðeins 50 kr. í hvort sinn. Með öðrum orðum, þar sem stjfrv. gerir ráð fyrir 400 kr. launum handa ljósmæðrum, gera till. fjhn. ráð fyrir 500 kr. launum, þegar þær eru búnar að þjóna svo lengi, að þær ná hækkun eftir starfsaldri. Til þess að ná þeirri 100 kr. hækkun, sem stjfrv. vill veita, þurfa ljósmæður að starfa í 10 ár, en í 12 ár til þess að ná hámarkinu samkv. till. n., setu gerir ráð fyrir 50 kr. hækkun 3. hvert ár.

Sameiginlegar breyt. eru það í báðum þessum frv., að nú skuli sýslunefndir skyldar til að greiða dýrtíðaruppbót á launin, og sömuleiðis skuli þær ljósmæður, er skipaðar hafa verið áður en lögin ganga í gildi, njóta launahækkunar eftir þjónustualdri.

Það er ekki hægt að neita því, að eftir till. stj. eru þetta launabætur, en það er eiginlega ekkert bætt þar, sem mest er þörfin: Erfiðlegast virðist ganga að fá ljósmæður í fámennustu sveitaumdæmin, og jafnvel ómögulegt eins og stendur. Hér á þingi hefir mikið verið deilt um, hve margar ljósmæður vanti í raun og veru í umdæmi í landinu. Hæstv. fjmrh. kom inn á þetta atriði við 1. umr. málsins, en það var nú dálítið loðið, sem hann vildi draga út úr skýrslum, sem hann hafði fengið; hann skipti í tvennt, þar sem algerlega vantaði ljósmæður, og þar sem að vísu vantaði, en væri þjónað af ljósmæðrum úr öðrum umdæmum. En í raun og veru stendur ennþá óhrakið það, sem fullyrt hefir verið, að ljósmæður vanti í a. m. k. 30 umdæmi.

Annað, sem er mismunandi eftir till. n. og stjfrv., er það, að í kaupstöðum geta hámarkslaunin náð 1.500 kr. eftir till. fjhn., en ekki nema 1.500 eftir till. stj. Við nánari athugun hefi ég séð, að þar sem talað er um, að launin án dýrtíðaruppbótar megi ekki fara fram úr 1.500 kr., þá er það alveg utan garna við frv. sjálft, og kemur aldrei til framkvæmda, að þau nái 1.500 kr. í kaupstöðum eins og frv. er orðað. Í 3. tölul. 1. gr. stjfrv. stendur, að byrjunarlaun megi aldrei komast yfir 1.000 kr., svo stendur í næstu málsgr.: Laun allra yfirsetukvenna skulu hækka eftir 5 ár um 50 kr., og eftir önnur 5 ár um 50 kr“. Þarna skilst mér, að í raun og veru séu launin orðin 1.100 kr., en hvernig á svo að koma því heim, að launin geti farið upp í 1.500 kr., eins og segir í stjfrv.? Þarna er því verulegur munur á hámarkslaununum. En það er satt, að stjfrv. gerir eiginlega ráð fyrir þrennskonar launastigum, í fámennum umdæmum, þar sem launin eru lægst, í kaupstöðum með 300 og upp undir 1.000 íbúa, og þar getur verið að fari nokkuð nærri um till. stjfrv. og n., en aftur á móti í kaupstöðum verða launin, eins og ég hefi bent á, lægri hjá ljósmæðrum heldur en eftir till. okkar.

Það hefir verið efast um, að þessar kröfur frá ljósmæðrum væru annað en bara frá nokkrum konum í Reykjavík eða stjórn Ljósmæðrafélags Íslands. En ég hefi fengið í hendur fjölda bréfa, sem sýna það og sanna, að það eru ekki einungis ljósmæður hér í Reykjavík, sem að þessu standa, heldur fylgja ljósmæður úti um allt land fram kröfum sínum og æskja þess fastlega af Alþingi, að það gangi inn á þær kröfur um launabætur, sem áður hafa verið fram bornar. Það er því óhætt að fullyrða, að bak við þessar kröfur frá Ljósmæðrafélagi Íslands standa ljósmæður úti um allt land alveg einhuga. Það getur vel verið, að ég láti síðar í umr. heyra eitthvað af þessum bréfum. Ég vil líka skýra frá því, að ég hefi fengið í hendur skjöl, þar sem hreppsnefndir og oddvitar kvarta sáran út af því, hvað gangi illa að fá ljósmæður í umdæmin, og það sé vegna launakjaranna. Jafnvel þótt fylgt sé heimild í lögum frá 1919, að sýslunefndir megi greiða dýrtíðaruppbót á launin, þá sé samt ómögulegt að fá ljósmæður í umdæmin. Ég hefi og bréf í höndum, sem sýna, að það eru bændur úti um sveitir landsins, sem vilja láta hækka launin. (Fjmrh.: Vilja láta hækka launin?). Já, það hefir komið ljós, að það er ekki alltaf almenningsálit, sem bændur á Alþingi halda fram um skoðanir stéttarbræðra sinna úti um land.

Ég þykist ekki að svo stöddu þurfa að færa fram frekari ástæður fyrir till. fjhn., en vænti þess, að þær verði samþ. Þær voru samþ. í Nd. Alþingis á síðasta þingi, og fyrir hálfgerða slysni voru þær ekki afgr. sem lög frá Alþingi. Það eru a. m. k. tvennar skoðanir um, hvort deildin hafi ekki í raun og veru gengið frá frv., sem fyrir lá í fyrra, til fullnustu, þótt úrskurður félli á annan veg.

Að lokum vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvað hann eigi við með því að setja hámarkið 1.500 kr., því að ég sé ekki, að það hafi neina stoð í því, sem á undan er gengið, heldur aðeins til að „punta“ upp á, án þess að það hafi nokkurt gildi fyrir ljósmæður.