09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. 1. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi. Ég vil þakka hv. þm. Barð. fyrir það, hve fast hann hefir staðið við hlið mér í þessari baráttu. (HK: Hv. þm. mátti vita það).

Hv. þm. V.-Húnv. vildi kenna mér um stöðvun Íslandsbanka. Ég hefi engan tíma til að fara út í það mál nú, vísa til þess, sem ég hefi áður sagt, en vil aðeins segja við hv. þm.: „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“, og þá er ég hræddur um, að fyrir þeim geiri muni einhver verða, sem hv. þm. allra helzt vildi hlífa fyrir spjótslögum.

Hv. þm. sagði, að ég hefði verið að tryggja mér aðstöðu í Sjálfstæðisflokknum og að ég hefði malað gamla Sjálfstæðisflokkinn sundur. Fyrst vil ég nú segja það, að það er eitthvað alveg nýtt, að þingmenn reyni að tryggja sér aðstöðu í andstöðuflokkum stjórna; vanalega leita þeir í stjórnarflokk, sem vilja tryggja aðstöðu fyrir sig, en um það verð ég ekki sakaður. Annars lít ég öðruvísi á flokka en hann. Ég lít svo á, að það geri ekki svo mikið til, þó að flokkar falli, ef þau mál, sem þeir hafa barizt fyrir, komast fram, standa eins og klettur úr hafinu. Og það stærsta mál, sem var á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og ég barðist fyrir, er ennþá uppi og fylgt fast fram af Sjálfstæðisflokknum nú. Þess vegna er ég í honum. Annars veit hv. þm. vel, að eftir að sambandslögin voru samþ., þá riðluðust flokkarnir hér í landinu. En hv. þm. V.-Húnv. lítur öðruvísi á flokka en ég; það er auðséð. Í hverjum flokki er flokksskoðun, þ. e. skoðun forráðamanna og meiri hl. flokksins, og þar að auki hafa margir menn í flokknum sína sérskoðun. Þá vill oft fara svo, að sérskoðun þeirra og sannfæring verði að víkja fyrir flokksskoðuninni, svo að þeir verða eins og verkfæri í hendi flokksins. Þannig held ég, að það sé nú með hv. þm. V.-Húnv. Hann er ekki að halda hér fram sinni sérskoðun, heldur er það flokksskoðunin. Það, sem hann ber mér á brýn, er alveg það sama og ég hefi verið ásakaður um í Tímanum, aðalblaði þess flokks, sem hv. þm. er í. Það er ekki andi hv. þm., sem kemur fram í ræðum hans, heldur er það andi hins mikla læriföður hans og hans flokksbræðra.

Hv. þm. sagði, að ég hefði alltaf verið að mala eitthvað. Frumleikinn er nú ekki meiri en það, að hann er nú að taka upp líkinguna, sem ég viðhafði um litlu kvörnina á Hvammstanga. En sleppum nú því; hann sagði, að ég hefði malað allt mögulegt í sundur, en hver veit nema ég geti þá haldið áfram að mala í sundur allar framsóknarvitleysurnar, sem hvíla nú eins og mara á þjóðinni. En svo ég víki að flokkunum, þá er flokkstilbeiðslan í landinu orðin svo mikil, að menn oft gleyma landsheildinni: Í kringum Framsóknarflokkinn er byggður kínverskur múr. Fyrir innan þann múr ræður aðallega flokksskoðunin eða skoðun lærimeistarans, sem ég minntist á áðan. Ég veit, að það ber alltaf minna og minna á sérskoðunum. Við og við heyrist einskonar útburðarýlfur fyrir innan múrana; það eru pólitískt fordæmdar sálir, sem eru að reyna að lyfta sér upp fyrir múrana, en reka sig á hina háu fangelsismúra og brjóta vængina. Hver veit nema hv. þm. V.-Húnv. hafi einhverntíma langað til að fljúga; en framsóknarmúrarnir eru nú orðnir svo háir, að ég held það sé vonlaust, að hann nokkurntíma komist upp yfir þá. Hve sorglegt!